Foreldrar mínir gáfu mér reiðhjól þegar ég var sex ára. Í minningunni var þetta fallegt rautt hjól og á því voru hjálpardekk. Það háttaði þó þannig til þar sem við fjölskyldan bjuggum á þessum tíma að engar sléttar gangstéttir, hvað þá hjólastígar, voru til staðar. Þess vegna var ómögulegt að nota hjálpardekkin sem fylgdu hjólinu mínu. Pabbi minn bjargaði stöðunni, eins og góðir pabbar gjarnan gera, með því að hlaupa á eftir hjólinu og halda jafnvægi fyrir mig. Ég gat hætt að hafa áhyggjur af því að detta og þeystist af stað. Það eina sem ég þurfti að lofa pabba í staðinn var að halda áfram að stíga pedalana, hvað sem á dyndi. Pabbi sleppti síðan takinu án þess að ég vissi og ég hélt jafnvægi án stuðnings. Auðvitað datt ég um leið og ég fattaði að hann hafði sleppt en það varð ekki aftur snúið – ég hafði náð jafnvægi.
Hvað gerðist – jú, ég hafði fengið aðstoð við að losna undan þeirri hugmynd að ég gæti ekki hjólað, þannig komst ég í samband við lögmál eðlisfræðinnar sem hjálpa mér að halda jafnvægi.
Vandræði á Vogi
Allmörgum árum síðar gagnaðist þessi sama aðferð mér vel en þá við mun drungalegri aðstæður. Snemma á ævinni var mér algerlega um megn að lifa lífinu án þess að nota áfengi. Mér var um megn að læra að takast á við lífið eins og það birtist mér án áfengis. Áfengi var, má segja með talsverðri einföldun, í svipuðu hlutverki og pabbi minn sem hélt jafnvæginu fyrir mig með því að halda í hjólið.
Sá mikilvægi munur var þó á að áfengið sleppti ekki takinu og leyfði mér ekki að læra á lífið, drottnaði þannig í raun yfir mér. Nema hvað, ég var kominn á endastöð með áfengið, varð að hætta. Þrátt fyrir að mér væri þetta ljóst þá var mér algerlega um megn að sjá fyrir mér hvernig ég ætti að lifa án þess. Gott fólk í áfengisvandamálabransanum tók við mér og sýndi mér hvaða spor ég þyrfti að stíga til þess að ná árangri einn dag í einu. Viti menn, ég náði jafnvægi.
Hvað gerðist? – jú, ég hafði fengið aðstoð við að losna undan þeirri hugmynd um sjálfan mig að líf án áfengis væri mér andsnúið, þannig komst ég í samband við lögmálið um að sælla er að gefa en þiggja.
Ástin sigrar
Löngu seinna og á miklu bjartari stað staldra ég við og hugsa um hvað ég hafi gert rétt til að eiga skilið ást minna nánustu. Ég var lengi vel þungt haldinn af þeirri hugmynd að ég ætti ástina skilið án þess að hafa fyrir henni. Þetta breyttist eins og hendi væri veifað þegar ég fyrst horfði í augun á konunni minni og fyrst heyrði í börnunum mínum. Umsvifalaust vissi ég að ástin snýst ekki um mig heldur umhyggju fyrir öðrum. Ég og mínar hugmyndir höfðu bara verið að þvælast fyrir ástinni.
Hvað gerðist? – jú, ég hafði fengið aðstoð við að komast út úr mínum eigingjörnu hugmyndum, þannig komst ég í samband við lögmálið um að kærleikurinn er ekki eigingjarn.
Hef ég alltaf rangt fyrir mér?
Einhver gæti dregið þá ályktun af framanrituðu að ég sé þungt haldinn af þeirri hugmynd að ég hafi alltaf rangt fyrir mér. Því fer fjarri, það geta þeir vitnað um sem þekkja mig. Hugvekja mín snýst um það að manns eigin hugmyndir geta staðið í vegi fyrir persónulegum framförum, leitt mann í öngstræti eða byrgt manni sýn. Það sem ég hef lært er að stundum verð ég að þiggja aðstoð, æfa mig, og taka flugið á ný.
Athugasemdir