Morgunblaðið fagnar 110 ára afmæli sínu um þessar mundir og ber að óska blaðinu til hamingju með afmælið, blaðið á sinn sess í fjölmiðlasögu Íslands. Blaðamenn þess hafa hrint af stað nokkru sem þeir kalla „Hringferðin“ en þar er rætt við áhrifafólk í íslensku þjóðlífi. Fyrsti gesturinn var Dr. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrum forseti til tuttugu ára, ráðherra, háskólakennari og hver veit ekki hvað. Áhrifamaður án nokkurs vafa.
Í frétt sem birtist á vef mbl.is er klippa úr tveggja tíma löngu viðtali blaðamanna blaðsins við Ólaf Ragnar (sem nú má heyra t.d. í heild sinni á Spotify) þar sem farið er víða og Evrópumálin til að mynda til umræðu.
Allir sem fylgjast með þjóðfélagsumræðunni vita að bæði Morgunblaðið og Ólafur Ragnar verða seint sökuð um að vera miklir „Evrópusinnar“. Nær væri t.d. að flokka Ólaf Ragnar sem „Asíusinna“, hann talar t.d. mikið um Kína og Indland og önnur nafnbót sem er við hæfi væri „Norðurslóðasinni“ en Dr.Ólafur Ragnar er frumkvæðisaðili að því sem kallast „Hringborð Norðurslóða“ (Arctic Circle) þar sem málefni Norðurslóða eru rædd. Mikilvægi þeirra er öllum ljóst og hefur aukist á seinni árum.
Áðurnefnd Morgunblaðsfrétt ber yfirskriftina „Hvað ættum við að græða á því?“ og þar segir Ólafur Ragnar að það byggi á köldu hagsmunamati að Ísland sé ekki með í Evrópusambandinu, því þjóni það ekki hagsmunum þjóðarinnar að vera með. Orðrétt segir Ólafur: „Það er athyglisvert, ef þú horfir til okkar nágranna, Grænlendinga, Breta, Færeyinga, Norðmanna, ekkert af þessum ríkjum er í Evrópusambandinu, ekkert.“ Skoðum þetta nánar.
Tökum aftur við stýrinu, eða?
Byrjum á Bretlandi. Almennt er talið að það skref fyrir Bretland að ganga í ESB árið 1973 hafi verið eitt mesta gæfuskref sem landið tók á liðinni öld. Þegar þetta gerðist var Bretland staðnað og illa statt efnhagslega, en með aðild að ESB jókst samkeppnishæfni landsins og London varð ma. að einni mestu fjármálaborg í heimi. Viðskiptakostnaður lækkaði og laun almennings hækkuðu, framleiðni fyrirtækja jókst og viðskipti einnig. Klárlega miklir kostir sem fylgdu aðild fyrir Breta. En þeim, kannski helst þá „stjórnmálaelítunni" á hægri vængnum, leið aldrei fullkomlega vel þarna inni, þrátt fyrir augljósa kosti.
„Allir sem fylgjast með þjóðfélagsumræðunni vita að bæði Morgunblaðið og Ólafur Ragnar verða seint sökuð um að vera miklir „Evrópusinnar““
Nýlega gengu Bretar úr ESB, en var það gert á grundvelli þessa „kalda hagsmunamats“ sem Ólafur Ragnar ræðir svo gjarnan um? Nei, það var gert á grundvelli tilfinninga og lyga, en margt af því sem forsprakkar Brexit boðuðu reyndist úr lausu lofti gripið, já, jafnvel hreinn tilbúningur.
Eitt af markmiðum Brexit var að „taka aftur við stýrinu“ („take back control“) á þjóðarskútunni og minnka t.d. aðstreymi flóttamanna til Bretlands. Það hefur aldrei verið jafn mikið og á síðasta ári, eftir útgöngu. Bretar eru enn, þrátt fyrir Brexit, í miklum vandræðum með aðstreymi flóttamanna og fyrir sat Rishi Sunak, forsætisráðherra, „neyðarmorgunverð“ með þingmönnum vegna innflytjendamála.
Á sínum tíma var aðildarsamningur Breta var „sérsaumaður“ fyrir þá (frá 1985) og fengu þeir sérstakan afslátt hjá ESB af aðildargjöldum, nokkuð sem engin þjóð fékk í sínum aðildarsamningi.
Röng ákvörðun segja 55%
Í nýlegri könnun um Brexit (Statista.com) kemur fram um um 55% telja nú að það hafi verið röng ákvörðun að yfirgefa ESB, en aðeins um 33% eru á því að Brexit hafi verð rétt ákvörðun. Í annarri könnun (Yougov.co.uk) kemur fram að um 42% (á móti 36%) vilja að á næstu árum verði önnur atkvæðagreiðsla um aðild að ESB.
Einnig telja tæp 70% í könnun frá Yougov að breskir stjórnmálamenn standi sig illa varðandi Brexit, enda er nú orðið til nýtt hugtak, „Bregret“ sem vísar til eftirsjár yfir þessari ákvörðun. Þá kom einnig fram í nýlegri könnun The Guardian að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem svöruðu sögðu að Brexit hafi haft slæm áhrif á helstu svið bresks þjóðlífs, s.s. efnahagsmál og heilbrigðismál, verðlag og annað slíkt.
Þá hefur Brexit valdið aukinni spennu á N-Írlandi, en þar geisaði blóðug borgarastyrjöld á árunum 1969-1998, á milli mótmælanda og kaþólikka. Enginn vill sjá það endurtaka sig.
Brexit hefur einnig valdið Skotum gríðarlegu tjóni, en yfirgnæfandi meirihluti Skota kusu gegn því að yfirgefa ESB (68% gegn 38%). Segja má að með Brexit hafi Skotar verið dregnir og neyddir út úr samtökum sem þeir vildu mjög gjarnan vera í.
Ungt fólk í Skotlandi fórnarlömb Brexit
Í nýlegri skýrslu til skoskra yfirvalda kemur einnig fram að Skotland tapi um 3 milljörðum punda (550 milljarðar ísk) árlega vegna Brexit, matarverð hafi hækkað um næstum 50% (1/3 a.m.k. vegna Brexit) og að um helmingur fyrirtækja eigi nú í meiri erfiðleikum vegna Brexit.
Samkvæmt skýrslunni hefur fjárfesting dregist saman um rúmlega 10% og þá segir að mikilvægir markaðir fyrir vörur frá Skotlandi séu nú algerlega lokaðir. Einnig er það niðurstaða skýrslunnar að Brexit komi mjög hart niður á möguleikum ungs fólks til framtíðar. Þetta er skelfileg sviðsmynd. Afstaða Skota er sú að stefna beri að því að ganga aftur í ESB. Samantekið segir þetta okkur að Brexit sé misheppnað.
Aftur til Evrópu?
Ýmislegt bendir hins vegar til þess að Bretar séu að nálgast Evrópu (ESB) aftur og t.d. hafa Þjóðverjar boðið Bretum að endurskoða Brexit-samninginn. Það er því kannski ekki útilokað að Bretland nálgist aftur Evrópu. Bretar hafa aðeins gert fimm nýja viðskiptasamninga eftir Brexit, en endurnýjað nokkar tugi, sem eru að langmestu leyti samningar voru til fyrir og sem byggja á samningum Breta og ESB (s.s.regluverki ESB). Og í síðustu viku janúar sigldu viðræður Bretlands og Kanada um fríverslunarsamning í strand, vegna deilna um landbúnað.
Í framhaldi af ummælum Ólafs Ragnars má benda á eftirtaldar staðreyndir: Almennt er það samdóma álit nánast allra hér á landi að inngangan í EES-svæðið (og samninginn) árið 1995 hafi verið eitt mesta gæfuspor Íslands á síðustu öld. Þessi skoðun er þvert á flokka. Líta má á EES-samninginn eins og vera með annan fótinn inni í ESB, njóta ákveðinna ávaxta, en búa við talsvert áhrifaleysi varðandi ákvarðanatöku. Noregur er einnig í EES og þar sem það sama uppi á teningnum, samningurinn hefur verið Norðmönnum afar hagfelldur. Um 80% af útflutningi Norðmanna fer til ESB-landa og greinar eins og skógariðnaður lýsa samningnum eins og hann sé nánast gerður úr gulli. Þriðji aðili EES er svo smáríkið Lichtenstein.
Norska krónan hefur sögulega verið sterk enda virðist Norðmönnum ganga mun betur að stjórna sínu efnahagslífi en okkur og verðbólga nú um 4% þar eða um helmingi lægri en hér. Undanfarið hefur þó norska krónan verið að gefa eftir og þýðir það raunlaunalækkun meðal norskra launþega. Samkvæmt nýrri könnun fjölgar þeim Norðmönnum sem vilja ganga í ESB, þó enn sé meirihluti fyrir því að vera fyrir utan.
Grænlendingar og Færeyingar í raun með evru
Sama má segja um Færeyinga, sem um margt eru með mjög álíka efnahagslíf og við, byggja t.a.m. mikið á fiskveiðum, landbúnað og slíkt. Þeir eru því háðir erlendum mörkuðum, rétt eins og við og Norðmenn. Þar er verðbólga rúm 3% og þar eru vextir meira en helmingi lægri er hér. Atvinnuleysi þar um þessar mundir er 0.7%.
Færeyska krónan, sem er í raun staðbundin útgáfa af dönsku krónunni, er tengd („pegguð“) við evruna og má sveiflast um 2.25% í hvora átt. Sögulega séð hafa sveiflurnar á dönsku krónunni verið minni en þetta samkvæmt grein sem Dr. Gylfi Magnússon skrifaði í fyrra um dönsku krónuna á Vísindavef HÍ, allt svo stöðugleiki.
Og þar sem Grænlendingar eru einnig með danska krónu, þá má segja að bæði Færeyingar og Grænlendingar búi við stöðugleika í gjaldeyrismálum. Þessar þjóðir njóta því augljósra kosta að vera beintengdar evrunni, þó ekki séu þær formlega séð með í ESB.
Það er einnig staðreynd að frá því að íslenska krónan var skráð sem sjálfstæður gjaldmiðill um og í kringum árið 1920, eða fyrir um öld síðan, hefur hún tapað um 95% af virði sínu gagnvart dönsku krónunni, næstum prósent á ári. Er það ekki falleinkunn?
Athugasemdir