Nýverið varð ég vitni að ráni um hábjartan dag. Ég var stödd í matvöruverslun í Lundúnaborg þegar maður strunsaði inn í verslunina með slíku offorsi að viðskiptavinir stukku úr vegi hans. Engum duldist erindi mannsins – ekki heldur öryggisverðinum sem stóð við dyrnar. Ekki sála aðhafðist þó nokkuð er maðurinn fyllti körfu af kjöti, kaffi og súkkulaði og arkaði út aftur án þess að borga.
Þjófnaður úr verslunum eykst nú svo hratt í Bretlandi að athæfinu er lýst sem faraldri. Vegna niðurskurðar hefur lögreglan ekki bolmagn til að bregðast við smáglæpum og segja verslunareigendur búðarþjófnað orðinn glæp án refsingar. Skipulögð glæpagengi gera sér mat úr ástandinu og stela varningi á við dýrar steikur og áfengi sem þau selja svo veitingahúsum, smáverslunum eða almenningi á markaðstorgum Internetsins.
Það eru þó ekki aðeins meðlimir glæpagengja sem gerast nú sekir um rán um hábjartan dag í matvöruverslunum Bretlands. Í síðustu viku sagði stjórnarformaður verslunarinnar Marks & Spencer að millistéttin ætti stóran þátt í þeirri öldu gripdeilda sem ríður yfir. Sakaði hann fólk með nóg á milli handanna um að freistast í síauknum mæli til að setja í innkaupapokann vörur sem mistókst að skanna í sjálfsafgreiðslunni.
Emmeline Taylor, prófessor í afbrotafræði, tók undir með stjórnarformanni Marks & Spencer. Hún sagði rannsóknir sýna stóraukinn þjófnað meðal millistéttarinnar í kjölfar fjölgunar sjálfsafgreiðsluvéla. Hún sagði þar á ferðinni fólk sem léti sér aldrei detta í hug „að stela með öðrum hætti, fólk sem hefði engan áhuga á að stinga súkkulaðiplötu ofan í buxnastrenginn eða fela steik undir jakkanum“. Um væri að ræða virðulega fastakúnna sem hefðu byrjað afbrotaferilinn á að stela fyrir hálfgerða slysni en smám saman tekið markvisst að koma sér hjá því að greiða fyrir avókadóinn og manuka-hunangið sem það tók með sér heim.
Við Íslendingar eigum okkar eigin útgáfu af útsjónarsama fína fólkinu.
Telja sig ekki þjófa
Hlutafjárútboð Ísfélagsins hefur staðið yfir undanfarna viku en því lýkur í dag. Áætlað er að hlutabréf útgerðarfélagsins verði tekin til viðskipta í Kauphöllinni í næstu viku. Ísfélagið er þriðja útgerðarfyrirtækið sem skráð er á markað hérlendis.
Skráning fyrirtækis á markað kann að virðast hátindur siðfágunar. En rétt eins og stolið avókadó ofan á lífrænu súrdeigsbrauði sannar er ekki alltaf hægt að meta fínheitin af yfirborðinu einu saman.
Í fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða segir: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar“. Er þar jafnframt áréttað að úthlutun veiðiheimilda „myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum“.
Afbrotafræðingurinn Emmeline Taylor segir millistéttarræningja sem herja á breskar matvöruverslanir ekki líta á sjálfa sig sem þjófa. „Þau telja sig aðeins leika á kerfið.“
Í aðdraganda skráningar Ísfélagsins á markað færði Guðbjörg Matthíasdóttir, útgerðarkona í Vestmannaeyjum, meirihluta hlutabréfa sinna í útgerðinni yfir á fjóra syni sína. Mun fjölskylda Guðbjargar hafa selt bréf í Ísfélaginu fyrir rúma níu milljarða í tengslum við hlutafjárútboðið.
„Að setja sjávarútvegsfyrirtæki á markað mætti líkja við gjörning í anda peningaþvættis; verðmætum er komið í umferð en uppruni þeirra máður út“
Fína fólkið í Bretlandi slær nú eign sinni á valdar vörur matvöruverslana. Þau telja sig þó ekki þjófa heldur líta svo á að þau spili einfaldlega á kerfið.
Fína fólkið á Íslandi slær eign sinni á heila náttúruauðlind. Þau spila síðan hugvitssamlega á kerfið er þau afhenda börnum sínum eins og hvern annan erfðagrip það sem á blaði er „sameign íslensku þjóðarinnar“ og koma því í verð nánast eins og stolinni nautasteik á Facebook Marketplace.
Á síðasta ári fullyrti Viðskiptaráð að þvert á það sem kveðið væri á um í lögum gæti þjóðin ekki átt fiskveiðiheimildir og að aflaheimildir teldust víst til eignarréttinda.
Að setja sjávarútvegsfyrirtæki á markað mætti líkja við gjörning í anda peningaþvættis; verðmætum er komið í umferð en uppruni þeirra máður út. Í dag færast kvótaþegar skrefi nær því að slá á sjávarauðlindina varanlegri eign. Þegar aflaheimildir eru orðnar hluti af flökti hjartsláttar úrvalsvísitölunnar, samofnar fjárfestingarstefnu íslenskra lífeyrissjóða og sneið í kökuritum á eignastýringaryfirlitum, er ólíklegt að nokkur ríkisstjórn muni innkalla kvótann og skila honum þjóðinni.
Í Kauphöllinni gefst Íslendingum nú kostur á að kaupa það sem þegar er þeirra. Sumum kann að finnast það merki um fágun. Aðrir segðu það ekki annað en rán um hábjartan dag.
Hver á landið Ísland?
Hannes H segir að þjóðin sé ekki með kennitölu og geti ekki átt neitt. En hver átti landið og miðin fyrir daga kennitalnanna?
Það er ekki nóg að bjóða bara upp á að eyða ummælum.
Koma svo vefsíðugúrúar sem fáið öruglega væna þóknun fyrir ykkar verk ☻g vinnu.
Og sýnir vel hvað mestu auðrónar íslandssöguna eru mikil SKÍTSEYÐI!!!