Íslenska ríkið styður við alls kyns atvinnustarfsemi með styrkjagreiðslum. Framlag úr ríkissjóði til landbúnaðar í ár er til að mynda 20,7 milljarðar króna. Bílaleigur, sem margar hverjar skila milljarða króna hagnaði á ári, voru styrktar um einn milljarð króna með skattfé til að kaupa sér rafbíla.
Alls kyns fyrirtæki fá styrki úr Orkusjóði vegna orkuskipta, en þeir eru áætlaðir 8,6 milljarðar króna á næsta ári. Síðast þegar úthlutað var úr þeim sjóði fengu stór og öflug fyrirtæki styrki, eins og Ísfélag Vestmannaeyja, Samherji og Orkan, dótturfélag skráða félagsins Skeljar. Ísfélagið, sem hagnaðist um sjö milljarða króna í fyrra og er á leiðinni á hlutabréfamarkað, fékk 110 milljónir króna úr ríkissjóði til að kaupa rafskautaketil. Samherji, sem hagnaðist um 14 milljarða króna á árinu 2022, fékk 100 milljónir króna til að breyta skipi sínu svo það geti notað ammoníak sem eldsneyti. Matvælasjóður úthlutar á sjötta hundrað milljóna króna í ýmiss konar verkefni á ári. Á meðal styrkþega á síðustu árum hafa verið nokkur af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins.
Í nokkur ár hefur verið við lýði fyrirkomulag sem á að styrkja bókaútgáfu á Íslandi. Það felur í sér að bókaútgefandi fær allt að 25 prósent af áætluðum höfundarlaunum til baka frá ríkinu. Í síðustu úthlutun voru höfundarlaun 17 prósent af heildinni og af henni rötuðu 45 prósent til höfunda.Restin situr eftir hjá forlögum. Alls fóru 376 milljónir króna í þessar endurgreiðslur úr ríkissjóði í ár og áætlað er að þær verði 442 milljónir króna á næsta ári.
Þá var endurgreiðsla vegna framleiðslukostnaðar kvikmyndaframleiðenda hérlendis hækkuð úr 25 í 35 prósent í fyrra þegar um stærri verkefni var að ræða. Ríkisstjórnin samþykkti frumvarp um málið í maí og það var afgreitt sem lög frá Alþingi um miðjan júní. Innan kvikmyndageirans er almennt talið að framlagningu frumvarpsins hafi verið flýtt til að tryggja að framleiðsla á fjórðu þáttaröð True Detective færi fram hér á landi. Búist er við að endurgreiðslur vegna þess verkefnis verði 3,6 milljarðar króna af íslensku skattfé. Sú upphæð fer úr íslenskum ríkissjóði til bandaríska framleiðslufyrirtækisins HBO Max. Vegna þessa þurfti að sækja fjögurra milljarða króna viðbótarframlag úr ríkissjóði á þessu ári miðað við upprunaleg áform, og heildarkostnaður vegna endurgreiðslna verður í heild um 5,7 milljarðar króna.
Tölvuleikir og matvöruverslun
Ein stærsta breytingin á styrkjagreiðslum úr ríkissjóði á undanförnum árum hefur falið í sér að ríkið dælir nú gríðarlegu fjármagni í nýsköpunarfyrirtæki sem hafa hlotið staðfestingu frá Rannís um að þau eigi rétt á sérstökum skattaafslætti sem endurgreiddur er úr ríkissjóði. Styrkurinn á að vera vegna rannsóknar- og þróunarstarfs.
Árið 2015 voru styrkirnir 1,3 milljarðar króna. Í ár eru þeir 13,1 milljarður króna og á næsta ári eru þeir áætlaðir 15 milljarðar króna. Árið eftir það, 2025, verða þeir að óbreyttu 16,2 milljarðar króna.
Árlega er birtur listi yfir þau fyrirtæki sem fá slíka styrki sem eru yfir 500 þúsund evrum, eða 75 milljónum krónum á gengi dagsins í dag. Um er að ræða 59 fyrirtæki. Þau eru alls konar. Eitt rekur stefnumótaapp. Annað elur sæeyru. Þriðja þróar hugbúnað fyrir eiganda sinn, bandarískt crypto-fyrirtæki.
„Fyrirtæki sem búa til tölvuleiki fengu samtals um einn milljarð króna úr ríkissjóði í ár.“
Sum fyrirtækin sem fá háa styrki eru skráð á markað og eru á meðal stærstu fyrirtækja landsins. Má þar nefna Marel, Össur og Alvotech sem fengu 250 milljónir hvort í ár úr ríkissjóði. Það er sama upphæð og Origo, sem greiddi hluthöfum sínum út 24 milljarða króna í fyrra eftir að hafa selt Tempo og afskráði sig af markaði skömmu síðar, fékk frá íslenskum skattgreiðendum í ár.
Þá fékk Festi hf., sem rekur matvöruverslunina Krónuna, raftækjaverslunina ELKO, orkufyrirtækið N1 og Bakkann vöruhótel og hagnaðist um 2,5 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum yfirstandandi árs, 122 milljónir króna í nýsköpunarstyrk frá skattgreiðendum.
Fyrirtæki sem búa til tölvuleiki fengu samtals um einn milljarð króna úr ríkissjóði í ár. Af þeirri upphæð fór helmingurinn, hálfur milljarður króna til CCP, stærsta tölvuleikjafyrirtækis landsins, sem var á árinu 2018 selt til suður-kóreska fyrirtækisins Pearl Abyss. Frá því ári hefur CCP fengið tvöfaldan styrk, annars vegar fyrir CCP fyrir útgáfu tölvuleikja og hins vegar fyrir CCP Development /Platform fyrir hugbúnaðargerð. Samanlagt nema greiðslur úr ríkissjóði til CCP-samstæðunnar vegna nýsköpunarstyrkja um 2,1 milljarði króna frá árinu 2019 og fram á þetta ár.
Samkvæmt menningavísum Hagstofunnar störfuðu 366 manns við tölvuleikjagerð á Íslandi um síðustu áramót.
Skattinn grunar svindl
Tilgangurinn með því að stórhækka greiðslur vegna rannsókna og þróunar var að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi, veita hugmyndadrifnum fyrirtækjum betra tækifæri til að vaxa og á endanum stuðla að aukinni framleiðni fyrir íslenskt efnahagslíf í heild. Með því græða allir.
Þetta er göfugt markmið, og það er rétt að styðja myndarlega við nýsköpun. Af því verður samfélagslegur ávinningur til lengri tíma. Það verður hins vegar að gera með réttlætanlegum hætti, meta árangurinn reglulega og tryggja að þessir miklu fjármunir séu að renna í verkefni sem eru raunverulega að sinna því sem á að vera styrkjarhæft. Sérstaklega þegar um er að ræða tugmilljarða króna greiðslur til fyrirtækja á einkamarkaði á nokkurra ára tímabili.
Við það höfum við Íslendingar ekki ráðið. Skatturinn lýsti því yfir í umsögn sem hann sendi til Alþingis fyrir næstum tveimur og hálfu ári að mikil þörf væri á eftirliti með útgreiðslu styrkjanna meðal annars vegna þess að „nokkur brögð hafa verið að því að við skattskil hafi almennur rekstrarkostnaður og kostnaður sem telja verður að tilheyri frekar eðlilegum endurbótum á fyrirliggjandi afurð sem viðkomandi fyrirtæki hefur tekjur af verið færður undir kostnað vegna staðfestra nýsköpunarverkefna“.
Ekkert gert og árangur ekki metinn
Þá eru ekki ákvæði í lögum sem heimila refsingar fyrir þá sem reyna að telja fram rangar upplýsingar til að fá meira fé úr ríkissjóði en tilefni var til. Að mati Skattsins var bent á að „misnotkun á þessum stuðningi með óréttmætum kostnaðarfærslum getur leitt til verulegra útgjalda af hálfu hins opinbera, í formi óréttmætra endurgreiðslna, auk þess að raska samkeppni á markaði“.
Engar lagabreytingar hafa verið gerðar til að bregðast við þeim áhyggjum sem Skatturinn setti fram um fyrirkomulag endurgreiðslna vegna rannsókna.
Í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar vegna fjárlaga yfirstandandi árs var meðal annars fjallað um aukin fjárframlög til nýsköpunar, rannsókna og þróunar á undanförnum árum. Þar sagði: „Afar mikilvægt er að hefja vinnu við að meta árangur af auknum fjármunum og hvert við stefnum. Miklum vexti í málaflokknum fylgja vaxtarverkir sem nauðsynlegt er að leggja mat á. Fjárlaganefnd stefnir að því að meta árangur og skilvirkni af auknum fjármunum á árinu 2023.“
Eina úttektin á fyrirkomulaginu sem hefur birst opinberlega er sú sem Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) birti í sumar. Í henni fólst sú niðurstaða að 13 milljarða króna styrkir á ári hafi jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækjanna, tekjur og launakjör starfsfólks.
Fjölmiðlarnir sem má helst ekki styrkja
Þrátt fyrir allt ofangreint, þar sem stiklað er á stóru í þeim styrkjum sem ríkissjóður greiðir inn í atvinnulífið árlega og er fjarri því tæmandi samantekt, þá virðist eina styrkjakerfið sem er undir smásjá stjórnmálamanna, aðallega úr einum flokki, það sem snýr að endurgreiðslum á hluta af ritstjórnarkostnaði fjölmiðla. Í því felst að fjölmiðlar sem uppfylla almenn skilyrði geta fengið allt að 25 prósent kostnaðar vegna framleiðslu á fréttum og fréttatengdu efni endurgreiddan. Þak er á úthlutun þannig að upphæðin fari ekki öll til stærstu fjölmiðlanna. Ef sótt er um hærri upphæð en er til úthlutunar skerðast öll framlög jafnt. Úthlutunarnefnd skipuð fulltrúa frá Háskóla Íslands, Hæstarétti og Ríkisendurskoðanda fer yfir allar umsóknir. Á hverju ári hafnar hún nokkrum slíkum sem hún telur ekki standast almennu skilyrðin.
Styrkjunum er ætlað að styrkja lýðræðisstoðir Íslands. Þeir hafa verið á bilinu 380 til 470 milljónir króna og skiptast niður á þriðja tug fjölmiðla sem uppfylla almenn skilyrði. Á næsta ári fara þeir niður í 370 milljónir króna.
Um helmingur útgreiðslu í ár fór til tveggja stærstu fjölmiðlafyrirtækja landsins, Árvakurs sem gefur út Morgunblaðið, og Sýnar, sem er skráð fyrirtæki í blönduðum rekstri í meirihlutaeigu lífeyrissjóða sem heldur úti fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar. Fyrrnefnda fjölmiðlasamstæðan hefur tapað hátt í þremur milljörðum króna frá árinu 2009 og fengið á fimmta milljarð króna afskrifaða af skuldum frá bankahruni. Morgunblaðinu er ritstýrt af fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins og stjórnarformaður útgáfufélagsins er faðir núverandi ráðherra flokksins. Taprekstur Árvakurs er fjármagnaður með framlögum frá eigendum, að uppistöðu íslenskum útgerðarmönnum.
Á meðal annarra sem fengu styrk eru Bændasamtök Íslands vegna útgáfu Bændablaðsins, sem eru ekki atvinnugreinaflokkuð sem útgáfustarfsemi heldur sem hagsmunasamtök. Ritstjórn Bændablaðsins heyrir undir útgáfu- og kynningarsvið Bændasamtaka Íslands. Þetta er svipað og ef Samtök atvinnulífsins myndu gefa út dagblað um sína blautustu drauma um skattalækkanir og eftirlitsleysi, og fá ríkisstyrk til að gera það.
Að vera ósammála sjálfum sér
Umræðan sem birtist almenningi er þó ekki um það hvort fjölmiðlar sem eru niðurgreiddir af hagsmunaöflum eigi að fá greiðslur úr ríkissjóði til að styrkja lýðræðið og fjölræði fjölmiðlunar. Hún birtist aðallega þannig að valdir stjórnmálamenn, flestir úr sama flokknum, virðast vera á þeirri skoðun að fjölmiðlar eigi að vera framhald á hagsmunaátökum og að þeir sem eru tilbúnir að borga mest fyrir framlengingu á orðræðu sinni eigi að verða ofan á. Þeir sem stunda öflugt aðhald gagnvart ráðandi öflum og fréttavinnslu á forsendum almannahagsmuna frekar en sérhagsmuna eru ekki eftirsóknarverðir.
Fullkomið innra ósamræmi er í orðum slíkra stjórnmálamanna. Holdgervingur þessa popúlisma er Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður og aðstoðarmaður dómsmálaráðherra. Með annarri hendinni segir hann suma fjölmiðla segja sig til sveitar með því að þiggja ríkisstyrki og að þeir verði um leið undirseldir hlýðni gagnvart hendinni sem fæði þá. Nema Morgunblaðið, í eigu aðila sem hafa viðurkennt opinberlega að beita miðlinum í sérhagsmunabaráttu, í ritstjórn fyrrverandi flokksformanns hans og undir stjórnarformennsku föður núverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Það sé „alvöru fjölmiðill“.
„Brynjar, sem er alls ekki einn á þessum rökþrota fleka þótt hann öskri oftast manna hæst, er í raun í rifrildi við sjálfan sig“
Með hinni hendinni segir hann Heimildina „áróðurspésa fyrir ákveðna pólitík“ og að miðillinn grafi „undan íslensku atvinnulífi og sverta orðspor Íslands um allan heim“.
Sama innra ósamræmi er til staðar þegar Brynjar ræðir um útgjöld úr ríkissjóði til atvinnulífsins. Þar segir hann Sjálfstæðisflokkinn vera „á móti því að nota fé skattgreiðenda í styrki nema almannahagsmunir krefjist þess“. Upptalning yfir þá tugmilljarða styrki sem ríkissjóður greiðir út á ári, og tíunduð er hér að ofan, sýnir með vísun í raunveruleikann hvað það er grunn staðhæfing. Brynjar, sem er alls ekki einn á þessum rökþrota fleka þótt hann öskri oftast manna hæst, er í raun í rifrildi við sjálfan sig.
Kerfisbundin veiking óæskilegra fjölmiðla
Mergurinn málsins er sá að fjölmiðlun á Íslandi stendur ógn af stjórnmálamönnum og hagsmunaöflum sem vilja hafa fjölmiðlana veika og helst handbendi sem ganga erinda sem eru þeim þóknanleg. Hópi sem finnst það eftirsóknarverð hugmynd að losna við þá sem gagnrýna og veita aðhald. Sem hafa kerfisbundið beitt sér árum saman til að veikja óæskilega íslenska fjölmiðla.
Þessi afstaða hefur orðið ofan á hérlendis á síðustu árum á sama tíma og nágrannalönd okkar hafa öll innleitt sterk stuðningskerfi við fjölmiðlun sem skilað hafa þeim í efstu sætin á lista yfir þau lönd sem búa yfir mestu fjölmiðlafrelsi á meðan að Ísland situr í 18. sæti þess lista. Afleiðingin er sú að sterkum, frjálsum, fjölbreyttum og sjálfstæðum fjölmiðlum í ólíku eignarhaldi með sterkar og fyrirsjáanlegar rekstrarforsendur fækkar og fjöldi starfandi í geiranum hefur helmingast á tíu árum. Afleiðingin er samkeppnisbjögun vegna þess að stórir fjölmiðlar eru ekki reknir á rekstrarlegum forsendum.
Ríkissjóður styrkir alls kyns atvinnustarfsemi og það er gert á grundvelli þess að slíkur stuðningur sé samfélaginu til heilla. Grundvallaratriði er að þetta sé gert með almennum og gegnsæjum hætti og að viðunandi eftirlit sé með því að aðilar sem eiga ekki að hafa aðgang að stuðningnum svindli sér ekki inn í slíkan.
Stuðningur við fjölmiðla, sem er smælki í samanburði við stuðning margra annarra atvinnugreina, á þar ekki að vera undanskilinn. Sama hversu hátt Brynjar Níelsson rífst við sjálfan sig.
Algjör negla