Þessi grein birtist fyrir rúmlega 12 mánuðum.

Stórauknar tekjur vegna vaxtahækkanna skiluðu bönkunum 61 milljarðs króna hagnaði

Stóru bank­arn­ir þrír högn­uð­ust um 22 pró­sent hærri upp­hæð sam­an­lagt á fyrstu níu mán­uð­um árs­ins 2023 en á sama tíma­bili í fyrra. Vaxtamun­ur þeirra er mun hærri en hjá svip­uð­um bönk­um á Norð­ur­lönd­un­um og er nú 2,9 til 3,1 pró­sent. Eig­ið fé Lands­bank­ans, Ís­lands­banka og Ari­on banka var 706 millj­arð­ar króna í lok sept­em­ber. Heim­ild­in tók sam­an helstu stað­reynd­ir um níu mán­aða upp­gjör stóru bank­anna þriggja.

Stórauknar tekjur vegna vaxtahækkanna skiluðu bönkunum 61 milljarðs króna hagnaði

Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki högnuðust samtals um 60,9 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Það er 10,9 milljörðum krónum meira en bankarnir græddu á sama tímabili í fyrra og hagnaðurinn hefur því aukist um 22 prósent. 

Landsbankinn tvöfaldaði hagnað sinn á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins milli ára. Það verður þó að taka ýmislegt inn í jöfnuna. Hann fór úr 11,3 milljörðum króna í 22,4 milljarða króna. Alls 14,2 prósent eignarhlutur Landsbankans, í Eyri Invest, stærsta eiganda Marel með 24,7 prósent hlut, hefur til að mynda rýrnað verulega í virði á tæpum tveimur árum. Hann myndar uppistöðuna í hlutabréfaeign bankans sem voru metin á 20,6 milljarða króna í byrjun árs í fyrra en var bókfærð á níu milljarða króna og hefur þar með lækkað í virði um 11,6 milljarða króna á tímabilinu. Þorri þeirrar lækkunar, tæpir tíu milljarðar króna, átti sér stað í fyrra en hlutabréf í Marel hafa haldið áfram að lækka á þessu ári.

Íslandsbanki, sem hefur hagnast um 18,4 milljarða króna það sem af er ári, þurfti að greiða 860 milljónir króna af stjórnvaldssektinni sem lögð var á bankann fyrir margháttuð og alvarleg brot sem framin voru þegar hann tók þátt í sölunni á sjálfum sér. Alls nam sektin 1.160 milljónum króna en Íslandsbanki tók til hliða 300 milljónir króna til að mæta yfirvofandi sekt á fjórða ársfjórðungi 2022. 

Arion banki hagnaðist um 19,5 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins, sem er um 600 milljónum krónum minna en á sama tímabili árið áður. Þá var Arion hins vegar með einskiptishagnað upp á 6,9 milljarða króna, að uppistöðu vegna sölunnar á Valitor. Því eiga allir bankarnir það sameiginlegt að svokallaður undirliggjandi rekstur, sem felur í sér að lána peninga og selja þjónustu, hefur heilt yfir verið að styrkjast verulega. 

Vaxtatekjur í miklu vexti

Mestur er vöxturinn í vaxtatekjum bankanna, þeim tekjum sem þeir hafa af því að lána heimilum og fyrirtækjum landsins peninga og rukka vexti fyrir. 

Hreinar vaxtatekjur þeirra voru samanlagt rúmlega 113 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum ársins, sem er tæplega 19 milljörðum krónum meira en á sama tíma í fyrra. Vaxtatekjur bankanna þriggja hafa því vaxið um fimmtung milli ára. Þeir segja að þetta sé tilkomið vegna vaxtahækkana og stærra útlánasafns. 

Til að átta sig á því hvað hreinar vaxtatekjur eru stór partur af starfsemi fjármálakerfisins má benda á að hreinar vaxtatekjur Landsbankans, stærsta banka landsins, voru 82 prósent af öllum rekstrartekjum hans það sem af er ári. 

Vaxtamunur hærri en á Norðurlöndunum

Vaxta­tekjurnar byggja á mun­inum á þeim vöxtum sem bank­arnir borga fyrir að fá pen­inga að láni og þeim vöxtum sem þeir rukka fyrir að lána ein­stak­lingum og fyr­ir­tækjum fjár­muni. Sá munur kallast vaxtamunur. Hann var 2,7 til 3,1 prósent á árinu 2022, sem er meiri munur en var árið áður, þegar hann var 2,3 til 2,8 prósent. Um mitt þetta ár var hann kominn í 2,9 til 3,2 prósent.

Vaxtamunurinn dróst saman hjá bæði Íslandsbanka, þar sem hann fór úr 3,2 í 2,9 prósent, og Arion banka, þar sem hann fór úr 3,2 í 3,0 prósent, á þriðja ársfjórðungi. Hann jókst hins vegar hjá ríkisbankanum, úr 2,9 í 3,1 prósent, sem þýðir að hann er nú mestur þar. 

Þessi vaxtamunur er mjög mikill í norrænum samanburði. Í skýrslu starfshóps Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, um greiningu á gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna sem birt var í sumar sagði að hjá öðrum norrænum bönkum af svipaðri stærð og þeir íslensku sé hann 1,6 prósent og hjá stórum norrænum bönkum sé hann enn minni, eða 0,9 prósent. Þetta er staðan þrátt fyrir að íslensku bankarnir hafi fengið ríflega skattalækkun þegar bankaskatturinn var lækkaður um marga milljarða króna á ári og að þeir hafi verið að hagræða verulega. Sá ávinningur sem orðið hefur af þeim aðgerðum virðist ekki skila sér til viðskiptavina.

Þóknanatekjur að dragast saman

Hinn stóri reglulegi tekjupósturinn hjá bönkunum eru þóknana- og þjónustugjöld sem þeir innheimta af heimilum og fyrirtækjum landsins. Hreinar tekjur vegna þeirra voru samtals 31,1 milljarðar króna frá byrjun mars og út septembermánuð sem er um milljarði meira en þeir þénuðu á þann hátt á sama tíma í fyrra. 

Athygli vekur að þóknana- og þjónustutekjur allra bankanna þriggja drógust saman á þriðja ársfjórðungi samanborið við sama fjórðung 2022. Arion banki hefur mest upp úr þessari tegund viðskipta, alls 12,5 milljarða króna það sem af er ári. Hreinar þóknana- og þjónustutekjur Íslandsbanka voru 10,5 milljarðar króna og hafa aukist meira á árinu en hjá hinum, en Landsbankinn rekur lestina með 8,1 milljarð króna. 

Eigið fé komið yfir 700 milljarða

Bankarnir eiga gríðarlega mikið eigið fé, alls tæplega 706 milljarða króna samanlagt. Það er 20 milljörðum krónum meira en það var um síðustu áramót, en nánast öll sú aukning hefur orðið á eigin fé Landsbankans, sem hefur aukið sitt eigið fé um 14 milljarða króna það sem af er ári. Þá er búið að taka tillit til allra arðgreiðslna og endurkaupa á hlutabréfum sem átt hafa sér stað á árinu, en slíkar greiðslur til hluthafa hlaupa á tugum milljarða króna. 

Stjórnendur þeirra hafa kvartað yfir því að eiginfjárkröfur á íslenska banka séu miklu hærri en á aðra sambærilega banka í Evrópu. Grynnka þurfi á því með arðgreiðslum og uppkaupum á hlutabréfum – sem skila fjármunum út úr bönkum til hluthafa – til að bæta getu þeirra til að sýna eftirsóknarverða arðsemi á eigin fé, en það er sá mælikvarði sem stjórnendurnir nota til að mæla árangur sinn. 

Ástæður þess að eiginfjárkröfurnar eru svona háar á Íslandi má rekja aftur til hrunsins, þegar bankarnir féllu hver á fætur öðrum og gátu ekki staðið við skuldbindingar sínar. Til að koma í veg fyrir að það gerist aftur var nýju bönkunum, sem stofnaðir voru á rústum hinna föllnu, gert að vera með mikið svigrúm til að takast á við áföll og virðisrýrnun lána.

Arðsemi eigin fjár umtalsverð

Þrátt fyrir háar eiginfjárkröfur hafa bankarnir ekki verið í vandræðum með að ná viðunandi arðsemi á það eigið fé á síðustu misserum. Hjá Arion banka var hún 13,9 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins, 11,3 prósent hjá Íslandsbanka og 10,5 prósent hjá Landsbankanum.

Vert er að hafa í huga að þessi hlutfallslega arðsemi væri miklu hærri ef eiginfjárkröfum bankanna væru lægri, líkt og víða í löndunum í kringum okkur. Samt eru íslensku bankarnir með betri arðsemi en bankar af svipaðri stærðargráðu á hinum Norðurlöndunum. Í fyrra var meðalarðsemin 10,7 prósent hér en 9,6 prósent hjá samanburðarbönkunum. 

Rekstrarkostnaður farið hríðlækkandi

Rekstrarkostnaður bankanna hefur farið hríðlækkandi sem hlutfall af tekjum á síðustu árum. Hann var 59 prósent árið 2018 í 47 prósent í fyrra. Það hlutfall var með því lægsta sem þekkist meðal norrænna banka af svipaðri stærðargráðu. 

Það sem af er árinu 2023 hefur kostnaðarhlutfallið haldið áfram að vera mjög skaplegt. 

Á þriðja ársfjórðungi var það lægst hjá Landsbankanum, eða 34,6 prósent. Þar á eftir kom Arion banki með 38,2 prósent og Íslandsbanki var skammt undan með 41,3 prósent. 

Ríkið og lífeyrissjóðir langstærstu eigendur

Íslenska ríkið á Landsbankann nánast að öllu leyti. Heimild er til staðar í fjárlögum til að selja 30 prósent hlut í honum en enginn vilji virðist vera til staðar til að hefja það söluferli og enginn eiginlegur undirbúningur hefur farið fram til að ráðast í slíka framkvæmd. 

Ríkissjóður er líka stærsti eigandi Íslandsbanka með 42,7 prósent eignarhlut. Nýr fjármála- og efnahagsráðherra lýsti því nýlega yfir að það væri forgangsmál hjá henni að selja þann hlut á kjörtímabilinu, en fjárlög og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir því að það verði gert í tveimur skrefum á árunum 2024 og 2025. Alls er 89,9 prósent alls hlutafjár í Íslandsbanka í eigu innlendra aðila en um tíu prósent í eigu erlendra fjárfesta. Fyrir utan ríkið eru íslenskir lífeyrissjóðir og tryggingafélög stærstu eigendurnir með 36,9 prósent samanlagðan eignarhlut. Því er tæplega 82 prósent hlutur í Íslandsbanka í eigu þessa hóps og ríkisins. Heildarfjöldi hluthafa var 11.866 í lok september. Þeir voru um 24 þúsund eftir að bankinn var skráður á markað, og ríkið seldi 35 prósent hlut í honum, sumarið 2021. Hluthöfum í bankanum hefur því fækkað um helming á rúmum tveimur árum. 

Gildi lífeyrissjóður er stærsti einstaki hluthafinn í Arion banka með 9,85 prósent hlut, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins á 9,63 prósent hlut og Lífeyrissjóður verzlunarmanna á 9,35 prósent. Stoðir er stærsti einkafjárfestirinn með 5,38 prósent hlut en allt í allt eru hluthafar Arion banka 11.180 talsins.

Kjósa
6
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár