Þessi grein birtist fyrir rúmlega 12 mánuðum.

Mestu flóð sem sögur fara af

Fyr­ir og um síð­ustu helgi urðu ein­hver mestu flóð sem sög­ur fara af í Dan­mörku. Víða hækk­aði sjáv­ar­borð um meira en tvo metra, og á nokkr­um stöð­um um meira en fjóra metra. Eyði­legg­ing­in er gríð­ar­leg og fjár­hags­legt tjón nem­ur millj­örð­um danskra króna.

Fárviðrið sem gekk yfir Danmörku dagana 20. og 21. október kom ekki á óvart þótt fæstir hafi kannski reiknað með að það yrði jafn ofsafengið og raunin varð. Danska veðurstofan hafði í um það bil viku varað landsmenn við og hvatt til viðbúnaðar. Stormflod er hugtakið sem Danir nota yfir slíkt fárviðri, þá fer saman lágur loftþrýstingur og stormur og flóðahættan er mest í stórstreymi.

Danir þekkja vel það tjón sem flóð getur valdið. Til eru aldagamlar frásagnir af slíku en á síðustu áratugum hafa slíkir atburðir orðið æ algengari enda liggur Danmörk mjög lágt, er flad som en pandekage!              

Í desember 1999 gerði mikinn storm við vesturströnd Jótlands, sjávarborð hækkaði um rúma fimm metra og olli miklu tjóni. Sjö árum síðar, í nóvember 2006, varð mikið tjón í flóði, hundruð húsa skemmdust mikið. Þá hafði verið hvöss vestanátt sem þrýsti sjónum suður Kattegat og inn í Eystrasalt. Þegar storminn lægði gekk sjórinn til baka og olli flóði á svæðum sunnan við Litla- og Stórabelti, „badekarseffekt“ kalla Danir slíkt fyrirbæri. Stíf norðanátt hefur margoft þrýst sjó inn í Hróarskeldufjörðinn á Sjálandi, sem er rúmlega 40 kílómetra langur. Árið 2014 olli stormurinn Bodil miklum skemmdum á víkingaskipasafninu fyrir botni fjarðarins, í kjölfarið var rætt um að flytja safnið en ekki hefur orðið af því enn sem komið er. Árið 2017 urðu mikil flóð á Kaupmannahafnarsvæðinu og við Køgeflóa, í framhaldi af því ákváðu borgaryfirvöld í Kaupmannahöfn að verja milljörðum króna til flóðavarna. Á þessari upptalningu sést að flóð og tjón af þeirra völdum eru síður en svo óþekkt fyrirbæri í Danmörku.

Varnargarðar, sandpokar og risaslöngur

Ýmsar aðferðir eru til að varna því að sjór gangi á land. Við Kaupmannahöfn hafa á síðustu árum verið gerðir varnargarðar, einkum úr steinsteypu. Slíkir garðar kosta mikið fé en teljast líka örugg vörn ef rétt eru gerðir. Önnur aðferð felst í að leggja eins konar risaslöngur meðfram ströndinni. Þær eru vandlega festar og fylltar vatni þegar á þarf að halda. Þriðja aðferðin felst í því að stafla sandpokum sem mynda eins konar vegg. Síðastnefnda aðferðin er sú sem almenningur notar gjarna til að verja hús sín fyrir ágangi sjávar. 

Þegar ljóst var í hvað stefndi var reynt að bregðast við. Varnir sem fyrir voru styrktar og almenningur, búsettur nálægt sjó og við strendur, reyndi eftir mætti að tryggja eigur sínar. Eigendur húsa á helstu hættusvæðum voru hvattir til að forða sér að heiman.   

Viðvaranir veðurfræðinga ekki orðum auknar

Eins og fyrr var nefnt hafði danska veðurstofan um margra daga skeið varað við hættunni á stórflóði. Dögum saman hafði verið vestanátt sem gerði að verkum að gríðarmikill sjór safnaðist upp, ef svo mætti segja, í Eystrasalti. Þegar vestanvindinum slotaði byrjaði sjórinn að leita til baka úr Eystrasaltinu, gegnum Kattegat.

Í sterkum austanvindi, eins og núna var raunin, leitar sjórinn einkum gegnum sundin tvö, Stórabelti, milli Sjálands og Fjóns og Litlabelti, milli Fjóns og Jótlands. Leiðin að Litlabelti er greiðari fyrir sjóinn en sundið jafnframt mjórra og þess vegna urðu strandsvæðin þar, og eyjarnar úti fyrir Sjálandi og Fjóni illa úti. Sjórinn leitaði líka norður gegnum Eyrarsund, en í minna mæli þó. Það er þetta ástand sem veldur stórflóðum, eins og því sem átti sér stað fyrir viku síðan. Sundin tvö anna ekki öllum sjónum sem vill í gegn, sjávarborðið hækkar og sjórinn gengur á land. Sérfræðingar dönsku veðurstofunnar höfðu talað um að þetta gæti orðið svokallað „100 ára flóð“ það er að segja flóð sem búast má við með 100 ára millibili. Sumir töldu að þetta gæti orðið enn meira.   

Tjónið gríðarlegt

Á miðvikudeginum 18. október var byrjað að hvessa, veðurfræðingar sögðu það aðeins upphafið og það reyndist rétt. Tveimur dögum síðar var komið ofsaveður, austanrok og rigning. Yfirborð sjávar steig hratt og brátt kom í ljós að víða máttu varnir sín lítils, sjórinn braut sér leið og sópaði burt flestu sem fyrir varð. Það var þó ekki fyrr en sljákkað hafði í veðrinu og það versta var yfirstaðið sem afleiðingar veðurofsans sem nefndur var Babet komu í ljós. Og þær voru langtum meiri en flesta hafði órað fyrir. Sjávarborðið hafði víða hækkað um meira en 2 metra, á Præstø (sem er ekki eyja þrátt fyrir nafnið) á Suður-Sjálandi hækkaði sjávarborðið um 2,8 metra svo dæmi sé tekið. Á eyjunni Ærø sést hvorki tangur né tetur af  litskrúðugum smáhýsum sem stóðu á sandrifi á suðausturhluta eyjunnar. 

FlóðSkilti við höfnina í Sonderborg á Suður-Jótlandi voru við það að fara á kaf í síðustu viku.

Danskir fjölmiðlar hafa undanfarna daga birt hundruð mynda sem sýna eyðilegginguna: mölbrotin hús, stórskemmdir smábátar sem kastast hafa á land, stássstofur þar sem sófar og önnur húsgögn fljóta í metra djúpum sjó o.s.frv. 

Skilgreint sem „stormflod“

Ljóst er að tjónið af völdum veðursins er mikið. Tryggingafélögum hafa borist þúsundir tilkynninga um tjón og tilkynningunum fjölgar dag frá degi. Strax vöknuðu spurningar varðandi tryggingar. Naturskaderådet (hliðstætt Náttúruhamfaratryggingu Íslands) metur, eftir tilteknum aðferðum, hvort um hafi verið að ræða stormflod, sem kannski mætti þýða sem náttúruhamfarir. Ef um var að ræða stormflod fær almenningur og fyrirtæki bætur, samkvæmt tilteknum reglum. Framkvæmdastjóri Naturskaderådet tilkynnti síðdegis á laugardeginum 21. október að óveðrið væri skilgreint sem stormflod. Þeir sem orðið hafa fyrir tjóni þurfa að tilkynna sínu tryggingafélagi um tjónið, ráðlagt er að taka myndir sem sýna skemmdir.

Tryggingafélagið fer svo með málið áfram til Naturskaderådet. Naturskaderådet heyrir undir atvinnumálaráðuneytið og Morten Bødskov ráðherra greindi frá því í fjölmiðlum að hamfaratryggingasjóðurinn væri með ríkisábyrgð og ef eigið fé sjóðsins dygði ekki til kæmi til kasta ríkissjóðs að brúa bilið. Þegar þessar línur eru settar á blað er ekki komið í ljós hve mikið tjónið af völdum hamfaranna er í peningum talið en ljóst að það er geysimikið. 

Stjórnvöld boða stórauknar flóðavarnir

Í hamförunum fyrir tíu dögum kom berlega í ljós að flóðavörnum er mjög ábótavant þótt margt hafi verið gert á undanförnum árum. 

Á síðustu þremur árum hefur verið unnið að verkáætlun á vegum ríkisstjórnarinnar um flóðavarnir. Magnus Heunicke umhverfisráðherra kynnti áætlunina sl. mánudag. Hann tilkynnti jafnframt um fjárveitingu sem samsvarar 26 milljörðum íslenskra króna til verksins og tók fram að þetta væri fyrsta skrefið af mörgum sem nauðsynlegt væri að stíga. Stærstum hluta þessarar fjárveitingar verður varið í að stöðva landeyðingu á vesturströnd Jótlands. Þar eru langar sandstrendur sem Norðursjórinn herjar stöðugt á, ef svo má að orði komast.

Umhverfisráðherrann sagði að til að stöðva landeyðinguna væri lagt til að sandi yrði dælt upp á strendurnar og þær þannig endurnýjaðar. Í kynningu sinni sagði ráðherrann ekkert hvaðan „nýi“ sandurinn ætti að koma en í verkáætluninni er gert ráð fyrir að hann komi úr hafinu undan landi. Sandinum verði dælt með kröftugum dælum upp á strendurnar. Þegar ráðherrann var spurður um ástæður þess að stærstur hluti peninganna færi í þetta verkefni svaraði hann því til að ágangur sjávar væri langmestur á vesturströnd Jótlands þótt það svæði hefði ekki orðið fyrir barðinu á veðurhamnum núna um daginn, eins og ráðherrann komst að orði.  

Kjósa
21
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Jón Ragnarsson skrifaði
    Svo vilja allir á Íslandi notast við uppfyllingar ? Fróðlegt að sjá hvernig málin verða hér á landi ?
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár