Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Bráðnun jökla skilað sér í framleiðslu meðalstórrar virkjunar

Bráðn­un jökla á Ís­landi hef­ur á um ára­tug auk­ið inn­rennsli í virkj­an­ir Lands­virkj­un­ar sem sam­svar­ar um einni með­al­stórri virkj­un. Og rennsl­ið mun halda áfram að aukast því vís­inda­nefnd spá­ir því að jökl­arn­ir muni minnka um að minnsta kosti helm­ing til næstu alda­móta.

Bráðnun jökla skilað sér í framleiðslu meðalstórrar virkjunar
Jökullón Lón við jökla munu breytast, stækka og ný verða til með áframhaldandi bráðnun jöklanna. Mynd: AFP

Jöklar á Íslandi hafa minnkað um 19 prósent að flatarmáli frá þeim tíma sem þeir náðu mestri útbreiðslu í lok 19. aldar. Nokkrir hafa alveg horfið. Rýrnun þeirra sem eftir eru mun halda áfram vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum og í lok aldarinnar mun hún nema að minnsta kosti 40–50 prósentum, jafnvel þótt markmið Parísarsamningsins um að halda hækkun hitastigs á jörðinni undir 2 gráðum náist. Ef ekki tekst að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda verður rýrnun jöklanna enn meiri. „Framtíð jökla landsins er mjög háð þróun loftslags og sjávarhita umhverfis landið“, segir í nýútkominni matsskýrslu vísindanefndar um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi.

„Rýrnun jökla vegna loftslagsbreytinga hefur mikil áhrif á vatnsaflsframleiðslu á Íslandi“, segir svo í skýrslunni og er bent á að sú aukning, sem þegar er farin að eiga sér stað, hafi verið nýtt í núverandi kerfi vatnsaflsvirkjana og miðlana þeirra, m.a. með stækkun Búrfellsvirkjunar. „Þróun áframhaldandi aukningar er óviss en nýting hennar er háð uppbyggingu í samræmi við þróun auðlindarinnar.“

Gunnar Guðni Tómasson, framkvæmdastjóri vatnsafls hjá Landsvirkjun, fjallaði um einmitt þetta á haustfundi fyrirtækisins nýverið. Á síðustu 10–15 árum hafi fyrirtækið aukið getu til orkuvinnslu um rúmlega 2 teravattstundir. Þrjár nýjar virkjanir voru byggðar á þessu tímabili: Búðarhálsvirkjun, Þeistareykir og Búrfell II „en það sem er enn þá athyglisverðara er að fjórðungur af þessari aukningu hefur komið vegna þess að við erum sífellt að endurmeta innrennsli til okkar aflstöðva,“ sagði Gunnar Guðni.

„Við vitum öll að við búum við hlýnandi loftslag,“ hélt hann áfram. „Jöklarnir okkar eru að bráðna hraðar þannig að við erum að fá aukið innrennsli til okkar aflstöðva. Þannig að við höfum aukið getu okkar til orkuvinnslu á þessum tíma um tæplega 600 gígavattstundir með því að endurmeta innrennsli til aflstöðvanna okkar. Þetta er næstum því ein meðalvirkjun að stærð. Þetta höfum við náð að nýta í okkar kerfi og þannig nýta okkar fjárfestingar og auðlind enn betur en áður sem er auðvitað frábært.“

Meðalrennslið aukist um 11 prósent

Vegna hlýnunar og aukins rennslis samfara bráðnun jökla hefur meðalrennsli í raforkukerfinu aukist um um bil 11 prósent frá áttunda áratug síðustu aldar. Þar af hefur reynst unnt að nýta um 9,3% til aukinnar vinnslu raforku í núverandi virkjunum Landsvirkjunar.

„Þannig að við höfum aukið getu okkar til orkuvinnslu á þessum tíma um tæplega 600 gígavattstundir með því að endurmeta innrennsli til aflstöðvanna okkar. Þetta er næstum því ein meðalvirkjun að stærð.“
Gunnar Guðni Tómasson,
framkvæmdastjóri vatnsafls hjá Landsvirkjun.
Á köldum klaka Selir athafna sig í jökulsárlóni við rætur Breiðamerkursjökuls í suðurhluta Vatnajökulsþjóðgarðs.

Landsvirkjun hefur á teikniborðinu stækkun þriggja virkjana, Sigölduvirkjunar, Hrauneyjavirkjunar og Vatnsfellsvirkjunar, m.a. í þeim tilgangi að nýta aukið rennsli vegna bráðnunar jöklanna ofan þeirra til aukinnar orkuframleiðslu. Samkvæmt upplýsingum fyrirtækisins mun aflaukning í virkjununum þremur auka sveigjanleika í orkuafhendingu, m.a. vegna álagstoppa í kerfinu.

„Ef horft er til næstu 15 ára er búist við því að rennsli til raforkukerfisins haldi áfram að aukast um tæp 5% en einungis er unnt að nýta um þriðjung af þeirri rennslisaukningu í núverandi kerfi þar sem afl er orðið takmarkað,“ stendur í nýrri umhverfismatsskýrslu Landsvirkjunar vegna áforma um stækkunar Sigöldustöðvar.

Óvissa sé í spám lengra fram í tímann og eru þær háðar því hvernig ganga mun að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. „Líklegasta atburðarásin er þó sú að ef horft er lengra fram í tímann en næstu 15 ár þá mun rennsli haldast nokkuð stöðugt í næstu áratugi þar á eftir þangað til jöklar hafa minnkað það mikið að rennsli tekur að minnka.“

Eftirspurn minnkar á einu sviði en eykst á öðru

Vísindanefndin bendir í skýrslu sinni á að þurrkar, breytingar á úrkomudreifingu og hlutfalli rigningar og snævar í úrkomu innan ársins muni hafa áhrif á rekstur miðlana og vatnsaflsframleiðslu í framtíðinni. Breytingar á hvassviðratíðni geti sömuleiðis haft áhrif á rekstraröryggi vindorkuvera, ef til þess kemur að þau verði reist á Íslandi.

Sumarhlýnun geti hins vegar aukið möguleika á ræktun plantna sem nýta megi til orkuframleiðslu, bendir nefndin jafnframt á.

Skaftafellsjökull og Svínafellsjökull. Efri mynd tekin 1920–1925 (ljósmynd: Ólafur Magnússon) og sú neðri árið 2012 (ljósmynd: Aron Reynisson). Jöklarnir slitnuðu hvor frá öðrum í kringum 1940. Við hörfun jökla hafa árfarvegir tekið miklum breytingum.

Hlýnun hér á landi gæti í framtíðinni dregið úr eftirspurn eftir orku til húshitunar að mati vísindanefndarinnar en þrátt fyrir minnkun í meðalnotkun gætu sveiflur í veðurfari aukið tímabundna álagstoppa. Þá gætu loftslagsbreytingar aukið eftirspurn eftir raforku til kælimiðla.

Þá telur nefndin að loftslagsbreytingar muni hafa áhrif á eftirspurn eftir raforku. „Ólíkar forsendur um umfang orkuskipta gera það að verkum að mismunandi sviðsmyndir um orkuþörf vegna orkuskipta ná frá engri þörf á viðbótar raforku til ríflega tvöföldunar á raforkuframleiðslu, segir í skýrslu nefndarinnar. „Mikilvægt er að umskipti í orkuframleiðslu byggi á vandaðri ákvarðanatöku og miði að því að ná víðtækri samfélagssátt.“

Kjósa
2
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár