Kona sem sætir alvarlegum líkamsárásum í nánu sambandi, situr núna á heimili sínu, sannfærð um að hún geti hvergi leitað, hún eigi sér ekkert skjól, hér séu engin úrræði sem geti hjálpað henni að komast út úr þessum aðstæðum. Eftir eina árásina, sem hún vissi ekki hvort hún myndi lifa af, enda í lífshættulegum aðstæðum, opnaðist örlítill gluggi þegar hún samþykkti að sækja sér aðstoð á bráðamóttöku Landspítalans.
Konan lýsir reynslu sinni hér á eftir með bréfi, sem skrifað er í samráði við hana og fylgdarmann hennar, upp úr punktum sem þau miðluðu til höfundar:
„Uppfull af skömm, niðurlægingu og ótta gekk ég inn á bráðamóttöku Landspítalans. Mér fannst erfitt að fara þangað, öll marin og tætt. Það eitt að leita til spítalans var stór ákvörðun því það krafðist þess að ég viðurkenndi fyrir öðrum aðstæður sem ég hafði varla viljað viðurkenna fyrir sjálfri mér. Eftir fyrsta höggið hafði ég haldið í þá trú að hann hefði gert mistök sem hann myndi axla ábyrgð á og aldrei gera aftur. Á þeim tímapunkti hefði ég aldrei viljað segja neinum frá því sem hann gerði, því ég hefði ekki viljað stimpla hann sem ofbeldismann, hvorki í huga mínum, né annarra. En eftir því sem skiptunum fjölgaði og ofbeldið varð alvarlegra, því erfiðara varð að viðurkenna að ég hefði látið þetta yfir mig ganga. Ég sem er og hef alltaf verið sjálfstæð og sterk kona, hvernig endaði ég eiginlega í aðstæðum, þar sem ég var niðurlægð svona illilega, vegið var að virði mínu og tilveru?
Ég veit nógu mikið, til að hafa heyrt það þúsund sinnum að þetta geti hent hvaða konu sem er og það er hægara sagt en gert að fara frá manni sem vinnur markvisst að því að brjóta þig niður, rugla þig í ríminu og skekkja veruleikann. Þegar látlausar hótanir dynja á þér. Og þú óttast um afdrif þín og barnanna. Ég veit líka að það er ekki mér að kenna, en það er ekki nóg að vita það, þegar tilfinningin innst inni er allt önnur, eins og ég hafi með einhverjum hætti kallað þetta ömurlega ástand yfir mig.“
Þú ert í lífshættu
„Oftar en einu sinni óttaðist ég um líf mitt. Á meðan á árásum stóð vissi ég aldrei hversu langt hann myndi ganga. Hann hótaði að klára þetta í eitt skipti fyrir öll og ég trúði því. Ég vissi ekki hvort ég myndi lifa nóttina af. Ég var í lífshættu, það var ekki upplifun mín heldur veruleiki. Veruleiki sem var færður í orð og staðfestur af starfsmanni Kvennaathvarfsins, þegar ég leitaði þangað í örvæntingarfullri tilraun til að fá aðstoð utan kerfisins. Þegar ráðgjafinn hafði heyrt atvikalýsingar sagði hann skýrt: Þú ert í lífshættu. Kverkatak er lífshættulegt. Auk þess sem tölfræðin sýnir að menn sem taka konur kverkataki eru líklegri en aðrir til þess að valda lífláti.
Þrátt fyrir það voru þetta þung skref inn á spítalann. Með því að leita mér aðstoðar var ég að bjóða hættunni heim, því ef hann myndi frétta af mér hér gæti það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Ofbeldið yrði jafnvel verra næst. Þótt ég væri að sækja mér aðstoð þá þýddi það ekki að ég væri komin út úr aðstæðunum. Jafnvel þótt mér tækist að losna undan þessu, þá er algengt að ofbeldið versni eftir skilnað. Oft er hættan mest daginn sem konur stíga út úr ofbeldissambandi.
Ég þurfti því að beita mig miklu tiltali og safna mér saman til að öðlast kjarkinn. Það þarf nefnilega mikinn kjark til að sækja aðstoð. Mig langaði ekkert til þess, en gafst upp í vanmætti og von um að styrkja stöðu mína gagnvart manni sem ógnaði mér stöðugt. Eina leiðin sem ég sá til þess var að fara á spítalann, fá skoðun og áverkavottorð.“
Biðin endalausa
„Við komum inn úr myrkrinu inn í kalda hvíta biðstofuna. Tók á móti mér kona sem spurði undir björtum flúorljósum hvers vegna ég væri komin. Fylgdarmaður minn hvíslaði að henni ástæðunni: Heimilisofbeldi. Fyrir mér ómaði þetta lágróma svar eins og kall yfir alla biðstofuna, þótt ég vissi vel að þetta hefði aðeins verið hvísl. Skömmin hríslaðist um mig, djúpstæð, alltumlykjandi og yfirgnæfandi, nánast áþreifanleg, sterk en lamandi tilfinning. Sem betur fer þurfti ég ekki að setjast í skömmina, innan um forvitið fólkið, heldur var okkur vísað beint upp á aðra hæð.
„Ég kom óörugg og hrædd, berskjaldaði mig alveg og var síðan send allsber út“
Þar sátum við langalengi á biðstofunni áður en við vorum kallaðar inn á stofu. Á þessum tíma var hugurinn á reiki, ég átti erfitt með að hugsa skýrt, en ég var víst farin að gæla við tilhugsunina um að leggja fram kæru og hafði orð á því. Ég var hvort eð er komin hingað, á þennan stað þar sem ég vildi alls ekki vera.
Síðan var nafn mitt kallað upp og okkur var vísað inn á stofu, þar sem við tók enn lengri bið eftir viðtali við lækni. Eftir hátt í klukkutíma var ég við það að missa kjarkinn, efasemdirnar mögnuðust með hverri mínútu og eftir þrjú korter voru bakþankarnir orðnir svo slæmir að ég ætlaði að hætta við og fara heim. Fylgdarmaður minn bað mig um að hinkra aðeins lengur og loks mætti læknir á svæðið.“
Er hægt að kalla lögreglu til?
Innskot fylgdarmanns:
Hún sýndi mikinn styrk með því að fara á spítalann. Þótt hún væri bæði þreytt og tætt, bar hún sig vel, eins og alltaf. Ég held að það sé sama hvað dynur á í lífi hennar, hún stendur alltaf sterk frammi fyrir áskorunum, og þú þarft að þekkja hana ansi vel til að sjá sorgina í augunum. Það er þessi glampi sem dofnar, þessi léttleiki og lífsgleði sem einkennir hana.
Ég hafði auðvitað áhyggjur af henni, hafði áður reynt að telja henni trú um að kalla eftir aðstoð en án árangurs. Fram til þessa hafði hún lýst vantrú á kerfinu og haldið því fram að það væri ekkert hægt að gera fyrir konur í þessari stöðu. Þar til allt í einu, þetta kvöld, að hún ákvað að nú væri nóg komið, hún ætlaði allavega að láta skjalfesta ofbeldið. Síðan fór hún allt í einu að tala um að hún ætlaði jafnvel að kæra. Mér fannst svo gott að heyra það, það var ákveðinn sigur, ekki aðeins var hún að standa með sjálfri sér heldur var eins og hún hefði valdeflst við að mæta á spítalann og öðlast trú á kerfið, von um að það væri leið út.
En hún var svo brothætt að það hefði einhver þurft að grípa hana strax. Við biðum mjög lengi eftir lækni, og á meðan fjaraði smám saman undan voninni. Því lengri sem biðin varð, því fjarlægari varð hún.
Þegar læknirinn kom loks spurði ég hvort hægt væri að kalla til lögreglu áður en viðtalið hæfist, en læknirinn neitaði því og bað hana um að lýsa atvikum.
Viðbrögð læknis
„Eftir að ég hafði lýst því í smáatriðum hvernig maður sem var mér náinn hafði ráðist á mig, skoðaði hún áverkana lauslega. Á hálsinum var mar eftir kverkatak, í andlitinu var mar eftir högg og áverkar voru víðar á líkama mínum. Eftir að hafa rétt kíkt á mig kvað hún upp úrskurð: Áverkarnir myndu líklega ekki sjást á mynd, jafnvel þótt þeir væru vel greinilegir mér og mínum fylgdarmanni, og sáust á símamyndum. Undirliggjandi skilaboð voru að ofbeldið væri ekki nógu alvarlegt, áverkarnir ekki nógu grófir, ég ekki búin að þola nóg.
Því næst sagði læknirinn að ég væri væntanlega nógu vel upplýst til að vita að samkvæmt lögum bæri henni að láta barnaverndaryfirvöld vita af ofbeldinu, fyrst það væru börn á heimilinu. Þessi orð voru fyrstu viðbrögð læknisins við atvikalýsingunni. Það var sem ég væri slegin utan undir.“
Innskot fylgdarmanns:
Um leið og læknirinn sleppti orðunum sá ég hvernig hún stirðnaði upp. Læknirinn horfði á hana og beið eftir viðbrögðum. Hún þagði. Í þögninni lá vitneskjan um að héðan í frá væri engin leið til baka. Á einu augabragði brast vonin. Hún myndi aldrei fara lengra með málið.
„Læknirinn talaði beint inn í minn stærsta ótta, að ég byði börnunum ekki upp á nógu gott heimili. Í marga mánuði hafði hann hamrað á því að ég væri óhæf móðir. Margoft hafði hann hótað því að ég myndi missa börnin frá mér. Nú gæti það raungerst. En þetta var ekki satt. Ég hafði verndað börnin mín. Ég var hér fyrir þau.
Auðvitað get ég skilið að það sé rétt að kalla barnavernd til, en þetta var ekki rétti tímapunkturinn til þess. Börnin voru ekki í slíkri hættu að ráðast þyrfti í bráðaaðgerðir til að vernda þau. Eina manneskjan sem var í hættu var ég, og besta leiðin til að tryggja öryggi barnanna hefði verið að tryggja öryggi mitt. Með því að taka fram fyrir hendurnar á mér og tilkynna mig til barnaverndar, eins og ég væri sek og án þess að öryggi mitt væri tryggt, og upplýsa um leið föður þeirra að ég hefði leitað hingað, lamaðist ég nánast af ótta. Þetta hrinti mér alveg á hliðina.
Að lokum tókst mér að stynja því upp að þetta væri ástæðan fyrir því að ég vildi ekki leita á spítalann. Mér tókst að útskýra ógnina. Þegar ég hafði lokið máli mínu hvarf læknirinn aftur út úr herberginu og bað mig aftur um að bíða.
Biðin var óheyrilega löng, áður en hún sneri aftur tæpum klukkutíma síðar og sagðist hafa spurst aðeins fyrir og jú, það hefði verið hægt að kalla lögregluna til áður en ég gæfi upp atvikalýsingu. Hún spurði hvort ég hefði hug á því núna, en nei, það var of seint. Með viðbrögðum sínum hafði hún slegið þann möguleika út af borðinu, því ég gerði ráð fyrir að mæta sama viðmóti þar eins og hér, að þrátt fyrir mikla áverka væri ofbeldið ekki talið nógu alvarlegt.
Ég gat ekki beðið eftir því að komast úr þessum aðstæðum, út undir bert loft og ná andanum.“
Óttaslegin á leið heim
„Á leiðinni heim leið mér hræðilega. Miklu verr en áður, með kvíðahnút í maganum yfir því sem biði mín. Dagarnir liðu síðan hver af öðrum, án þess að ég heyrði frá félagsráðgjafa. Hann hafði aldrei samband. Málið var ekki tilkynnt.
Mér finnst sárt að hugsa til þess að hafa opnað á reynslu sem ég vildi aldrei lifa, og léttirinn sem ég bjóst við að upplifa snerist upp í andhverfu sína.
Í þessu stutta samtali við lækninn tók ég ákvörðun um að fara aldrei aftur sjálfviljug upp á spítala, sama hversu mikla áverka ég væri með. Ekki nema ég væri svo blóðug eða beinbrotin að það þyrfti nauðsynlega að tjasla mér saman. Ég mun ekki leita til lögreglu, eða í önnur úrræði á vegum yfirvalda. Af því að með þessari heimsókn sannreyndi ég vanmátt kerfisins. Það er ekkert sem yfirvöld geta gert fyrir konur í minni stöðu.“
Innskot fylgdarmanns:
Eitt sinn kom ég í heimsókn og sá áverkana á hálsinum. Hún viðurkenndi að hann hafði aftur tekið hana kverkataki. Í annan stað gat hún varla verið, hún gat ekki staðið, setið eða legið, án þess að kveljast af sársauka. Ég grátbað hana um að leita til bráðamóttökunnar en það var útilokað að fá hana til þess. Aldrei aftur, sagði hún.
„Ég fer aldrei aftur á Landspítalann vegna heimilisofbeldis. Aldrei. Ég reyndi að fá hjálp en mun ekki þora því aftur. Ég dæmi ekki spítalann. Þar vinnur flott fólk, en heimilisofbeldi er svo algengt að það er nauðsynlegt að inni á spítalanum sé þekking og kunnátta til að taka á móti fólki, án þess að valda meiri skaða.
Þarna kom rosalega brotin kona sem fékk að heyra að það sæist ekki nógu mikið á henni til að áverkavottorð gæti nýst henni, sem var síðan trompað að hún yrði tilkynnt til yfirvalda. Það ætti einhver að vera til staðar sem skilur þessar aðstæður.
Ég þurfti að safna kjarki til að koma, en þá má ekki láta fólk bíða svona lengi. Ég var hátt í þrjá tíma á spítalanum, þótt ég hafi aðeins talað við lækni skamma stund. Það þarf líka að gefa fólki í minni stöðu rými, tíma og ávinna sér traust. Við þurfum að vita að við séum örugg. Ég hefði þurft á því að halda að fá viðtal við lækni sem gæti sýnt því skilning hversu stórt skref það var að mæta og segja frá, og að viðbrögðin hefðu einkennst af hlýju en ekki afgreiðslu. Ég þurfti ekki á því að halda að heyra að þetta væri ekki nógu alvarlegt, ekki nógu mikið ofbeldi, því ég var nógu dugleg að segja mér það sjálf. Ég kom óörugg og hrædd, berskjaldaði mig alveg og var síðan send allsber út.“
Leið, ekki reið
„Í dag er ég nánast óvinnufær. Ég á erfitt með að takast á við daglegt líf og ræð illa við áskoranir. Ég reyni mitt besta, ekki síst fyrir börnin, en líka fyrir samfélagið, en ég er ekkert nema skelin af sjálfri mér. Eins og vofa sem ráfar um í tilgangsleysi. Ég veit að ég þarf á aðstoð að halda, því ég óttast að ella muni ég þróa með mér andlega og líkamlega kvilla, sem verður enn erfiðara að takast á við. Ég er ekki einu sinni reið, ég er bara leið.
Ég skora á spítalann að gera betur. Fyrstu viðbrögð skipta öllu máli, og ég er sannfærð um að það sé ekki aðeins rétt að veita fólki í þessari stöðu strax aðstoð, heldur felist í því margvíslegur samfélagslegur ávinningur.“
Annan hvern dag
Konan tilheyrir allt of stórum hópi sem þarf á aðstoð spítalans að halda vegna heimilisofbeldis. Í gær, á morgun, sunnudag og á þriðjudaginn, á baráttudegi kvenna, koma konur inn á spítalann illa lemstraðar eftir ástvini sína. Annan hvern dag leita konur á spítalann vegna þess að þær þurfa á bráðaþjónustu að halda vegna áverka eftir ofbeldi sem þær voru beittar. Og þá er aðeins tekið mið af þeim sem segja frá ofbeldinu. Þær eru fleiri sem mæta en segja ekkert. Enn fleiri fara aldrei inn á spítalann.
„Er algengt að sú ógn sem stafar af geranda aukist er mál eru tilkynnt eða ef þolandi yfir höfuð segir frá ofbeldinu“
Í efni frá Samtökum um Kvennaathvarf kemur fram að þar hafi starfsmenn „orðið þess áskynja að þolendur sem til okkar leita forðast að leita til heilbrigðisstarfsmanna sökum ótta við að mál verði tilkynnt“.
Kvennaathvarfið hefur því lagt áherslu á að stigið sé varlega til jarðar og verklagið tryggi að unnið sé með þolendum áður en upplýsingum um ofbeldið sé miðlað áfram innan kerfisins, til að tryggja öryggi þeirra. „Þolendur heimilisofbeldis eru margir hverjir í hættu öllum stundum og er algengt að sú ógn sem stafar af geranda aukist er mál eru tilkynnt eða ef þolandi yfir höfuð segir frá ofbeldinu.“ Það megi ekki gerast að „úrvinnsla þessara mála dragist eftir að brotamanni er ljóst að búið er að afhjúpa ofbeldið sem hann stundar gegn þolandanum,“ en reynsla starfsmanna Kvennaathvarfsins sé sú að lögregla og barnavernd eigi oft erfitt með að fylgja málum eftir af festu.
Eins þurfi lagalegt umhverfi að vinna í þágu þeirra sem eru beittir ofbeldi. Til dæmis þurfi að skoða möguleika á að þeim sé veitt bráðabrigðaforsjá yfir börnum á meðan vinnslu málsins stendur. Gera þurfi brotaþolum kleift að fá skilnað afgreiddan hraðar og krefjast opinberra skipta án þess að þurfa að leggja fram háar tryggingar fyrir dómi.
Tuttugu ára ákall
Kvennaathvarfið sendi sömu skilaboð inn í heilbrigðiskerfið fyrir tuttugu árum síðan, þegar þáverandi framkvæmdastýra athvarfsins skrifaði grein í Læknablaðið: „Þegar staðfest hefur verið að um heimilisofbeldi er að ræða, og það skráð í sjúkraskýrslu, þarf að koma réttum skilaboðum á framfæri til sjúklings. Í fyrsta lagi að einkennin séu mjög eðlileg miðað við aðstæður og að heimilisofbeldið sé aldrei réttlætanlegt. Í öðru lagi að hún sé ekki ein, fjöldi úrræða sé til fyrir konur í þessum aðstæðum,“ skrifaði Drífa Snædal. „Stundum þarf mikið að ganga á þar til konur eru tilbúnar til að brjótast út úr ofbeldissambandi, en með réttri greiningu og skilaboðum til kvenna í þessari stöðu aukast líkurnar á að þær grípi til viðeigandi ráðstafana. Best er að fylgja þeirri reglu að konan sé sérfræðingur í sínum málum og hún ráði ferðinni. Það er því ágætt að spyrja hana hvers konar hjálp hún vilji fá.“
Takmörkuð þekking
Öllum þessum árum síðar virðist almenn þekking innan heilbrigðiskerfisins hins vegar enn vera takmörkuð. Komið hefur fram að 60 prósent heilbrigðisstarfsmanna meta þekkingu sína á heimilisofbeldi miðlungs. Um 24 prósent til viðbótar sögðust hafa litla eða mjög litla þekkingu á þessum málaflokki. Aðeins 16 prósent heilbrigðisstarfsmanna töldu sig hafa mikla þekkingu á heimilisofbeldi.
Þetta er fólkið sem er oft fyrstu og einu fagaðilarnir sem fá vitneskju um heimilisofbeldi.
Landspítalinn er meðvitaður um þessa ábyrgð. Í efni frá spítalanum er talað um að heilbrigðisstarfsfólk sé „í lykilstöðu til að bera kennsl á heimilisofbeldi og aðstoða þolandann“. Með skilningi og kjarki sé hægt að mynda skjól, bjarga mannslífum.
En hér segir kona frá því hvernig móttökurnar urðu þess valdandi að hún hefur ekki leitað sér aðstoðar aftur, þrátt fyrir áframhaldandi ofbeldi og alvarlega áverka. Hún reyndi og var slegin niður, og situr eftir með vantraust á kerfinu, sem hún óttast að vinni frekar gegn sér en með sér.
Hefði læknirinn kallað eftir aðkomu lögreglu þegar óskað var eftir því, hefði málið kannski ratað í annan farveg. Í upplýsingum frá ráðherra segir að koma á spítala vegna heimilisofbeldis ætti að vera nægt tilefni til að óska eftir lögreglu, en því miður sé það of sjaldan gert. Aðeins í tólf prósent tilfella þegar brotaþoli var lagður inn á árunum 2005 til 2019 var aðkoma lögreglu skráð.
Nýtt verklag
Í tillögum frá árinu 2021 var lagt til að ef líkamlegir áverkar væru fyrir hendi ætti að taka af þeim myndir, skrá alla áverka, tegund þeirra og staðsetningu. Lögregla ætti síðan að taka ákvörðun um réttarfræðilega skoðun á brotaþola.
Undantekningarlaust ætti að kalla eftir aðkomu lögreglu ef brotaþoli hefði verið tekinn kverkataki, eins og konan sem hér segir frá.
Félagsráðgjafi ætti að hafa samband í síðasta lagi næsta virka dag. Hlutverk hans væri að veita upplýsingar um úrræði og fræðslu, tengja brotaþola við lögreglu og kanna möguleika flöggunar í kerfum lögreglu, leiðbeina honum áfram í úrræði innan velferðarkerfis og útskýra hlutverk barnaverndar. Þá ætti félagsráðgjafi að leggja fram tilvísun í áfallahjálp og vera tengiliður brotaþola við heilbrigðiskerfið, til dæmis varðandi áverkavottorð.
Eins var lagt til að tólf milljónum á ári yrði varið í að ráða sérfræðing til að veita meðferð við áfallastreituröskun í kjölfar heimilisofbeldis.
Ekkert af þessu var gert í tilviki konunnar sem hér segir frá.
Það var ekki fyrr en síðastliðið haust sem loks var ráðist í að móta verklag um móttöku þolenda heimilisofbeldis á bráðamóttöku Landspítalans. Samkvæmt svörum frá spítalanum felur verklagið í sér skráningu á atvikalýsingu, þar sem tegund og staðsetning áverka er skráð samkvæmt ákveðnu kerfi, sem og andleg líðan brotaþola, og áhættumat er framkvæmt. Allir brotaþolar eiga síðan að fá samtal frá félagsráðgjafa innan sólarhrings eftir að þeir leita á bráðamóttöku og hann á að veita eftirfylgni þar til önnur úrræði taka við.
Sænsk rannsókn á aðdraganda 83 manndrápstilrauna og manndrápa á árunum 2018 til 2021 þar sem náin tengsl voru til staðar, leiddi í ljós að 83 prósent þolenda höfðu leitað eftir heilbrigðisþjónustu á síðustu tólf mánuðum fyrir andlátið. Ef horft er til manndrápa sem framin voru hér á landi frá 2010 til 2020 féllu 44 prósent þeirra undir skilgreiningar á heimilisofbeldi.
Það er því meira í húfi en hægt er að færa í orð eða tölur.
Athugasemdir (4)