Sund á stóran þátt í lífi margra Íslendinga og nær til allra aldurshópa. Rennibrautir, froskalappir og fljótandi uppblásnir krókódílar geta skapað heilan heim ævintýra fyrir börn sem svamla um í grynnstu laugum landsins.
Á meðan unglingar sjá sundlaug hverfisins sem tilvalinn stað fyrir kvöldstundir með vinum án truflana frá forvitnum foreldrum nýtir eldra fólk laugarnar gjarnan til að stunda hreyfingu á morgnana og fá félagslega útrás.
En hvað kostar eiginlega að fara í sund? Það fer eftir því hvert þú ferð, hver þú ert og í hvaða sveitarfélagi sundlaugin sem þú hefur hug á að fara í er.
Á höfuðborgarsvæðinu fá flest börn frítt í sund, nema í Reykjavík borga 16-17 ára börn 195 krónur fyrir miðann. Eldri borgarar og öryrkjar fá ókeypis aðgang.
Fer eftir sveitarfélögum
Einstaklingar á aldrinum 18-67 ára sem sækja sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu greiða yfirleitt í kringum 1.000 krónur fyrir sundmiða. Verð á stökum sundmiða í sundlaugar Reykjavíkurborgar er 1.210 krónur, miðað við innleiðingu gjaldskrár þann 1. október 2023.
Samkvæmt verðskrá Kópavogsbæjar kostar miðinn 1.130 krónur og í Hafnarfjarðarbæ og á Seltjarnarnesi fæst aðgangur á 1.100 krónur. Mosfellsbær og Garðabær bjóða lægsta verðið á höfuðborgarsvæðinu fyrir stakt skipti, sléttar 1.000 krónur.
Í skriflegu svari Sambands íslenskra sveitarfélaga við fyrirspurn Heimildarinnar um hvort sveitarfélög eigi að fá að ákveða gjald fyrir sundferðir sjálf segir: „Ákvörðun um gjaldtöku á sundstöðum er algjörlega í höndum hvers og eins sveitarfélags sem er eðlilegt út frá sjálfstjórnarrétti þeirra.“
Þrír viðmælendur Heimildarinnar greindu frá sundvenjum sínum og svöruðu því hvað þeim finnst að stakur aðgangur í sundlaug ætti að kosta.
Kolbrún Jóhannsdóttir býr í Mosfellsbæ og fer reglulega í sund þar. Hún er spurð að því hvað sé sanngjarnt verð fyrir sundferð þegar hún er á göngu um verslunarmiðstöð. „Mér finnst að það eigi að vera í lágmarki þar sem þetta er heilsueflandi,“ svarar Kolbrún og bætir við að verðið mætti vera ódýrara en það er í dag, helst ekki meira en 500 krónur.
„Mér finnst að það eigi að vera í lágmarki þar sem þetta er heilsueflandi“
Fyrir utan Sundhöll Reykjavíkur síðla mánudags í byrjun október stendur Ásta Lilja Magnúsdóttir og leigir sér Hopp-hjól. Hún fer í sund nokkrum sinnum í viku og eru tvær laugar í miklu uppáhaldi. „Þessi laug hér, Sundhöll Reykjavíkur, en svo fer ég líka stundum í Vesturbæjarlaugina.“
Báðar laugarnar eru nálægar heimili Ástu Lilju en hún tengir þær jafnframt við barnæskuna. „Þetta eru laugar sem ég hef farið í frá því ég var krakki.“
Aðspurð hvað henni finnist sanngjarnt að borga fyrir sundferð segir Ásta Lilja: „Mér finnst alveg sanngjarnt að borga frekar hátt gjald fyrir eina staka ferð, yfir 1.000 krónur að minnsta kosti. En hins vegar finnst mér að verð á árskortum og annað megi vera bara ... ekkert það dýrt. Árskort alveg 20–30 þúsund, eitthvað svoleiðis. Það er dýrara minnir mig.“ Hún bætir við að sér þyki sanngjarnt að aldraðir og öryrkjar fái ókeypis í sund.
Ástu Lilju minnir rétt hvað varðar verð á árskortum, en bæði sundlaugar í Reykjavíkurborg og Garðabæ selja árskort í sund á yfir 40.000 krónur stykkið. Í Garðabæ fylgir þó aðgangur að þreksal Ásgarðs með.
Fyrir þau sem sækja sund á Seltjarnarnesinu er gjaldið fyrir árskort 38.300 krónur en í Mosfellsbæ kostar árskortið 35.000 krónur. Hafnarfjarðarbær og Kópavogsbær selja svo sín kort á rétt rúmar 32.000 krónur.
Kópavogsbúinn Guðmundur Ingi er stoppaður á röltinu. Hann fer stundum í sund og þá oftast í Salalaugina í Kópavogi því hún er í nágrenninu. Líkt og hinir viðmælendur svarar hann því hvað sé sanngjarnt að borga fyrir eina sundferð. „Þar sem ég þarf ekki að borga neitt, þá er það bara mjög sanngjarnt. Ég fæ frítt í sund. Ég er orðinn svo gamall,“ segir Guðmundur Ingi ánægður og brosir breitt.
„Þar sem ég þarf ekki að borga neitt, þá er það bara mjög sanngjarnt“
Aðgangur í gegnum líkamsrækt
Hjá fjölmennustu líkamsræktarstöðvum landsins fylgir iðulega aðgangur að völdum sundlaugum með áskriftarkortum.
Til að mynda kostar mánaðarkort með ótímabundnum samning 9.430 krónur hjá World Class. Korthafi fær aðgang að átta sundlaugum, þar af fimm sem eru á höfuðborgarsvæðinu. Hjá Reebok Fitness kostar mánaðaráskrift 8.650 krónur og veitir inngöngu hjá Ásvallalaug, Salalaug og Kópavogslaug.
Líkamsræktarkortin kosta þó meira en dýrustu 10 skipta kortin á höfuðborgarsvæðinu.
Ef einstaklingur í Kópavogi, þar sem 10 skipta kortin eru dýrust, kaupir sér átta staka sundmiða kostar það 9.040 krónur. Það er meira en mánaðaraðgangur í Reebok fitness þar sem aðgangur að tveimur laugum í Kópavogi fylgir með. Það getur því borgað sig fyrir fólk sem leggur stund á líkamsrækt og sækir sundlaugar að nýta slíkt kort í stað þess að borga aukalega fyrir sund.
Það eru nefnilega hægt að fara í sund fyrir utan höfuðborgarsvæðið þó greinarhöfundur geri sér ekki greín fyrir því við vinnslu greinarinnar