Þessi grein birtist fyrir rúmlega 7 mánuðum.

Reykjavíkurborg getur átt von á 33 milljarða arði úr Orkuveitunni á næstu árum

Orku­veita Reykja­vík­ur er að selja hlut í tveim­ur dótt­ur­fé­lög­um, Ljós­leið­ar­an­um og Car­bfix. Hún áætl­ar að það skili um 61 millj­arði króna i inn­borg­að hluta­fé á næstu fjór­um ár­um. Spár gera ráð fyr­ir því að tekj­ur í starf­semi síð­ar­nefnda fé­lags­ins muni vaxa mik­ið Gangi þær spár eft­ir ætl­ar Orku­veit­an að borga eig­end­um sín­um: Reykja­vík, Akra­nesi og Borg­ar­byggð, út sam­tals 35 millj­arða króna í arð á tíma­bil­inu.

Reykjavíkurborg getur átt von á 33 milljarða arði úr Orkuveitunni á næstu árum
Forstjóri Orkuveitunnar Sævar Freyr Þráinsson tók við stjórnartaumunum hjá Orkuveitu Reykjavíkur fyrr á þessu ári. Mynd: Orkuveita Reykjavíkur

Samstæða Orkuveitu Reykjavíkur áætlað að greiða eigendum sínum út 36,3 milljarða króna í arðgreiðslur á árunum 2024 til 2028. Af þeirri upphæð er reiknað með að verðandi minnihlutaeigendur í dótturfélögunum Ljósleiðaranum og Carbfix fái arðgreiðslur upp á 1,3 milljarða króna. Það þýðir að eftir muni standa 35 milljarðar króna sem skiptast milli eigenda Orkuveitunnar. Þeir eru þrír: Reykjavík sem á 94 prósent, Akraneskaupstaður sem á fimm prósent og Borgarbyggð sem á eitt prósent hlut. Reykjavíkurborg getur því átt von á því að fá 32,9 milljarða króna í arðgreiðslur á næstu fjórum árum. 

Þetta kemur fram í fjárhagsspá samstæðu Orkuveitunnar fyrir umrætt tímabil sem samþykkt var af stjórn hennar í gær. 

Spáin gerir ráð fyrir að árlegar tekjur vaxi úr 65,1 milljarði króna á næsta ári í 97,9 milljarða króna á árinu 2028, eða um rúmlega 50 prósent. Á sama tíma er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður vaxi mun minna, eða um 29 prósent. 

Handbært fé frá rekstri verður einkum nýtt til fjárfestinga og afborgana af lánum á spátímanum. Hluti skulda verður endurfjármagnaður á tímabilinu með nýrri lántöku. Í fjárhagspánni sergir að þrátt fyrir áætlun um 230 milljarða króna fjárfestingu á tímabilinu sé einungis gert ráð fyrir 27,7 milljarða króna lántöku umfram afborganir lána. „Sala á nýju hlutafé í Carbfix og Ljósleiðaranum er enn fremur mikilvægur liður í að fjármagna fjárfestingar á tímabilinu.“ Sú sala á að skila 61,1 milljarði króna í innborgað hlutafé á árunum 2024 til 2028.

Miklar vonir bundnar við vöxt Carbfix

Í tilkynningu sem send var út í kjölfar þess að spáin var samþykkt kemur líka fram að áætlanir um vöxt í starfsemi Carbfix hafa mikil áhrif á tekjuvöxt á síðustu árum spátímabilsins. „Stærsta einstaka fjárfestingarverkefnið á spátímabilinu er bygging kolefnisförgunarstöðvarinnar Coda Terminal á vegum Carbfix. Verkefnið er einstakt á heimsvísu og markar tímamót í baráttu við loftslagsvána.“

Í stöðinni sem reist verður við Straumsvík er áformað að taka á móti koldíoxíði, sem flutt er þangað sjóleiðina, og binda það sem grjót í hraununum við Straum. „Aðferðin hefur sannað sig við Hellisheiðarvirkjun þar sem hún var þróuð og prófuð með miklum árangri. Á meðal fjárfestingarverkefna Orku náttúrunnar á tímabili fjárhagsspárinnar er einmitt að auka hlutfall koldíoxíðs sem fangað er úr jarðgufunni og fargað með Carbfix tækninni og að hefja byggingu samskonar hreinsistöðvar við Nesjavallavirkjun.“

Uppbygging veitukerfa, þar með talin lagning nýs landshrings fjarskipta, er líka fyrirferðarmikil í fjárhagsspánni. 

Umdeild lokuð sala

Líkt og áður sagði er gert ráð fyrir þeirri breytingu á samstæðu Orkuveitunnar á næsta ári að hlutir í Ljósleiðaranum og Carbfix verði seldir til fjárfesta. Eigið fé samstæðunnar mun aukast um tæplega 47,7 milljarða króna á tímabilinu 2024 til 2028 gangi spáin eftir og skýrist að mestu af fyrirhugaðri hlutafjáraukningu Carbfix og Ljósleiðarans. Til viðbótar hækkuninni myndast hlutdeild minnihluta í eigin fé samstæðunnar upp á 33,3 milljarða króna árið 2028. Í fjárhagsspánni segir að ávöxtun eigin fjár hækki „mikið undir lok spátímabilsins en á þeim tíma er gert ráð fyrir að hagnaður af rekstri Carbfix sé að aukast mikið á milli ára.“

Borgarstjórn Reykjavíkur, sem er stærsti eigandinn, samþykkti í maí að auka hlutafé í Ljósleiðaranum um 3.250 milljónir króna og selja það í lokuðu útboði til „hæfra fjárfesta“. Þetta fyrirkomulag – sala á opinberri eign í lokuðu útboði til óskilgreinds hóps fjárfesta – hefur verið gagnrýnd, meðal annars af Ragnhildi Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Hún sagði í samtali við mbl.isí síðasta mánuði að hennar afstæða væri sú, þegar um væri að ræða fyrirtæki sem sé alfarið í eigu almennings, að þá „eigi það að vera al­mennt þannig að al­menn­ing­ur fái að kaupa hluti í sínu eig­in fyr­ir­tæki.

Innherji greindi svo frá því í síðustu viku að bandaríska sjóðsstýringarfyrirtækið Stonepeak, einn stærsti innviðafjárfestir heims, hefði lagt fram tilboð í kaup á nýjum hlutum í Carbfix. Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hefur þegar samþykkt að undirgangast tiltekna skilmála vegna þessa en fjárfestingin er talin hlaupa á milljörðum. 

Tugir milljarða munu flæða til Reykjavíkur

Gangi spá samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur eftir er ljóst að það mun koma Reykjavíkurborg vel. A-hluti hennar, sem rekinn er fyrir skattfé, hefur verið að tapa miklu fé á undanförnum árum. Það tap hefur annars vegar að mestu verið rakið til halla á rekstri málaflokks fatlaðra, en borgin áætlar að gatið á milli þeirrar þjónustu sem veitt er og þeirra fjármuna sem eigi að fylgja frá ríkinu vegna hennar sé um níu milljarðar króna. Hins vegar er ástæðan verðbólga og vaxtahækkanir sem aukið hafa fjármagnskostnað, aðallega vegna verðtryggðra lána, um milljarða króna.

Alls tapaði A-hluti borgarinnar 8,9 milljörðum króna á árinu 2022 og á fyrstu sex mánuðum ársins 2023 bættust 921 milljónir króna við það tap. Inni í þeirri tölu var þó 5,1 milljarða króna arðgreiðsla frá Orkuveitu Reykjavíkur. Án hennar hefði tapið verið sex milljarðar króna á fyrri hluta ársins. Búast má við því að tapið á seinni hluta árs verði umtalsvert meira en það var á fyrri hlutanum í ljósi þess að Orkuveitan greiðir borginni bara arð einu sinni á ári.  

Þessari stöðu virðist borgin ætla að mæta, að minnsta kosti að einhverju leyti, með sölu eigna. Nánar tiltekið Perlunnar í Öskjuhlíð, sem byggð var af Hitaveitu Reykjavíkur í borgarstjórnartíð Davíðs Oddssonar og vígð árið 1991. Reykjavíkurborg eignaðist mannvirkið að mestu árið 2013 og á það í dag að öllu leyti. Fasteignamat Perlunnar er sem stendur um fjórir milljarðar króna og því ætti sala hennar að geta hjálpað vel til í baráttu Reykjavíkur við að ná fjármálum sínum í jafnvægi. 

Gangi áform samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur um arðgreiðslur eftir á næstu árum munu arðgreiðslur hennar til Reykjavíkur hækka verulega. Miðað við spánna, sem gerir ráð fyrir að borgin fái 32,9 milljarða króna í sinn hlut út úr Orkuveitunni á næstu fjórum árum, mun Reykjavíkurborg fá rúmlega 8,2 milljarða króna á ári að meðaltali í arðgreiðslu á tímabilinu.

Kjósa
9
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu