„Jafnvægi, að vera sátt í eigin skinni og vera frjálsari frá hlutum og hlutverkum,“ segir Auður Bjarnadóttir, eigandi Jógasetursins, aðspurð að því hvað hún hafi lært af því að stunda jóga. Þrjátíu ár eru síðan Auður byrjaði að iðka jóga og lauk hún fyrsta jógakennaranámi sínu um aldamótin.
„Ég var ballerína og líkaminn var svolítið farinn að kvarta þannig að jóga varð mín heilun, bæði líkamlega og andlega.“
Í gegnum jóga öðlaðist Auður aukna sjálfsvirðingu en hún man eftir að hafa grátið í fyrstu tímunum. „Ég held ég hafi bara alltaf grátið af því að ég mátti hlusta á líkamann minn og þurfti ekki að keyra hann áfram,“ segir Auður, sem naut þess að bera virðingu fyrir líkamanum og hlusta á hvað hann hefði að segja henni.
Hvað er jóga?
Fyrir rúmum 23 árum bjó Auður í Bandaríkjunum þar sem hennar beið starf við kennslu eftir að hún hafði nýlokið kennaranámi í Kaliforníu. Hún gat þó ekki tekið við starfinu enda orðin barnshafandi og þjáðist af mikilli ógleði. „Ég var bara rúmliggjandi og gat ekki þegið þessa kennslu sem ég átti að fá.“ Þegar heilsan varð örlítið betri skráði Auður sig í meðgöngujóga.
Hún lýsir fæðingunni sinni sem magnaðri, þökk sé jóganu, og fann löngun til að miðla reynslu sinni á Íslandi eftir að hafa lokið við jógakennaranám. Auður byrjaði að kenna meðgöngujóga í Kramhúsinu en opnaði svo Jógasetrið í Borgartúni 2002 og flutti svo í Skipholtið fyrir átta árum síðan.
Auður lýsir jóga sem aðferð til að tengja huga og líkama saman. „Sumir halda að þetta sé bara að teygja og vera liðugur. En upprunalega er þetta svo miklu meira en það. Jóga þýðir sameining og tenging, að tengja huga og líkama saman. Finna eininguna innra með okkur.“
Þau sem fara djúpt í jógafræðin finna að með jóga minnkar samanburður og samkeppni. „Það er hluti af jóganu að vakna til vitundar um hver ég er. Ég er ekki litla hrædda sjálfið heldur er eitthvað meira og æðra. Þessi vitund, það er jóga,“ segir Auður og heldur áfram. „Ég tengi við mig sjálfa og við æðri vitund, og þess vegna við allt líf.“
Í gegnum tíðina hafa jógastöður verið einkar karllægar enda eru þær komnar frá karlmönnum sem fóru í herinn og vildu kenna ungum piltum að standa réttir og beinir. Auður stendur upp úr sófanum í Jógasetrinu og sýnir stöðuna Stríðsmanninn. „Nú er kominn tími á kvenlega jóga sem þýðir að stundum fer ég að staldra við, losa um og finna hvað minn líkami vill gera.“ Hún losar um stöðuna og hreyfir mjöðmina. „Ég fer úr forminu og inn í orkuna.“
Fyrir þau sem fara enn dýpra í jógað er hugsanlega hægt að nýta það til að losa um sársauka. „Ef við tökum það aðeins lengra þá getur það verið að losa um djúpan sársauka og jafnvel áföll sem setjast inn í kroppinn.“
Auður lauk kennararéttindum í jógaþerapíu og er útskrifuð með diplómagráðu úr dáleiðslutækni. Hún segir allt sem við mannverur upplifum en tjáum ekki setjast einhvers staðar í líkamann og mynda stíflaða orku. „Og situr þar þangað til að við erum tilbúin að finna það, heyra það, hlusta og bjóða velkomið að fara í gegn.“
„Jóga þýðir sameining og tenging, að tengja huga og líkama saman“
Róar öldur hugans
Fyrsta lögmál jóga er, núna byrjar jóga. Annað lögmálið snýst um að jóga lægi öldur hugans. „Þetta líkamlega kom svo seinna,“ segir Auður. „Upprunalega er það svo mikið andlegt, að róa öldur hugans. Það er eiginlega aðalatriðið.“
Röddin er notuð í jóga til þess að óma, syngja og fara með möntrur. Auður segir frá áhrifum þess að beita röddinni á Vagustaugina, stærstu taug líkamans. „Ef ég syng, óma eða geri haföndun þá er ég að styrkja Vagustaugina. Auk þess ertu að endurtaka góða hugsun ef þú endurtekur möntru.“
„Þú hægir á önduninni. Þá hægirðu á huganum, tengir við líkamann og núið. Við erum yfirleitt alltaf á undan okkur eða að reyna að endurgera fortíðina og missum af núinu. Og lífið er alltaf núna,“ Auður brosir vingjarnlega. „Þannig að jóga er líka, getum við sagt, núvitundaræfing. Þú ert alltaf að koma heim inn í núið.“
Það eru ekki bara fullorðnir sem geta notað hugleiðslu og jóga til að öðlast ró. Jóga fyrir börn hefur færst í vöxt síðustu ár og stýrði Auður um tíma liðnum Krakkajóga í Stundinni okkar auk þess að gefa út mynddisk undir sama nafni.
Auður bendir á bók sem situr á hillu í Jógasetrinu. Hún heitir Heillastjarna og er skrifuð af Stefaníu Ólafsdóttur. „Stefanía fer í skóla og kennir börnum hugleiðslu og er með námskeið.“
Sjálf hefur Auður fundið hvernig jóga getur tengt saman foreldra og börn. Nýverið var kona í jóga hjá Auði sem á barn í Hjallastefnunni. „Hún bað mig að syngja ákveðna möntru og fór svo heim þar sem hún söng möntruna með barninu sínu sem lærði það í skólanum. Þau tengdust þar,“ segir Auður.
„Þú ert alltaf að koma heim inn í núið“
ÁST
Í Jógasetrinu standa alls kyns tímar til boða, þar á meðal karlajóga. Tímarnir eru vel sóttir af stórum hópi karla sem njóta návistar hver annars. „Karlarnir vita að þeir eru svo sannarlega velkomnir í alla tíma nema meðgöngu- eða mömmujóga. En það er bara eitthvað …“ segir Auður hugsi og klárar svo setninguna. „Þeim finnst svo gott að koma saman.“
Tekið er mið af þörfum þess hóps sem er í jóga hversu sinni í Jógasetrinu. Til að mynda geta konur á aldrinum 60–70 ára notað stóla í jóga. „Það er léttara fyrir viðkvæm hné. Þá eru þær í stólunum eða í kringum þá og við spilum það eftir ástandinu.“
Jógatímar hjá Auði njóta sérstakra vinsælda meðal óléttra kvenna og segir Auður sjálf að meðgöngujógað sé blómið hennar. Það veitir henni gleði að sjá konur finna aukið sjálfstraust í tímunum. Sumar koma hræddar í fyrstu tímana en labba svo út með tilhlökkun fyrir fæðingum sínum. „Það er svo gaman. Þetta er svo náttúrulegt af því að fæðing er náttúruleg og eðlileg. Það skiptir öllu máli hvernig við stillum okkur inn á hana.“
Ein af þeim möntrum sem Auður kennir konum er ÁST. Hún gengur út á að anda inn í lífið, slaka inn í lífið og treysta lífinu. „Það er ást til barnsins,“ segir Auður hlýlega og bendir á maga blaðakonu þar sem lítil stelpa fer ört vaxandi. „Þetta er svo einfalt.“
Í gegnum tíðina hafa Auði borist sögur frá konum sem nota ástarmöntruna í fæðingum sínum og finna greinilegan mátt hennar. Auður endurtekur möntruna.„Ég ætla að anda inn í fæðinguna, slaka og treysta. Það er bara ást til barnsins, til lífsins. Við getum gert þetta allan daginn, að velja að vera ekki í ótta heldur í ást. Að vera ekki í ótta heldur í trausti.“
„Ljósmæður hafa sagt mér að þær halda að konur í meðgöngujóga fái minna fæðingarþunglyndi.“ Auður gerir sér í hugarlund að tenging sé á milli þess og að mæður læra sjálfsvirðingu og hlustun í jógatímunum. „Ef þú ferð í kulnun og krassar, þá ertu að valta yfir þig og þú heyrir ekki í varnarnöglum.“
Hún segir líkamann alltaf láta okkur vita ef við erum að fara okkur um of og að nútímasamfélagi fylgi mikill hraði og áreiti. „Jóga er mikilvægt fyrir of hratt líf og hraðan huga. Við þurfum að hægja á. Ég segi stundum að heimurinn þurfi haföndun,“ segir Auður og dregur djúpt inn andann.
„Ég ætla að anda inn í fæðinguna, slaka og treysta“
Auður hvetur fólk sem langar til að stunda jóga til þess að mæta og prófa. Fyrir lengra komna er einnig hægt að fara í jógakennaranám. „Ég kalla námið mitt, að koma heim til þín. Það er það sem við þurfum að gera því að heimurinn er á yfirsnúningi. Það er jóga, að koma heim.“
Athugasemdir