Þessi grein birtist fyrir rúmlega 12 mánuðum.

Á að eyðileggja SAS hótelið?

SAS hót­el­ið við Vester­broga­de í Kaup­manna­höfn er með­al þekkt­ustu verka arki­tekts­ins Arne Jac­ob­sen og eitt helsta kenni­leiti borg­ar­inn­ar. Nú eru fyr­ir­hug­að­ar mikl­ar end­ur­bæt­ur á hót­el­inu en hug­mynd­ir eig­anda þess mæl­ast illa fyr­ir. Myndu eyði­leggja meist­ara­verk­ið segja sum­ir.

Þegar danskir fjölmiðlar fluttu af því fréttir árið 1954 að SAS flugfélagið hygðist reisa „háhýsi“ eins og það var orðað, á horni Vesterbrogade og Hammerichsgade í Kaupmannahöfn, leist mörgum ekki á blikuna. Átti virkilega að byggja nútímalega kassalaga himinháa byggingu að amerískri fyrirmynd, eins og fjölmiðlar komust að orði, á þessum áberandi stað í borginni? Bót í máli þótti þó að það var ekki einhver „Jón úti í bæ“ sem hafði verið fenginn til verksins heldur myndi arkitektinn Arne Jacobsen (1902–1971) teikna húsið. Hann var löngu kominn í hóp þekktustu arkitekta í Danmörku og frægð hans reyndar borist langt út fyrir danska landsteina.

HönnuðurinnArne Jacobsen vildi að glerið í byggingunni yrði í mjög mildum grænum lit.

Eftir seinni heimsstyrjöldina settu háhýsi með léttum útveggjum, úr gleri og málmi, svip sinn á margar vestrænar borgir. „Og SAS hótelið verður í þessum stíl,“ sagði arkitektinn í viðtali. Hann sagði að glerið yrði í mjög mildum grænum lit. SAS hótelið var ekki fyrsta byggingin sem Arne Jacobsen teiknaði þar sem gler og málmur léku stórt hlutverk. Um sama leyti og tilkynnt var um hið fyrirhugaða hótel var verið að ljúka við byggingu ráðhúss í sveitarfélaginu Rødovre skammt frá Kaupmannahöfn. Þetta þriggja hæða ráðhús, sem nú er friðað, teiknaði Arne Jacobsen og stíllinn er sá sami og á SAS hótelinu.

22 hæðir og allt sérteiknað

Á fréttamannafundi þar sem greint var frá hinni fyrirhuguðu byggingu kom fram að Arne Jacobsen myndi ekki einungis teikna húsið sjálft, hann myndi sömuleiðis teikna öll húsgögn og borðbúnað, lampa og ljós. Meðal húsgagnanna voru stólarnir Eggið og Svanurinn sem enn þá eru framleiddir og seljast eins og heitar lummur (eða jafnvel betur!) og sömu sögu er að segja um lampa, ljós og hnífapör sem hönnuð voru fyrir hótelið.

Á fréttamannafundinum áðurnefnda kom fram að húsið yrði 22 hæðir, rúmlega 70 metra hátt og herbergin 260. Tvær neðstu hæðirnar yrðu eins konar sökkulbygging, jarðhæðin inndregin. Sökkulbyggingin yrði, fyrir utan glugga, klædd grænum emaleruðum stálplötum.

Arkitektinn ánægður með útkomuna

Eftir að öll tilskilin leyfi voru fengin hófust byggingaframkvæmdirnar og hótelið var tekið í notkun árið 1960 með pomp og prakt. Dönsku blöðin fjölluðu ítarlega um þetta nýja „pragtfulde hotel“ og sýndu myndir af veislusölum og herbergjum sem öll voru búin húsgögnum sem arkitektinn hafði hannað. Sjálfur var Arne Jacobsen ánægður með útkomuna, hann vissi auðvitað ekki þá að sumt sem hann hannaði fyrir hótelið, og húsið sjálft, yrði „klassík“ í danskri hönnunarsögu.

Einungis eitt herbergi, númer 606, er óbreytt frá upphafi. Hinum hefur öllum verið breytt og gestir eiga þess ekki lengur kost að tylla sér í Eggið eða Svaninn til að láta þreytuna líða úr sér. Ýmsir hafa, á liðnum árum, gagnrýnt þær breytingar sem gerðar hafa verið á herbergjunum en jarðhæðin, með glæsilegum bar, er óbreytt frá upphafi og húsgögn Arne Jacobsen eru þar, meðal annars Eggið áðurnefnda, og Svanurinn. 

Nafnabreytingar

Þegar hótelið var tekið í notkun árið 1960 fékk það nafnið SAS Royal Hotel. Árið 1994 var nafninu breytt í Radisson SAS Royal Hotel, þá hafði SAS keypt hlutabréf í Radisson hótelkeðjunni. Árið 2009 seldi SAS hlutabréfin og þá breyttist nafnið í Radisson Blu Royal Hotel.

Í bygginguÁkveðið var að ráðast í byggingu hótelsins árið 1954 og það var tekið í notkun árið 1960.

Núverandi eigandi er norska Weenasgruppen og við þau eigendaskipti fékk hótelið enn eitt nafnið, Radisson Royal Collection Hotel. Það nafn er ekki sérlega þjált og þess vegna er hótelið í daglegu tali iðulega kallað SAS hótelið. Og stafirnir þrír. SAS, efst á þeirri hlið hótelsins sem snýr að Vesterbrogade, hafa lifað allar breytingar af og eru, eins og í upphafi, upplýstir eftir að dimma tekur. 

Græna málningin 

Eins og áður var nefnt er neðsti hluti hótelsins, sökkullinn, klæddur grænum emaleruðum plötum. Árið 2017 lét núverandi eigandi, Weenasgruppen, mála plöturnar. Þær voru áfram grænar, en græni liturinn var ekki nákvæmlega sá sami og á emaleringunni. Margir urðu til að gagnrýna þessa breytingu. „Það er engu líkara en eigandinn hafi farið til málningarkaupmannsins á horninu og keypt málningu á tilboði“ sagði kunnur arkitekt og margir kollegar hans töluðu í svipuðum dúr. 

Umhverfis- og eftirlitsyfirvöld borgarinnar gerðu engar athugasemdir við grænu málninguna. Hún er reyndar farin að láta á sjá, hefur sums staðar flagnað og annars staðar hefur vatn komist undir málninguna og myndað poka. 

Lars Weenas, forstjóri Weenasgruppen, sagði í viðtali á þessum tíma að nauðsynlegt yrði að ráðast í miklar viðgerðir á ytra byrði turnsins áður en langt um liði. „Innan fárra ára, húsið er að verða 60 ára, gluggarammarnir farnir að ryðga og víða er leki. Ekki óeðlilegt að viðgerða og endurnýjunar sé þörf“ sagði forstjórinn. „Vissara að fylgjast vel með því að húsið verði ekki eyðilagt með þessum viðgerðum“ sagði arkitekt í grein í dagblaðinu Berlingske.

Fyrirhugaðar endurbætur harðlega gagnrýndar

Fyrir nokkrum dögum tóku þeir sem leið áttu framhjá SAS hótelinu við Vesterbrogade eftir því að iðnaðarmenn voru að koma fyrir eins konar sýningarveggbút (mockup) á hótelinu. Veggbúturinn sýnir hvernig veggir hótelturnsins munu líta út eftir endurnýjun. Ótti þeirra sem lýst höfðu áhyggjum reyndist ekki ástæðulaus, breytingin er umtalsverð. Málmrammarnir (póstarnir) eru mun breiðari en þeir núverandi og ekki í sama lit. Arne Jacobsen lagði mikla áherslu á að rammarnir yrðu mjög mjóir. Hóteleigandinn fékk fyrirtækið Dan-Alu til að hanna og útbúa sýningarveggbútinn.

Í viðtali við dagblaðið Berlingske sagði verkfræðingur Dan Alu að vissulega yrðu póstarnir breiðari en sagði jafnframt að liturinn á póstunum á sýningarveggbútnum væri ekki sá endanlegi. Hann útskýrði jafnframt að breyttar og auknar kröfur um einangrun og fleiri þætti gerðu að verkum að útlitið yrði ekki nákvæmlega óbreytt. 

Borgin getur togað í handbremsuna

Danskir fjölmiðlar, einkum dagblöðin Berlingske og Politiken, hafa undanfarna daga fjallað heilmikið um hinar fyrirhuguðu endurbætur og viðgerðir á hótelinu. Komið hefur fram að eigendur hótelsins hafa verið í sambandi við tækni- og umhverfisnefnd borgarinnar varðandi málið. Borgin getur ef svo ber undir komið í veg fyrir, eða stöðvað, framkvæmdir, „við getum togað í handbremsuna,“ sagði Marcus Vestager, sem situr í tækni- og umhverfisnefndinni. Og bætti við að hann teldi mjög litlar líkur á að borgin heimili þessar breytingar á hótelinu eins og þær hafa nú verið kynntar. 

Arkitekt sem dagblaðið Berlingske ræddi við sagði að grannt yrði fylgst með framhaldinu, „við getum ekki setið hjá og látið eyðileggja eina af skrautfjöðrunum í danskri byggingarlist“.

Kjósa
23
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár