Þessi grein birtist fyrir rúmlega 2 mánuðum.

Hrafnar fylgdu honum

Jón Gunn­ar Ottós­son, fædd­ur 27.11.1950 - lát­inn 15.09.2023

Hrafnar fylgdu honum.

Þegar pabbi minn starfaði sem forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands – sem hann gerði í 27 ár – þá sagði hann frá því að á þakinu fyrir ofan skrifstofu hans væri laupur, hreiður hrafna.

Sjálfur hafði hann tamið hrafn þegar ég var lítil sem sat á öxl hans en lógaði honum þegar hrafninn lagðist á barnið og reyndi að kroppa úr því augun.

Guð launar fyrir hrafninn, sagði hann, trúlaus maðurinn sem samt trúði á krumma. Á íslenska náttúru – sem hann lifði fyrir. Á merki Náttúrufræðistofnunar Íslands situr hrafn á þúfu. Mér fannst hrafnar vaka yfir pabba mínum, þeir vaka yfir náttúru Íslands, öllum þeim sem hana vernda.

Hann var að hluta alinn upp í Mývatnssveit, í fóstri hjá Ídu og Árna á Helluvaði, og heillaðist af fuglum, flugum og plöntum, og ugglaust fiskum líka. Þegar drekkja átti öllum Laxárdalnum upp að Mývatni stoppuðu heimamenn virkjanafyrirætlanir. Síðar sagði hann að þetta hefði haft áhrif á hann sem náttúrufræðing.

Þrjátíu og eins árs varði hann doktorsritgerð við Háskólann í Exeter, þar sem hann hafði rannsakað vistfræði burkna og skordýra. Raunar hafði hann ætlað að skrifa um allt annað. En þar sem hann sat og beið eftir viðtali hjá tilvonandi leiðbeinanda sínum á biðstofu í Englandi, þá rak hann augun í vísindatímarit með grein um hvernig sumar plöntur geta varist ágangi skordýra.

Lesturinn tendraði slíka forvitni í honum að hann hætti við allt sem hann hafði undirbúið og tilkynnti leiðbeinandanum að hann vildi skrifa um samskipti plantna við skordýr. Efnið var í anda hans, út af því man ég glöggt eftir honum með litríka prjónahúfu yfir hrafnsvörtu hárinu að príla aftur og aftur ofan í gjótur að skoða burkna – og skrásetja sitthvað.

Hér hlæja menn bara

Fyrir örfáum árum var hann í viðtali hjá Sunnu Ósk Logadóttur sem birtist á Kjarnanum. Þar talaði hann um ágengar tegundir sem ógna íslenskri náttúru, fyrst og fremst plöntur. Hann taldi að því væri ekki tekið alvarlega á sama tíma og þetta væri viðurkennt á alþjóðavettvangi sem ein mesta ógn við lífríki jarðar. „Hér hlæja menn bara að þessu, sagði hann.

Og hann útskýrði þá að eftir að Ísland sótti um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu hefði fram­kvæmda­stjórn þess séð hversu „aft­ar­lega við vorum á mer­inni“ í því að skrá­setja nátt­úr­una og sett fjár­muni í verkið. Nátt­úru­fræði­stofnun vann það hratt á árunum 2012–2016. „Það skipti engu í okkar huga hvort við myndum ganga í Evr­ópu­sam­bandið eða ekki, því þetta var sami grunnur og lagt var upp með í nátt­úru­vernd­ar­lög­un­um,“ benti hann á. „Þetta er líka í sam­ræmi við alþjóða­samn­inga eins og Bern­ar­samn­ing­inn um vernd villtrar nátt­úru í Evr­ópu.“ Pabbi var forseti Bernarsamningsins og sat í stjórn hans í 11 ár, þegar verið var að koma þessu neti á í Evrópu. „Þá var það mín þjóð sem stóð sig ekki. Það var svekkj­andi að horfa upp á það, sagði hann jafnframt í þessu viðtali um ævistarfið.

Sjáðu fjallið speglast í vatninu

Ungur tileinkaði hann sér greinandi hugsun.

Meðan hann var við nám í líffræði bjuggum við í Exeter en hann dvaldi þar líka um tíma einn og ég man eftir að hafa hlegið þegar hann sagði frá því að hann hefði stundum borðað hundamat í kvöldmat, eins og Joe vinur hans, því það væri svo mikil næring í honum. Svo sendi hann fjörugt bréf þegar hann átti pund fyrir steik og rauðvíni.

Námsmenn eru og verða blankir, engu að síður lánaði þáverandi tengdafaðir hans, Halldór Laxness, honum og Sigríði mömmu minni, hvítan jagúar með rauðum sætum sem blanki námsmaðurinn gat þeyst um á úti um breskar sveitir, með litlu fjölskylduna.

Ég á minningar úr æsku síðan við feðginin túruðum landið og pabbi var að skoða tré og burkna og kíkja í heimsókn á afskekkta sveitabæi. Í þessum minningum býr fegurðin. Hún kristallaðist þegar við vorum eitt sinn fyrir norðan og hann stoppaði við stöðuvatn í sólskini og sagði mér að stíga út úr bílnum. Og síðan: Sjáðu, fjallið speglast í vatninu!

Í vatninu var sama fjall og samt annað, fullkominn endurómur, minningin um augnablikið er eilífðin.

Hann sat ófáa fundina, hér og þar, með hinum og þessum, héðan og þaðan.

Kenndi nóbelsskáldi algebru

Stundum fékk móðurafi minn að fljóta með í þessar ferðir, hættur að keyra fannst honum gaman að skoða staði og umhverfi með pabba, fjölfróðum um náttúruna. Einu sinni gistum við á Hótel Búðum sem frekar hippalegt fólk var þá að reka. Þegar kom að því að snæða kvöldmat vorum við beðin um að hinkra því kokkurinn væri að kaupa í matinn. Eftir klukkutíma bið fóru þeir að ókyrrast og spurðu aftur um matinn, í ljós kom að kokkurinn hafði brunað í Borgarnes að kaupa inn, alveg á leiðinni.

Ég held það hafi verið í þessari ferð sem ég byrjaði snemmþroska á blæðingum í rauða aftursætinu á jagúarnum og engdist um í magaverkjum og blygðun meðan þeir skeggræddu náttúruna.

Jón Gunnar – svo ungur faðir að barnið kallaði hann oft nafninu sínu – var með leitandi heila, þyrsti stöðugt í áskorun.

Í æsku man ég að hann sat oft fram á nótt að tefla við sjálfan sig. Einhver tímann sagði hann mér að hann hefði setið með téðum afa mínum, sem kunni litla stærðfræði þrátt fyrir nóbelinn, og dundað sér við að kenna honum algebru. Hann kenndi honum ýmislegt. Einhver tímann kallaði ég á afa minn í matinn með orðunum: Komdu að éta!

Sá gamli fyrrtist við og sagði hastur: Dýr éta, menn borða.

Ég tók aðfinnsluna svo nærri mér að ég sagði pabba grátandi frá þessu. Þá sagði pabbi: Skilaðu til afa þíns að menn eru dýr.

 Engisprettur og snjótittlingar

Rétt skilgreining var honum hjartans mál.

Honum var tíðrætt um að alþjóðlega væri búið að skilgreina þau dýr, plöntur, vistgerðir og fyrirbrigði í náttúrunni sem þarfnist verndar. Út frá skilgreiningunum eru svæði kortlögð.

Vist­gerð eftir vist­gerð, teg­und eftir teg­und, sagði hann í áðurnefndu viðtali og útskýrði að  þannig væri búið til net sem hefði það að mark­miði að taka frá þau svæði sem eru verndar þurfi áður en ákvarð­anir væru teknar um aðra land­nýt­ingu.

„Þannig virka málin í Evr­ópu­kerf­inu,“  útskýrði hann þá og um leið að þessu væri þveröfugt farið hér á landi. „Á Íslandi fæst það land­svæði friðað sem ekki eru önnur not fyr­ir. Ef ekki á að virkja eða ráð­ast í aðra land­notk­un, þá er í lagi að friða. En ef til er virkj­ana­hug­mynd, þá er mjög mikil and­staða gegn því að vernda það.“

Maður sem rannsakaði samskipti skordýra og burkna var heillaður af vef náttúrunnar, undrinu sem hann lifði fyrir að vernda.

Meðan aðrir feður í sveitinni áttu hesta og kindur, þá fólst búskapur pabba – að hundinum slepptum – í að flytja inn engisprettur og fuglakónguló. Hann gaf engisprettunum burkna að éta og um langt skeið veigruðu gamlar frænkur sér við að heimsækja okkur, í hús þar sem heyrðist þegar kóngulóin tiplaði á næturnar meðan snjótittlingarnir sváfu úti og minkurinn skaust í ruslið.

Hann hafði fyllt stórt herbergi með hitakössum með engisprettum, við hlið herbergis okkar systra. Og ég fékk að eiga eina í hitakassa til að fara með í skólann – kennaranum til takmarkaðrar gleði.

Ólíkt ýmsum öðrum feðrum gat honum orðið um og ó ef einhver drap býflugu. Þær boðuðu sumarið og það átti alltaf að bjarga þeim úr sjálfheldu með glasi og pappírsblaði.

Hann geymdi haglabyssu í skottinu til að skjóta rjúpu, hann sem átti eftir að verða reglulega umdeildasti embættismaður landsins þegar hann takmarkaði aðgengi veiðimanna að rjúpunni með árlegum kvóta. En sjálfur kvaðst hann fljótt hafa vaxið upp úr því að skjóta fugla og í stað þess orðið forfallinn stangveiðimaður.

Örfáum dögum fyrir andlátið fór hann í göngugrind, í sólskini, í árlega og síðustu veiðferðina, í Laxá í Leir.

Lúpínustríð

Stundum þegar þurfti að gefa út leyfi til að aflífa ísbjörn varð hann pabbi líka umdeildur, en kannski er ekki hægt að gegna stöðu forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands án þess að gusti um mann. Hann átti til dæmis til að stuða fólk sem brann álíka fyrir lúpínu og hann var gagnrýninn á hana.

Pabbi minn taldi að það þyrfti að hafa meiri heimil á notkun lúpínunnar sem hann sagði dreifast með öllum ám og lækjum og ekki þekkja nein jarðamörk. Um leið og hann sagði að lúpínustríðið væri í rauninni tapað. Að á stórum svæðum yrði aldrei losnað við hana, þó að reynt sé að halda henni frá ákveðnum svæðum.

Einhver tímann varð allt vitlaust á einhverri lúpínusíðu á Facebook þegar ég hafði birt pistil um umhverfismál og nælt í upplýsingar hjá föður mínum. Orðalag hans draup svo af upplýsingunum að þarna þóttist eitthvað skógræktarfólk greina fingraför hans á skrifum mínum og upphófust eldheitar samsæriskenningar á lúpínuþræðinum. Þar var hann loksins böstaður!

Annað var honum þyrnir í augum: Kolefn­is­jöfn­un – í auglýsingum fyrirtækja, nokkuð sem hann áleit vera aflátsbréf á færibandi. Neytendum líði eins og þeir hafi friðþægt sig en í raun er verið að plata þá. Í viðtalinu sagði hann: „Þetta gengur út á það að láta fólk kaupa ein­hverja hríslu svo það geti hagað sér eins og það vill ... En þetta er aldrei hugsað til enda. Skógur bindur hratt á meðan hann er að vaxa en svo kemur að því að hann bindur minna heldur en að hann and­ar. Skógur er eins og hver önnur líf­vera. Hann eld­ist, hrörnar og deyr.“ Þessi orð hans minna mig á að eitt sinn sagði hann að það eina sem ég þyrfti að læra í lífinu væri að kunna að afla mér upplýsinga og lesa í þær.

Í Ríó að funda um loftslagsvá og ekki laust við að hann minni á Don Johnson. Á sínum tíma hafði hann séð mikið um undirbúning fyrir heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó árið 1992 og setið hana þegar staðfestir voru tímamótasamningar til verndar lífríki jarðar.

Sósan og heimurinn að brenna

Oft voru símtöl okkar feðgina á þann veg að annað var að ná í upplýsingar hjá hinu, um hitt og þetta. Og þegar hann er látinn, og samtölin þögnuð, þá deyfi ég eftirsjána að hafa ekki heimsótt hann of lengi út af vinnuönnum með því að minna mig á að sjálfur var hann áratugum saman alltaf á leiðinni. Bara fyrst að græja þetta og klára hitt, og funda þarna eða aðeins að skreppa, út á land eða í aðra heimsálfu; maður sem fór svo víða að hann varð vitni að þremur flugslysum.

Nema þegar hóað var í matarboð, þá var mæting á slaginu. Hann hringdi til að spyrja hvort ég yrði nokkuð sein, þegar ég var nýbúin að eiga son minn. Ég viðurkenndi að vera aðeins hæg í tíðinni, nýbúin að heyra spá í útvarpinu þess efnis að eftir hundrað ár yrði tæpast framtíð, sökum loftslagshamfara af mannavöldum.

Nú, vissirðu það ekki? spurði pabbi hissa.

Jú, eða nei ... eða hvað ertu að gera á þessum umhverfisráðstefnum ef þetta er bara svona? næstum grét ég með ungabarnið í fanginu. Barnabarnið þitt á ekki eftir að geta verið afi eins og þú, bara að halda matarboð og ...

Ja, þetta er bara svona, sagði hann, og þuldi svo upp nokkrar óhugnanlegar en áreiðanlegar staðreyndir. Síðan sagði hann: En farið nú að drífa ykkur, ég má ekki vera að þessu, sósan er að brenna.

Heimurinn er að brenna! Og þú að hugsa um sósu! skrækti ég, þó að hann ætti síst af öllum þessa ásökun skilið.

Það hjálpar ekki að eyðileggja sósuna líka – eitthvað svoleiðis hló hann mæddur, enda með kokkanef.

Einlægur, beinskeyttur, aldrei háðskur

Hann og Margrét Frímannsdóttir, seinni eiginkona hans sem hann bjó með í meira en þrjátíu ár, héldu franskar matarveislur og börn og barnabörn nutu góðs af. Hann var ljónheppinn að eignast maka sem deildi með honum ástríðu í eldhúsinu og áhuga á trjárækt og garðyrkju, ásamt mörgu öðru. Bæði með græna fingur og svo innilegir sálufélagar að grænir fingur hljóta að vera lykill að góðu hjónabandi.

Þau settu niður tré sem áttu ekki að geta dafnað í íslensku loftslagi á milli þess sem þau stofnsettu stjórnmálaflokk, Samfylkinguna, og þeyttust um á ferðalögum, stöðugt að ræða það sem á báðum brann þá stundina; pólitík, fjölskylda, margþætt starf beggja, náttúra.

Hann gat rætt um allt við alla, alltaf einlægur en aldrei háðskur og fyrir það er ég svo þakklát.

Eins einlægur og hann gat verið beinskeyttur. Fljótur að hugsa, fljótur að vinna.

Hann kannski sat og horfði á fótbolta meðan aðrir kláruðu matarveislu, síðan þegar hinir ætluðu í háttinn stóð hann upp og sagðist þurfa að skella í fyrirlestur sem hann ætti að halda í útlöndum daginn eftir.

Reyndar átti hann bágt með að skilja fólk sem var ekki orðið fagidjótar strax um tvítugt. Sjálfur hafði hann verið leiðsögumaður á Spáni og í Marokkó áður en hann krossaði tvítugsafmælið, þar hélt hann m.a. til í hellum með Rómafólki, og líklega var hann ekki mikið eldri en tuttugu og fimm ára þegar hann stakk hönd inn í býkúpu í ákafanum að rannsaka eitthvað, fékk flugurnar yfir sig og datt í brenninetlubeð –  úti í skógi í Englandi.

Útsettur fyrir gagnrýni

Jón Gunnar var stöðugt á ferðalögum vegna starfsins og flæktist í allar heimsálfur, að Suðurskautslandinu undanskildu – og þó! Hann vann mikið til í Strassborg og ekki ólíklegt að þessi mynd sé tekin þar.

Um það leyti sem pabbi fór að vinna í umhverfisráðuneytinu, þar sem hann var skrifstofustjóri, viku vinnuskyrtur og lopahúfur fyrir jakkafötum, að minnsta kosti fyrri hluta dags. Ég hef stundum velt fyrir mér hvernig það var fyrir svo ástríðufullan vísindamann að þurfa að laga starf sitt að opinberri stefnumótun, en sem forstjóri Náttúrufræðistofnunar þurfti hann stundum að kynna stefnur Íslands erlendis, þó að þær stríddu gegn skoðun hans. Hann sem kornungur hafði sprænt á rútu fulla af sendifulltrúum frá NATO og endað á blaðaljósmynd.

Hann átti til að tala fjálglega um hitt og þetta sem betur mætti fara en þegar ég ýtti á hann að skrifa um það varð mér ljóst að hann gat ekki alltaf tjáð sig eftir eigin nefi í forstöðu fyrir ríkisstofnun – á fjárlögum frá ríkinu og skilningur ráðamanna á starfinu þar gat verið tilviljanakenndur. Bæði hann og stofnunin voru útsett fyrir gagnrýni og ýmsu, enda er náttúran dýrmæt á svo margflókinn hátt að það getur reynst strembið að verja hana fyrir hagsmunum annarra, fræðilegar tillögur geta jafnvel boðið heim stefnum.

Hann var vanur að fást við hvað sem er og því átti ég hauk í horni þegar mér var um árið sjálfri stefnt vegna skrifa um ofbeit á landi í Mosfellsdal. Þá tók pabbi saman bunka af gögnum um þetta land langt aftur í tímann, eins þykkan bunka og múrstein, og svo ítarlegan að minn frábæri lögmaður kvaðst sjaldan hafa séð eins vandaðan frágang á gögnum. Bunkinn var ein besta gjöfin sem pabbi minn gaf mér.  

Hann talaði oft af ákafa um ofbeit eða lúpínu, ný náttúruverndarlög, já og rammaáætlun, allt það sem á honum brann. En hann talaði sjaldnar við mann um alþjóðastarf sitt sem var þó gríðarlega mikið. Maður vissi mest lítið hvað hann var að vinna í öllum þessum ferðum, lengi vel alltaf í útlöndum, svo heimavanur á hóteli í Strassborg að þar var tekið á móti mér eins og ættingja þegar ég kom þangað eitt sinn.

Alltaf á fartinni, eins og þegar löggan stoppaði hann á Ítalíu því hann hafði keyrt af stað með skjalatöskuna á bílþakinu.

En ég heyrði hann stundum tala á þá leið að hér væri eins og umræða um náttúru takmarkaðist við ákveðna hluti, virkjanir eða loftslagsmál, meðan annað væri látið sitja á hakanum. Því hjó ég eftir þessum orðum hans í þessu góða viðtali: „Til þess að upp­fylla ákvæði lofts­lags­samn­ings­ins er ekki ætl­ast til að þú brjótir ákvæði ann­arra samn­inga. Það eru til að mynda mjög skýrar reglur í Bern­ar­samn­ingnum og Ríó-­samn­ingnum um líf­fræði­legan fjöl­breyti­leika um að vernda ólíkar vist­gerð­ir. En hér á landi, til að upp­fylla ákvæði lofts­lags­samn­ings­ins, eru hinir samn­ing­arnir brotn­ir.“

Að bjarga lífinu

Aðeins örfáum dögum fyrir andlát sitt fór Jón Gunnar í síðustu veiðiferðina með góðum vinum.

Hann var maður sem lifði fyrir eitthvað æðra, lífsstarf í þágu náttúru.

Umhugsunarlaust. Hann átti silfurkassa sem hann hafði ungur fengið að gjöf fyrir að kasta sér inn í brennandi bíl að reyna að bjarga manneskju. Hann var stöðugt að reyna að bjarga lífinu.

Strákurinn sem átti til að príla upp á fjallið fyrir ofan húsið okkar í Mosfellsdalnum, Grímansfellið, í vondu veðri og renna sér niður á skíðum. Eitt sinn var hann búinn að príla alla leið upp á topp þegar hann missti annað skíðið og það rann alla leiðina til baka.

Í síðasta samtali okkar töluðum við um Grímansfellið. Hann hafði séð mynd af mér á fjalli á Facebook og hringdi til að spyrja hvort ég hefði farið upp á Grímansfell, sjónlínan blasti þannig við honum.

Ég sagði honum að ég hefði gengið á Reykjaborg og Lala, en í baksýn gæti það virst vera hitt fjallið.

Mér fannst þetta líka skrýtið, sagði pabbi og hló. Til að fá þessa sjónlínu á Grímansfellinu hefðir þú þurft að príla upp grjóthamra. Ég fór reyndar oft upp þar í gamla daga. En þú ert ekki sami fjallaklifrarinn og ég var!

Bíddu bara, ég er byrjuð í fjallaklúbbi, sagði ég, ómeðvituð um að þar með væri ég að strengja heit um að verða fjallageit. Að við ættum aldrei eftir að tala saman aftur. Aðeins fyrir örfáum dögum síðan var það óhugsandi.

Ég tek undir orð þeirra sem sögðu á Facebook við lát hans að nú hefði íslensk náttúra misst góðan vin. Síðustu árin helgaði hann sig jú starfi með VÍN, Vinum íslenskrar náttúru – þar sem fjöldi náttúruvísindafólks veitir samfélaginu aðhald með upplýsingum, samantektum og eftirfylgni.

Á sínum tíma hafði hann séð mikið um undirbúning fyrir heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó árið 1992 og setið hana þegar staðfestir voru tímamótasamningar til verndar lífríki jarðar. Hann var staðráðinn í að sporna gegn rýrnun líffræðilegs fjölbreytileika – í skugga loftslagsbreytinga sem átti að takast á við.

Í títtnefndu viðtali kom fram: „Hver þjóð átti í kjöl­far stað­fest­ingar á samn­ingnum um líf­fræði­lega fjöl­breytni að gera sína stefnu­mörkun og aðgerða­á­ætl­un. „Það var ekki fyrr en 2008 að þessi stefnu­mörkun var gerð – sextán árum eftir und­ir­ritun samn­ings­ins,“ segir Jón Gunnar. Tveimur árum seinna var aðgerða­á­ætl­unin klár, „og svo ekki sög­una meir. Það er ekk­ert farið eftir þessu. Engin eft­ir­fylgn­i.“

Síðasta færslan sem hann skrifaði á Facebook, þann 31. ágúst, endaði á þessum orðum: Horfði á fréttir í lok dags og varð fyrir vonbrigðum með ákvörðun Svandísar minnar í hvalveiðimálinu. Eini svarti bletturinn á annars góðum degi.

Fyrir mörgum árum síðan gaf hann mér ljóð Jónasar Hallgrímssonar í gamalli og innbundinni bók. Þar skrifaði hann:

Elsku Auja. Þetta er sú bók sem mér hefur ævinlega þótt vænst um. Fékk hana í fermingargjöf 1964!

Gef þér hana núna þegar þú hefur unnið til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2004.

Afi þinn sagði að skáld og náttúrufræðingar væru bestu varðveislumenn íslenskrar tungu. Jónas var skáld og náttúrufræðingur. Þú ert af báðum komin.

Með hamingjuóskum, frá pabba

Ef heimili mitt myndi brenna á morgun, þá myndi ég bjarga þessari bók frá pabba mínum umfram annað og kveð hann nú, eins og hann samgladdist mér, með orðum Jónasar:

Vísindin efla alla dáð,
orkuna styrkja, viljann hvessa,
vonina glæða, hugann hressa,
farsældum vefja lýð og láð;
tífaldar þakkir því ber færa
þeim sem að guðdómseldinn skæra
vakið og glætt og verndað fá
viskunnar helga fjalli á.

Kjósa
105
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (4)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
 • RKS
  Ragnheiður K. Steindórsdóttir skrifaði
  Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra, kæra Auður!
  0
 • Sveinn Ingólfsson skrifaði
  Frábært eins og við er að búast frá Auði
  0
 • Thordis Arnadottir skrifaði
  Einstaklega fallegt - þakkir. Jón Gunnar var magnaður maður og algjör töffari. Renaissance man, eins og þeir kalla þá í útlöndum. Heimsmaður.
  0
 • Jóhanna Gunnarsdóttir skrifaði
  Besta minningargrein af mörgum sem ég hef lesið innilega samúð Auður
  2
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár