Norski dýraverndunarsinninn Samuel Rostøl var staddur á kaffihúsinu Röst við Reykjavíkurhöfn á fimmtudag. Á milli þess sem hann endurhlóð síður fréttamiðlanna virti hann fyrir sér skipin, á meðal þeirra hvalveiðiskip sem höfðu ekki fengið að veiða síðan Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra kom á banni við veiðum á langreyðum í júnímánuði. Svo kom höggið. „Vertíðin fer af stað á morgun.“
„Mér leið eins og stór steinn sykki í maganum á mér,“ sagði Rostøl sem ákvað þá og þegar að fara í hungurverkfall. „Ég hef séð hvernig farið er með þessi dýr. Ég hef séð hvernig þau eru drepin og það er hryllilegt.“
Vísir greindi fyrst frá hungurverkfalli Rostøls.
Rostøl var staddur skammt frá staðnum þar sem hann heyrði fréttirnar þegar blaðamaður Heimildarinnar náði tali af honum í dag. Hann var þar til þess að styðja tvo aðgerðasinna sem klifruðu upp í möstur hvalskipa við Reykjavíkurhöfn eldsnemma í morgun til þess að mótmæla hvalveiðum. Mótmælendurnir eru þar enn þegar þetta er skrifað. Lögreglan er með mikinn viðbúnað á svæðinu.
„Þær eru að fórna miklu, sinni eigin heilsu og öryggi til þess að vernda hvalina,“ sagði Rostøl, fullur aðdáunar.
„Þetta myndefni hefur grætt mig oftar en ég hef tölu á“
Hann hefur verið staddur á hvalstöðvum þegar hvalir eru dregnir þangað upp og horft á myndefni frá Matvælastofnun sem sýna drápin.
„Það er ekki margt sem getur grætt mig en þetta myndefni hefur grætt mig oftar en ég hef tölu á,“ sagði Rostøl. „Að vita að þessi skip muni geta farið út og gert þetta aftur með smávægilegum breytingum á skilyrðum gerir mig mjög pirraðan.“
Hann ætlar sér að halda hungurverkfallinu áfram, helst þar til íslensk stjórnvöld hafa bannað hvalveiðar.
„Ég myndi elska að fara heim og fá mér að borða,“ sagði Rostøl. „En mín óþægindi eru léttvæg miðað við óþægindi hvalanna.“
Athugasemdir (1)