Árið 2005 var fólk á ferð í hæðardrögum fyrir ofan þorpið Pangwang austarlega í Anhúí-héraði í Kína. Þorpið er um tíu kílómetra frá syðri bakka Yangtze-fljóts, spottakorn inni í landi, það eru 500 kílómetrar í beinni loftlínu til Sjanghæ við sjávarströndina. Þetta er þéttbýlt landbúnaðarsvæði en í þorpunum við rætur hæðanna ríkir þó kyrrð og ró. Þegar fólkið fann hellismunna neðarlega í suðurhlíð Meiyuan-hlíðar vakti það í fyrstu ekki mikla athygli því hæðirnar þarna eru úr kalksteini og víða heldur gljúpum svo hellar eru nokkuð víða.
Samt var fundur hellisins tilkynntur samviskusamlega til yfirvalda og ári síðar voru vísindamenn mættir á staðinn til að vita hvort nokkuð hnýsilegt kynni að leynast þarna í iðrum Meiyuan-hæðar.
Mannleifar í helli
Og viti menn. Það fundust mannaleifar. Og var þá hellinum umsvifalaust lokað og ákveðið að hefja nákvæmari rannsókn síðar. Að henni stóðu vísindamenn við kínversku vísindaakademíuna og Xi’an Jiaotong-háskóla í samvinnu við kollega sína á Bretlandi og Spáni. Þessi rannsókn hófst árið 2014 og stóð í fimm ár og nýlega birtust niðurstöðurnar í nýju hefti af vísindaritinu Journal of Human Evolution.
Óhætt er að segja að þær hafi vakið mikla athygli, enda tíðindin óvænt sem bárust úr hellinum.
Fyrst er frá því að segja að í hellinum, sem nefnist nú Hualong, hafa til þessa fundist rúmlega 30 steingervingar af mönnum og þeir elstu rúmlega 300 þúsund ára gamlir. Einnig fannst töluvert af frumstæðum verkfærum úr steini og talsvert af beinum ýmissa spendýra, fyrst og fremst klaufdýra en einnig nokkurra nagdýra.
Bein af táningspilti
Alls er um 40 tegundir að ræða og engin stór rándýr virðast hafa haldið til í hellinum. Þau hafa þó greinilega lagt stundum leið sína í hellinn, væntanlega í leit að bráð eða hræjum, því bit- og tannaför rándýra má sjá á sumum klaufdýraleifunum.
Ekki er talið að um samfellda búsetu manna hafi verið að ræða í þessum helli. Til þess var hann of óöruggur, enda ljóst að margoft hefur hrunið úr hellinum, því Meiyuan-hæðin er gljúp og varasöm, ekki síst í mikilli rigningartíð. Vísindamennirnir hafa því ályktað að fólk hafi annaðhvort búið í hellinum um skamma hríð, gjarnan með löngu millibili, eða hreinlega farið inn í hann öðru hvoru til að sækja sér hræ af dýrum sem þar höfðust við.
Mannaleifarnar voru frá ýmsum tíma en óhætt er að segja að þær elstu – sem fundust síðastar – veki langmesta athygli. Þar er um að ræða stóran hluta af höfuðkúpu og kjálka um það bil 12 ára gamals unglings; reyndar fannst fótarbein af þeim sama pilti líka.
Af hvaða tegund er unglingurinn?
Unglingurinn var uppi fyrir um 300 þúsund árum, það er nokkuð ljóst. En af hvaða tegund var hann?
Langlífasta manntegundin sem enn þá hefur komið fram var homo erectus, sem kom fram á sjónarsviðið fyrir um tveim milljónum ára. Hann dreifðist um Afríku, Evrópu og Asíu og hélt velli allt þar til fyrir „aðeins“ 100 þúsund árum en þá fréttist síðast af honum þar sem nú heitir Indónesía.
Þá höfðu fyrir löngu komið fram nýjar manntegundir sem væntanlega hafa þróast frá erectusi – tegundir eins og homo heidelbergensis og Neanderdalsmaðurinn. Báðar voru komnar fyrir að minnsta kosti 400 þúsund árum. Örlitlu síðar birtist svo homo denisova. Neanderdalsmaðurinn hélt fyrst og fremst til í Evrópu og Vestur-Asíu en Denisovarnir í Austur-Asíu, þar á meðal í Kína.
Báðar tegundirnar dóu út fyrir um 15–30 þúsund árum.
Margar tegundir manna uppi samtímis
Hinn gamli homo heidelbergensis bjó hins vegar fyrst og fremst í Afríku en skaut einnig upp kollinum í Evrópu og hugsanlega í Suður-Asíu.
Talið hefur verið að homo sapiens – okkar eigin manntegund – sé komin af homo heidelbergensis og þó það sé ef til vill ekki rétt, þá hafa menn þó verið sammála um að tegundin okkar hafi verið komin fram í dagsljósið fyrir um 200 þúsund árum í Afríku.
Homo sapiens fór svo ekki að breiðast fyrir alvöru út um Evrópu og Asíu fyrr en fyrir 60–80 þúsund árum.
Sapiens, Neanderdalsmenn og Denisovar lifðu því samtímis í veröldinni í 150–180 þúsund ár. Þetta voru aðskildar tegundir en þó svo skyldar að þær gátu eignast afkvæmi saman, og gerðu það bersýnilega stundum. Erfðarannsóknir nútímans hafa leitt það rækilega í ljós.
Leifar af genum á kreiki
Nútímafólk geymir margt djúpt í frumum sínum gen bæði frá Neanderdalsmönnum og Denisovum þótt „magn“ sé mismunandi eftir svæðum.
Eftir því sem erfðarannsóknum fleygir fram kemur fleira í ljós og fyrir ekki löngu áttuðu vísindamenn sig á því að í erfðamengi mannsins virtust á kreiki leifar af genum enn einnar tegundarinnar, sem sé hvorki Denisova né Neanderdalsmanna. Ég kann ekki að skýra hvernig þeir töldu sig koma auga á þetta – það er alltof tæknilegt – en síðan hefur gjarnan verið talað um „draug“ í genamengi okkar.
Enginn vissi hver þessi tegund var eða hvar og hvenær hún hefði verið á dögum.
En nú víkur sögunni aftur að unga piltinum í Hualong-helli.
Þegar vísindamennirnir fóru að setja saman steingerð brotin úr höfuðkúpu hans rak þá í rogastans. Mestur efri hluti hauskúpunnar virtist gefa til kynna að þarna hefði homo sapiens verið á ferðinni.
Lítil haka segir sína sögu
Það var samt eiginlega ómögulegt að trúa því. Homo sapiens var jú ekki kominn til sögunnar fyrir 300 þúsund árum þegar táningspilturinn dó drottni sínum í þessum helli – hvað svo sem hann hafði verið að gera þar, kannski að leita sér að beinum til að naga.
Og allra síst gat átt sér stað að snemmborinn homo sapiens hefði verið kominn alla leið til Austur-Kína fyrir svo löngu síðan. Þótt kínverskir fræðimenn hafi oft gefið til kynna að þeir vildu gjarnan finna vísbendingar þess að homo sapiens hafi þróast í Kína en ekki Afríku, þá hafa þær vísbendingar einfaldlega ekki fundist enn þá.
En var þarna komin sú vísbending sem þurfti?
Nei, ekki var svo, því þegar afgangur hauskúpunnar var skoðaður, þá kom á daginn að piltur hafði helstil litla og fáfengilega höku, miðað við homo sapiens. Lögun og stæð hökunnar minnti helst á homo erectus eða þá Denisova sem munu ekki hafa státað af hörkulegri höku.
Fjórða tegundin?
Um tíma héldu vísindamennirnir að hökuleysi piltsins hefði stafað af æsku hans og þroskaleysi en eftir að hafa rannsakað málið oní ræmur, þá varð niðurstaðan sú að svo væri ekki. Pilturinn (sem vísindamennirnir kalla því hljómfagra nafni HLD 6) hefði einfaldlega verið frá náttúrunnar hendi og í genum sínum eins og sambland af homo sapiens (sem var EKKI kominn til sögunnar) og þá líklega Denisova sem var reyndar líklega orðinn til, en þó tiltölulega nýlega.
Og hvað þýðir það? Er „draugurinn“ fundinn? Hin óþekkta „fjórða tegund“ sem er á sveimi í genum okkar í viðbót við gen frá Neanderdalsmanni og Denisovum, auk okkar eigin?
Það er altso spurningin. Vísindamenn héldu reyndar að „draugurinn“ hefði ekki komið fram fyrr en nokkru síðar, en hver veit hvað hefur gerst í Kína?
Leist Sapiens vel á drauginn?
Athugið að þessi piltur (eða fólkið hans) getur ekki hafa getið af sér homo sapiens. Kenningin um uppruna Sapiens í Afríku stendur enn óhögguð. En það er vel hugsanlegt að hafi tegundin sem HLD 6 tilheyrði verið enn á dögum austur í Kína þegar homo sapiens birtist þar 250 þúsund árum síðar, þá hafi Sapiens litist vel á, þrátt fyrir veimiltítulega hökuna, og eignast með tegundinni nógu mörg afkvæmi og nógu oft til að „draugur“ tegundarinnar sé enn í genum okkar.
Þetta er skemmtileg uppgötvun, þó enn eigi eftir að draga lokaályktanir af því sem fannst í hellinum í Hualong. Og þetta sýnir líka hvað lífsnauðsynlegur fróðleikur um fortíðina hvílir stundum á veikum grunni. Því hvað ef hellirinn hefði alveg hrunið saman, eins og vel hefði getað gerst?
Þá hefðum við aldrei staðið frammi fyrir draugnum.
Og svo er önnur spurning: Hvað leynist inni í hellum sem við höfum ekki enn fundið og munum kannski aldrei finna?
Athugasemdir