1Svipaður hagnaður og í fyrra
Stóru bankarnir þrír; Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki, birtu uppgjör sitt vegna fyrri hluta ársins 2023 í lok síðasta mánaðar. Samanlagður hagnaður þeirra á því tímabili var 40,3 milljarðar króna sem er aðeins minna en þeir högnuðust um á sama tímabili 2022. Þá vigtaði sala Arion banka á Valitor, sem var bókfærð á 5,6 milljarða króna, umtalsvert inn í góðan hagnað þess banka.
Sú dýrtíð sem ríkið hefur því ekki haft nein teljandi áhrif á stóru bankanna þrjá. Þeim hefur þvert á móti gengið ákaflega vel á verðbólgutímum. Þannig var líka staðan í aðdraganda þessa, þegar ýmsar aðgerðir stjórnvalda og Seðlabanka Íslands vegna kórónuveirufaraldursins höfðu afar jákvæð áhrif á möguleika banka til að auka tekjur sínar.
2188 milljarða hagnaður á tveimur og hálfu ári
Bankarnir þrír högnuðust samtals um 81,2 milljarða króna á árinu 2021 og 66,9 milljarða króna í fyrra. Á tveimur og hálfu ári hafa þeir því grætt 188,4 milljarða króna.
Bankarnir þrír urðu allir til á grundvelli neyðarlaga sem sett voru haustið 2008, í kjölfar bankahrunsins. Þá voru eignir fallinna banka fluttar með handafli yfir á nýjar kennitölur. Samanlagður hagnaður stóru bankanna frá hruni er 857,4 milljarðar króna. Mestur var hann árið 2015, en þá litaði umfangsmikil eignasala uppgjörið.
3Hærra vaxtastig skilar 25 prósent meiri vaxtatekjum
Eftir að bankarnir losuðu um þær eignir sem þeir fengu í vöggugjöf frá íslenska ríkinu á fyrstu árum starfsemi sinnar hafa vaxtatekjur verið helsta tekjulind þeirra. Í fyrra voru slíkar um 130 milljarðar króna eða um 24 prósent hærri en árið 2022. Þessi mikli vöxtur hefur haldið áfram í ár.
Á fyrri hluta ársins námu hreinar vaxtatekjur stóru bankanna þriggja samtals 74,9 milljörðum króna. Það tæplega 15 milljörðum krónum meira en þeir þénuðu vegna slíkra á fyrri hluta ársins 2022. Um er að ræða næstum 25 prósent sameiginlegan vöxt. Mest jukust vaxtatekjur ríkisbankans, Landsbankans. Þær voru 27,5 milljarðar króna á fyrstu sex mánuðum ársins, sem var 28,6 prósent meira en á sama tímabili árið áður. Bankinn segir þetta aðallega vera „vegna stærra útlánasafns og hærra vaxtastigs.“
4Vaxtamunur heldur áfram að aukast
Vaxtatekjurnar byggja á muninum á þeim vöxtum sem bankarnir borga fyrir að fá peninga að láni og þeim vöxtum sem þeir rukka fyrir að lána einstaklingum og fyrirtækjum fjármuni. Sá munur kallast vaxtamunur. Hann var 2,7 til 3,1 prósent á árinu 2022, sem er meiri munur en var árið áður, þegar hann var 2,3 til 2,8 prósent.
Á fyrri hluta yfirstandandi árs hélt hann áfram að aukast. Hann var kominn upp í 3,2 prósent hjá bæði Íslandsbanka og Arion banka en var 2,9 prósent hjá Landsbankanum. Vaxtamunurinn hækkaði þó mest hjá ríkisbankanum, eða um 0,4 prósentustig milli ára. Bankinn skýrir það með því að betri ávöxtun á lausafé hans hafi jákvæð áhrif á vaxtamun.
Vaxtamunur íslenskra banka er talsvert meiri en þekkist á meðal annarra norrænna banka.
5Þóknanatekjur hæstar hjá Arion banka
Hinn stóri tekjupósturinn í grunnrekstri banka eru þóknanatekjur, stundum kallaðar þjónustutekjur. Þar er um að ræða þóknanir fyrir til dæmis eignastýringu og fyrirtækjaráðgjöf en líka þau gjöld sem einstaklingar og heimili greiða fyrir ýmis konar þjónustu sem bankarnir veita þeim.
Hreinar þóknanatekjur Landsbankans, Arion banka og Íslandsbanka voru 21,5 milljarðar króna á síðasta ári. Það er 7,5 prósent meira en þær skiluðu bönkunum þremur í hreinar tekjur á fyrri hluta ársins 2022. Hæstar voru þóknanatekjurnar hjá Arion banka, 8,6 milljarður króna á fyrstu sex mánuðum ársins, en lægstar hjá Landsbankanum, 5,8 milljarðar króna.
6Ná allir markmiðum sínum um arðsemi
Sá mælikvarði sem stjórnendur banka nota til að mæla árangur sinn er ekki endilega hversu mikill hagnaður er í krónum talið, heldur hver hlutfallsleg arðsemi þessa eigin fjár er. Stjórnir viðskiptabanka á Íslandi gera kröfu um að arðsemi eigin fjár sé að minnsta kosti tíu prósent. Sögulega þá náði hún að vera sameiginlega rúmlega ellefu prósent að meðaltali hjá bönkunum þremur á árunum 2009 til 2018, en þar vigtar inn í að einskiptistekjur vegna t.d. sölu eigna voru umtalsverðar á fyrri hluta þess tímabils.
Arðsemi eigin fjár allra bankanna þriggja jókst umtalsvert á árinu 2021, þegar hún var á bilinu 10,8 til 14,7 prósent. Í fyrra dróst hún saman hjá öllum og var á bilinu 6,3 til 13,7 prósent, minnst hjá Landsbankanum og mest hjá Arion banka.
Það sem af er ári hefur arðsemi allra bankanna þriggja verið yfir markmiði. Hjá Arion banka var hún 14,5 prósent, hjá Landsbankanum 10,3 prósent. Arðsemi eigin fjár Íslandsbanka var 11,4 prósent, eftir að búið var að taka tillit til tæplega 1,2 milljarða króna stjórnvaldssekt sem bankinn greiddi í ríkissjóð vegna fjölmargra lögbrota sem hann gekkst við í tengslum við framkvæmd lokaðs útboðs á hlutum í honum sjálfum í mars í fyrra.
7Miklar breytingar á kostnaðarhlutfalli Landsbankans
Allir bankarnir vinna að því að auka hagnað með því að ná niður svokölluðu kostnaðarhlutfalli. Það þýðir á mannamáli að þeir eru að finna leiðir til að spara kostnað, en mælikvarðinn mælir hvað kostnaðurinn er stórt hlutfall af tekjum. Yfirlýst markmið íslensku bankanna er að ná því hlutfalli niður fyrir 40-50 prósent. Einfaldasta leiðin til að ná kostnaðarhlutfalli niður er að fækka starfsfólki.
Kostnaðarhlutfallið er langlægst hjá Landsbankanum, eða 36,1 prósent. Það lækkar gríðarlega frá síðasta ári þegar það var 46,8 prósent. Hjá Íslandsbanka var um 42,4 prósent á fyrri hluta árs og hjá Arion banka var það 43 prósent.
8Hluthöfum Íslandsbanka fækkað um tólf þúsund
Landsbankinn er að nánast öllu leyti í eigu íslenska ríkisins þótt nokkur fjöldi starfsmanna eigi lítinn hlut. Arion banki hefur verið skráður á markað frá sumrinu 2018. Fjöldi hluthafa hans var 7.400 í lok árs 2020, 11.287 í lok árs 2021 og 12.059 um síðustu áramót. Þeim hefur fækkað nokkuð það sem af er ári og voru 11.516 í lok júní síðastliðins. Stærsti hluthafarnir eru þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins sem eiga milli 9-10 prósent hlut hver. Stærsti einkafjárfestirinn eru Stoðir með 5,38 prósent eignarhlut.
Íslandsbanki var einkavæddur að hluta sumarið 2021 þegar íslenska ríkið seldi 35 prósent hlut í bankanum í almennu útboði, sem fjölgaði hluthöfum hans gríðarlega. Hluthafarnir voru um 24 þúsund eftir að því útboði lauk. Alls 22,5 prósent í viðbót var svo selt í lokuðu útboði í mars 2022 til alls 207 fjárfesta.
Hluthöfum í bankanum hefur fækkað skarpt frá almenna útboðinu og voru færri en 12.300 í lok júní. Þeim hefur því fækkað um næstum tólf þúsund frá sumrinu 2021. Stærsti einstaki hluthafinn er enn íslenska ríkið með 42,5 prósent hlut.
9Eiga samanlagt 687 milljarða króna í eigið fé
Bankar halda á miklu magni af eigin fé. Það magn sem þeir þurfa að halda á, til að geta til dæmis tekist á við áföll og virðisrýrnun lána, var aukið verulega eftir bankahrunið til að koma í veg fyrir að sama staða kæmi upp á ný. Eigið fé viðskiptabankanna þriggja var samanlagt 686,8 milljarðar króna um mitt þetta ár.
Það er um 900 milljónum krónum minna en þeir áttu samtals í lok sama tímabils í fyrra. Eigið fé tveggja banka, Arion banka og Landsbankans, dróst lítillega saman milli ára á meðan að það jókst hjá Landsbankanum um sex milljarða króna. Ástæða þess að eigið féð lækkar þrátt fyrir mikinn hagnað eru arðgreiðslur og kaup á eigin bréfum, þær leiðir sem bankar nota til að skila peningum til hluthafa sinna.
10Engar líkur á frekari sölu í ár
Í fjárlögum yfirstandandi árs var gert ráð fyrir að eftirstandandi hlutur ríkisins í Íslandsbanka yrði seldur fyrir 75,8 milljarða króna í ár. Engar líkur eru á því að af því verði.
Formenn stjórnarflokkanna þriggja gáfu út sameiginlega yfirlýsingu í apríl í fyrra þar sem sagt var að frekari sala yrði sett á ís á meðan að Ríkisendurskoðun og fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands rannsökuðu hluta síðasta skrefs sem stigið var í söluferli Íslandsbanka í fyrra. Þótt Ríkisendurskoðun hafi skilað kolsvartri skýrslu um framkvæmdina í fyrrahaust, og sátt fjármálaeftirlitsins við Íslandsbanka vegna lögbrota bankans hafi verið birt í sumar, þá stendur enn yfir rannsókn eftirlitsins á þætti annarra fjármálafyrirtækja sem komu að útboðinu. Alls óljóst er hvenær henni lýkur. Innlendu fyrirtækin fjögur sem ráðin voru til að starfa við útboðið, auk Íslandsbanka, voru Fossar markaðir, sem voru söluráðgjafar, auk ACRO-verðbréfa, Íslenskra verðbréfa og Landsbankans, sem fóru með hlutverk söluaðila.
Til viðbótar skoðar umboðsmaður Alþingis enn hæfi fjármála- og efnahagsráðherra vegna kaupa félags í eigu föður hans á hlut í Íslandsbanka sem áður hafði verið í eigu ríkisins.
Athugasemdir (1)