Klukkan er 09:00 að morgni þriðjudagsins 20. júní 2023. Hópur af grunnskólabörnum gengur um borð í hvalaskoðunarbát Eldingar. Hinum megin við bryggjuna er hvalveiðiskip Kristjáns Loftssonar þar sem sjómenn eru að undirbúa vertíð sumarsins, en hún hefst á morgun. Einn af þeim tekur hólkinn af byssunni fremst á skipinu og stillir stóran skutulinn. Allt er eins og það á að vera.
„Ef einhver dýr komast nálægt okkar vitsmunum þá eru það vissulega höfrungar,“ segir Edda Elísabet Magnúsdóttir, lektor í líffræði við Háskóla Íslands. Edda Elísabet hefur stundað rannsóknir á hvölum um árabil. Áhugi hennar á dýrategundinni vaknaði þegar hún var barn en eftir að hafa skrifað lokaritgerð sína í Kvennaskólanum í Reykjavík um hvali var ekki aftur snúið.
Rannsóknir
Samskipti hvala hafa verið rannsökuð allt frá 7. áratug síðustu aldar en þær rannsóknir sem gerðar voru á þeim tíma myndu margar hverjar ekki standast siðferðislegar kröfur samtímans. „Þá voru til dæmis framkvæmdar alls konar rannsóknir á höfrungum í haldi. En svo gerist það fyrir tilviljun að það heyrast hljóð á upptökum neðansjávardufla sem notuð eru í hernaðarlegum tilgangi. Fyrir þessa tilviljun komst fólk að því með vissu að þetta væru hvalir,“ segir Edda Elísabet.
Eftir uppgötvunina miklu fundu vísindamenn mynstur í hljóðunum en í vatni berst hljóð hraðar en á landi og eyðist hægar út. „Mynstrin benda til þess að þarna séu hvalirnir að syngja einhverja fyrir fram tilbúna runu, kannski eins og fuglasöngva nema bara miklu lengri.“ Hljóðin vöktu mikla athygli og þóttu svo fögur að gefnar voru út plötur svo almenningur gæti hlustað sér til skemmtunar. „Það eru einhverjir á Íslandi sem hafa komið til mín og sagst eiga þessa plötur,“ segir Edda Elísabet og brosir.
Enn hefur vísindafólk ekki komist að því hvað hvert og eitt kall þýðir en það er alveg skýrt að samskiptin eru háþróuð og höfð í einhverjum tilgangi. Edda Elísabet greinir frá því að hvalir séu í tíðum samskiptum til að senda upplýsingar sín á milli, líkt og við mannfólkið. „Á fengitímanum syngja steypireyðar og langreyðar svipað og hnúfubakurinn, en hljóðmerkin eru ekki eins fjölbreytt. Steypireyðarnar fara svolítið mikið niður í bassann og senda út löng djúp baul sem berast lengra.“ Með hljóðupptökutækjum er hægt að gera vísindafólki kleift að staðsetja hvali og fylgja þeim eftir. Einnig eru festir á hvalina svokallaðir sundritarar með sogskálum í sólarhring í senn og þannig er hægt að greina hljóð, líkamsstöðu, sundhraða, staðsetningu og stefnubreytingar hvalsins.
Þrátt fyrir að rannsóknir hafi aukist síðan um aldamótin segir Edda Elísabet enn halla á þekkingu hvala miðað við landdýr enda er umhverfið neðansjávar verulega krefjandi fyrir vísindamenn.
Sjálf hefur Edda Elísabet orðið vitni að hraða og krafti hvala í rannsóknum sínum. Í eitt skipti var hún að safna lífsýnum úr langreyðum og steypireyðum. „Með sporðblakinu einu komst steypireyðurin hundruð metra áfram. Þú þurftir að gera ráð fyrir að næst þegar hún kæmi upp til að anda yrði hún jafnvel kílómetra í burtu. Hún er fljót að synda og getur haldið niðri í sér andanum lengi.“
Hjálpsamir hnúfubakar
Um borð í hvalaskoðunarbátnum koma grunnskólanemarnir sér fyrir fremst uppi á dekki tilbúin að taka myndbönd á snjallsímana sína ef sjást skyldi í hval. Nokkrir túristar eru einnig um borð en flestir þeirra sitja kyrrir neðar í bátnum og fylgjast með litlum gráleitum öldum skella á bátnum. „Þú veist að hvalir hoppa oft á svona skip,“ segir einn níu ára strákur við vin sinn. Vinurinn svarar engu en starir óttasleginn út Faxaflóa. Þá bætir strákurinn hughreystandi við: „Eða bara stundum.“
Sumar hvalategundir eru forvitnari en aðrar og veitir atferli þeirra vísindamönnum innsýn inn í lífið neðansjávar. „Þökk sé hnúfubaknum höfum við fengið að kíkja inn í einkalíf skíðishvala,“ segir Edda Elísabet. Eins og mannfólk eru hnúfubakar með sinn eigin persónuleika. Einn getur verið klókur, annar forvitinn og sá þriðji feiminn.
Þónokkur dæmi eru um að hnúfubakar skipti sér af veiðum annarra dýrategunda og jafnvel bjargi þeim dýrum sem eru í hættu. „Við vitum um nokkur dæmi þar sem hnúfubakar skipta sér af þegar háhyrningar eru að veiða hvalkýr, bæði af annarri tegund og eigin tegund. Þeir synda inn í aðstæður og reyna að skilja háhyrningana í sundur frá hvölunum. Stundum gengur það og stundum ekki.“ Líffræðingurinn segir atferlisfræðinga hafa greint slíka hegðun sem fórnfýsi en hún getur líka verið hernaðartaktík. „Ef þú dregur úr árangri veiðidýrsins sem ógnar þinni tilvist þá ertu að veikja hann.“
Hnúfubakar bjarga ekki bara öðrum hvölum heldur hafa þeir líka komið mannfólki til aðstoðar. Edda Elísabet rifjar upp atvik sem fór eins og eldur í sinu um internetið. Vísindakona nokkur var á sundi í Kyrrahafinu á æxlunarsvæði hnúfubaka. „Hún er að reyna að nálgast hvalina en allt í einu fer hnúfubakur að synda undir hana og reynir að lyfta henni upp. Þetta gera þær við kálfana sína. Konan kemst ekki undan heldur fer hvalurinn alltaf undir hana aftur. Stuttu seinna sér hún að undir henni synti hákarl. Auðvitað drögum við þá ályktun að mögulega hafi farið af stað einhver eðlisávísun hjá hvalnum um að bjarga konunni.“
Einnig eru dæmi um að tannhvalir hafi tekið að sér kálfa annarra tegunda. Edda Elísabet tekur fram að það sé óalgengt í dýraríkinu enda áskorun fyrir mæður að hugsa um tvö afkvæmi í stað eins. „En þarna allavega er einhvers konar eðlisávísun, þessi umönnun sem er svo sterk hjá okkur mannfólki og fjölda annarra dýra. Þarna er móðirin í rauninni svolítið að fórna sér til þess að hjálpa yfirgefnum kálfi.“
Glettnir grindhvalir
Í hvalaskoðuninni er lítið að frétta. „Ég vil allavega sjá einn hval,“ heyrist einn nemandinn segja óþolinmóður út í loftið. Nokkru seinna sést loksins í höfrunga. Krakkarnir taka við sér og hópast saman æsispennt. „Höfrungar eru uppáhalds dýrategundin mín,“ segir skælbrosandi stelpa. Félagi hennar setur símann í vasann og talar við æðri mátt: „Takk, guð. Núna ætla ég bara að horfa með augunum mínum þegar við sjáum hvali.“ Sjóferðin var þess virði.
Aðspurð hvort hvalir eigi í samskiptum milli tegunda segir Edda Elísabet: „Hvalir heyra svo sannarlega hver í öðrum líkt og við gerum þegar við erum á landi. Til dæmis læra dýrin á sléttum Afríku á hljóðmerki hvert annars og þar getur verið ákveðin samhjálp milli tegunda. Þannig að forsendur í dýraríkinu segja að svo geti verið.“ Edda Elísabet nefnir annað dæmi þar sem háhyrningur tók að sér kálf úr grindhvalahópi. „Það gæti alveg verið að háhyrningurinn hafi átt í einhverjum hljóðsamskiptum við þennan kálf.“
Nú fara fram rannsóknir hjá Vestmannaeyjum á samskiptum háhyrninga og grindhvala en það eru náskyldar tegundir. „Háhyrningar eru gjarnan kallaðir úlfar hafsins en þegar grindhvalir mæta á svæðið þá fara þeir, þrátt fyrir að vera stærri og meiri. Rannsóknin snýst um að skilja hvernig þeir lesa í fjölbreytt og mikil hljóðmerki grindhvala sem ferðast oft saman í stórum hópum og eru málglaðir. Þannig er verið að reyna að meta ákvarðanatöku og samskipti milli tegunda og sömuleiðis dýpka skilning okkar á vitsmunalífi hvala.“
Veiðar
Sjávarlíffræðingur selur nammi og gos fyrir sjóveika. Skólaliðar og kennarar arka um hvalaskoðunarbátinn og aðstoða fjölda barna sem æla í poka. Sjórinn rétt fyrir utan landsteinana er flestum ofviða sem sitja fölir á víð og dreif um bátinn. Nýjustu pollagallarnir frá 66 Norður og vatnsheldu iPhone-arnir breyta því ekki að nú erum við landdýr á heimavelli hvalanna.
Veiðiaðferðir hvala snúast oftar en ekki um hópvinnu og fylgjast hvalirnir gaumgæfilega með hver öðrum til að hámarka árangur. Algengt er að eldri kvendýr hópanna stjórni athöfninni. „Við náðum myndbandi í rannsóknarleiðangri af langreyðum veiða þar sem þær voru þrjár saman og röðuðu sér samhliða upp, ein fremst, ein í miðjunni og sú þriðja aðeins aftar. Þannig voru þær að auka getu sína til að ná fæðutorfunni sem samanstóð af sviflægum krabbadýrum. Þetta var ekki tilviljunarkennd uppsetning heldur voru þær að vinna saman á kerfisbundinn hátt,“ segir Edda Elísabet. Í aðstæðum sem þessum skipta samskipti hvalanna gífurlega miklu máli.
Á veiðum nota hnúfubakar stundum loftbólur til að veiða. „Þá er einn hvalur sem staðsetur torfuna og byrjar að mynda loftbólur með jöfnu millibili. Þær stíga upp og mynda loftbólunet. Síðan byrjar næsti að kalla hávær köll sem fá torfuna til að þjappa sig meira saman.“ Að lokum gefa hvalirnir hver öðrum merki um hvenær eigi að láta til skarar skríða og synda undir torfuna. „Veiðiaðferðirnar eru alveg ofboðslega háþróaðar, allavega í okkar augum, og þær eru ekki tilviljanakenndar heldur úthugsaðar. Svona vísbendingar úr dýraríkinu sýna okkur að þarna eru miklir vitsmunir í gangi. Tilvera hvala er ekki bara að þeir séu einfarar sem ráfa um hafið, heldur er miklu meira í gangi.“
Leiðsögukonan hefur nýlokið við að kynna fyrir farþegum undirskriftalista gegn hvalveiðum sem er um borð í skipinu þegar einn krakkanna réttir henni símann sinn. Nýjustu fréttir! Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur bannað hvalveiðar í sumar. Leiðsögukonan fagnar ógurlega.
Athugasemdir