Árlegur stuðningur við einkarekna fjölmiðla verður aukinn um 400 milljónir króna á næsta ári og verður þá um 777 milljónir króna. Viðbótarframlagið, sem ætlað er „tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði“ mun verða tryggt til fimm ára, eða út árið 2028. Auk þess stendur til að festa gildandi styrkjakerfi í sessi út sama tímabil. Þetta kemur fram í fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem lögð var fram í dag.
Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar verður stendur til að miðla viðbótarfjárhæðinni til fjölmiðla í gegnum skattaívilnun og er aðgerðinni ætlað að hvetja fjölmiðla til að taka upp áskriftarfyrirkomulag. Útfærsla á leiðinni er þó ekki tilgreind í áætluninni.
Vilja festa styrkjakerfið í sessi
Undanfarin ár hefur verið greiddur rekstrarstyrkur til einkarekinna fjölmiðla sem uppfylla ákveðin skilyrði. Í honum felst að hlutfall af ritstjórnarkostnaði þeirra er endurgreiddur. Styrkjakerfið rann út um síðustu áramót en fyrir þingi liggur frumvarp um að lengja það. Áætlað er að 377 milljónir króna verði veittar til einkarekinna fjölmiðla í ár í gegnum það kerfi, en í fyrra skiptust styrkirnir niður yfir tuttugu fjölmiðlafyrirtæki. Þegar við bætast nýju 400 milljónirnar ætti framlagið því að verða um 777 milljónir króna, áður en hófleg aðhaldskrafa lækkar það um nokkrar milljónir króna.
Raunar verða styrkirnir 100 milljónum krónum hærri í ár en þeir áttu að vera. Það er tilkomið vegna þess að fjölmiðlafyrirtækið N4, sem rak ekki fréttastofu en framleiddi ýmis konar efni, óskaði í desember í fyrra eftir því að fá 100 milljón króna styrk úr ríkissjóði. Fjárlaganefnd samþykkti styrkveitinguna en nefndarmenn sögðu síðar að hún ætti að skiptast á fleiri sem framleiða sjónvarpsefni á landsbyggðinni. N4 er eina sjónvarpsstöðin á landsbyggðinni.
Eftir að málið rataði í fjölmiðla var ákveðið að breyta úthluta fjármununum með öðrum hætti. Í nefndaráliti fjárlaganefndar fyrir þriðju umræðu fjárlagafrumvarpsins sagði að í ljósi „umræðu í fjölmiðlum beinir meirihlutinn því til ráðherra að endurskoða þær reglur sem gilda um rekstrarstuðning við einkarekna fjölmiðla á landsbyggðinni þannig að aukið tillit verði tekið til þeirra sem framleiða efni fyrir sjónvarp.“
Ákveðið var að fjárframlagið myndi renna inn í styrkjakerfi fyrir einkarekna fjölmiðla og hækka þá upphæð sem þar verður til úthlutunar úr 377 milljónum króna á næsta ári, í 477 milljónir króna.
Þetta tímabundna 100 milljóna króna framlag fellur niður eftir yfirstandandi ár. N4 óskaði eftir gjaldþrotaskiptum í byrjun árs.
Umfang RÚV á auglýsingamarkaði á að dragast saman
Sá fjölmiðill sem fær hæstu greiðslurnar úr ríkissjóði er Ríkisútvarpið (RÚV). Áætlað er að greiðslur til þess nemi um 5,7 milljörðum króna í ár en auk þess hefur RÚV aflað sér rúmlega tveggja milljarða króna á ári í auglýsingatekjur árlega.
Alls munu fjárframlög til fjölmiðla verða 1,9 milljarði krónum hærri árið 2028 en þau eru nú. Af þeirri upphæð er áætlað að 1,5 milljarðar króna renni til RÚV á því ári, en upphæðin fer stighækkandi ár frá ári sökum þess að útvarpsgjaldið fylgir verðlagsbreytingum. Auk þess er öllum fullorðnum einstaklingum og lögaðilum gert að greiða gjaldið. Þegar fólki og fyrirtækjum fjölgar, þá fjölgar krónunum sem renna til RÚV.
Í fjármáláætluninni er þó boðað að unnið verði að því „að draga úr umsvifum Ríkisútvarpsins á samkeppnismarkaði“, en það þýðir að reynt verður að setja hömlur á getu ríkismiðilsins til að sækja sér auglýsingafé. Engin útfærsla á því markmiði er þó lögð fram í áætluninni, en samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar stendur ekki til að taka RÚV að öllu leyti af auglýsingamarkaði.
Í áætluninni segir að unnið verði að endurnýjun þjónustusamnings Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, við RÚV en hann rennur út í lok þessa árs. „Lögð verður áframhaldandi áhersla á að Ríkisútvarpið muni áfram sem hingað til leitast við að fylgja þróun fjölmiðlunar, m.a. með breyttum áherslum í dagskrá og fjölbreyttara efnisframboði á vef, auk þess að gera eldra efni aðgengilegra en áður.[...] Helstu áskoranir næstu árin eru að viðhalda og efla það traust sem almenningur ber til Ríkisútvarpsins, sbr. árlegar mælingar þar að lútandi. Þá stendur Ríkisútvarpið enn frammi fyrir því að lækka skuldir og halda óbreyttum tekjum til að hægt verði að halda úti sambærilegri dagskrá og verið hefur.“
Heimildin er einn þeirra fjölmiðla sem uppfyllir skilyrði fyrir rekstrarstyrk úr ríkissjóði.
Athugasemdir (1)