„Ég elska að nota kvikun (e. animation) til að tjá stórar tilfinningar. Sögulega hafa teiknimyndir verið barnaefni, en það er sem betur fer mikið að breytast. Í gegnum tíðina hefur verið svo erfitt að gera teiknimyndir, því þarf svo mikla peninga og mannafla til. En nú er fullt af kvikunarlistamönnum sem þurfa ekkert leyfi eða peninga, og eru að gera ótrúlega fallega list heima hjá sér, af því við erum með After Effects og öll þessi kvikunarforrit. Nú er komin ný kvikunarlist sem er mögnuð. Þetta hefur kannski mest verið í litlum hópum á netinu, en þetta er hægt og rólega að brjótast í gegn,“ segir Sara Gunnarsdóttir og bætir við: „Í kvikmyndaheiminum er kvikunin ljóðlistin fyrir mér. Mér finnst skemmtilegast að fjalla um tilfinningar.“
Sara Gunnarsdóttir var tilnefnd fyrir bestu stuttu teiknimyndina, fyrir My Year of Dicks, á Óskarsverðlaununum sem afhent voru síðustu helgi. Hún hlaut ekki styttuna að þessu sinni en ætlar að halda áfram að einbeita sér að því sem hún er góði í: „Mér finnst ógeðslega gaman að geta ljáð táningsstúlkum rödd. Þannig að ég ætla bara að leyfa þessu að koma til mín.“
Athugasemdir