Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 2 árum.

Eldræða Pútíns réttlætir innrás Rússa í Úkraínu - herlið sent af stað

Vla­dímír Pútín Rúss­lands­for­seti ef­að­ist um grund­völl úkraínsks rík­is í sjón­varps­ávarpi til þjóð­ar­inn­ar í kvöld. Pútín hef­ur skip­að rúss­neska hern­um að hefja inn­reið sína í svæði að­skiln­að­ar­sinna í Aust­ur-Úkraínu.

Eldræða Pútíns réttlætir innrás Rússa í Úkraínu - herlið sent af stað
Ávarp Pútíns Vladimir Pútín hefur lengi viðrað harm sinn vegna falls Sovétríkjanna. Í kvöld gekk hann enn lengra, og það með mesta liðsöfnuð hermanna í Evrópu frá seinni heimsstyrjöld nærri landamærum Úkraínu. Mynd: AFP

Vladimir Pútín Rússlandsforseti virðist ætla að fylgja handritinu sem Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur varað við undanfarnar vikur, nú þegar hann heldur eldmessu um ógnina af Úkraínu í sjónvarpsávarpi til rússnesku þjóðarinnar.

Í ræðunni sagðist hann ætla að lýsa yfir viðurkenningu Rússa á sjálfstæði héraðanna Luhansk og Donetsk í Austur-Úkraínu, þar sem uppreisn studd af Rússum hófst fyrir átta árum, og koma á samstarfs- og vinasamningi við svæðin. Um leið efaðist Pútín um réttmæti þess að Úkraína væri sjálfstæð frá Rússum og harmaði það „brjálæði“ að Sovétlýðveldi hafi fengið sjálfstæði án fyrirvara. Þetta gerist á sögulegum skala eftir að Úkraína hefur hallað sér meira í átt að Vesturlöndum og lýst yfir áform um að sækja formlega um aðild að Evrópusambandinu árið 2024.

Uppfært kl. 22.10: Vladimir Pútín hefur fyrirskipað rússnesku herliði að hefja innreið sína í héruðin tvö í þeim tilgangi að hefja „friðargæslu“.

Stærsta herlið frá heimsstyrjöld

Rússar hafa undanfarnar vikur safnað tæplega tvö hundruð þúsund manna herliði nærri landamærum Úkraínu, bæði í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi. Rússnesk yfirvöld hafa samhliða þráfaldlega þverneitað fyrir ásetning um innrás í Úkraínu. Á sama tíma hafa Bandaríkjamenn varað við atburðarás sem nú virðist vera í burðarliðunum, að Rússar myndu framkalla atburðarás sem réttlætti innrás í einhverri mynd.

Ræða Pútíns markar tímamót í alþjóðastjórnmálum. Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, lýsti sjálfstæðisyfirlýsingu Pútíns á héruðum í Úkraínu sem „illum fyrirboða“ og „myrku merki“. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði yfirlýsingu Pútíns um sjálfstæði héraðanna í Austur-Úkraínu vera hrópandi brot á alþjóðalögum, fullveldi Úkraínu og Minsk-samningnum frá 2015.

Volodomyr Zelensky, forseti Úkraínu, ræddi við Joe Biden Bandaríkjaforseta í kvöld og ráðfærði sig við Emmanúel Macron Frakklndsforseta og Olaf Scholz Þýskalandskanslara, ásamt því að kalla saman öryggisráð Úkraínu.

Úkraína sköpuð af Rússum

Pútín sagði í ræðu sinni Úkraínu hafa verið skapaða af Rússum, nánar tiltekið Lenín. Í því samhengi sagði hann að Úkraínumenn sem vildu afvæðingu kommúnisma gætu fengið frá Rússum fulla afvæðingu kommúnisma og afturköllun þess sem kommúnistar gerðu fyrir Úkraínu.

Þá sagði hann að Úkraínu væri nú „stjórnað að utan“, að landið væri „leikbrúða“ Bandaríkjanna. Ræða Pútíns miðaði að því að grafa undan hugmyndinni um réttmæti og lögmæti úkraínsks ríkis og að draga upp mynd af árásum þess ríkis og ógn gagnvart Rússum.

Fyrr í vikunni sagði Pútín að „þjóðarmorð“ væri að eiga sér stað í Úkraínu. Hann endurtók það í kvöld og hneykslaðist á því að Vesturlönd létu sig ekki varða þjóðarmorð 4 milljóna manna. Nú segir hann frekara blóðbað verða á herðum þeirra sem fara með völdin á landsvæðinu Úkraínu. „Hvað varðar þá sem tóku og halda í völdin í Kyiv, við krefjumst þess að þeir hætti strax öllum hernaðaraðgerðum. Ef ekki verður áframhaldandi blóðbað algerlega á þeirra ábyrgð og fullkomlega á samvisku stjórnvalda sem ríkja yfir landsvæðinu Úkraínu.“

Úkraína sé leikbrúða

Hann sagði Vesturlönd nýta Úkraínu sem „tæki til að setja sig upp á móti“ Rússum og að af því stafaði „okkur mjög mikil ógn“.

„Úkraína er orðin nýlenda af leikbrúðum,“ sagði Pútín. „Úkraínumenn sólunduðu ekki bara öllu sem við gáfum þeim í tíð Sovétríkjanna, heldur öllu sem þeir erfðu frá Rússneska keisaradæminu. Jafnvel því sem Katrín mikla skapaði.“ Pútín hélt því fram að Rússland hefði verið „rænt“ þegar Sovétríkin féllu. Þannig hefði Úkraína „aldrei haft hefð fyrir eigin ríki“ og að hún væri reist á því að afneita sögulegu minni milljóna.

„Þetta er brjálæði“
Vladimir Pútín
Rússlandsforseti um skilyrðislaust sjálfstæði fyrrverandi Sovétlýðvelda

Hann sagði Úkraínu „undirbúa hernaðaraðgerði gegn landinu okkar“ og sakaði stjórnvöld þar um að þróa kjarnorkuvopn.

Um leið harmaði Pútín að Rússland hefði misst yfirráðin yfir Sovétlýðeldunum. „Við gáfum þessum lýðveldum rétt á að yfirgefa sambandið án nokkurra skilyrða eða fyrirvara. Þetta er brjálæði,“ sagði hann.

Ætla að sækja um aðild að Evrópusambandinu

Volodomyr ZelenskyGrínistinn sem varð forseti stendur nú frammi fyrir sögulega reiðum Rússlandsforseta sem viðurkennir sjálfstæði héraða í austur Úkraínu en ekki grundvöll úkraínsks ríkis.

Undir forsæti Volodomyrs Zelenskis, leikara og grínista sem hafði leikið forseta Úkraínu í sjónvarpi áður en hann fór í framboð, stefnir Úkraína á að sækja formlega um aðild að Evrópusambandinu árið 2024. Tilraunir til að ganga í ESB hófust þó fyrr, en árið 2014 urðu fjölmenn mótmæli evrópusinna í Kyiv sem leiddu til brotthvarfs Rússlandsvinarins Viktors Yanukovic úr stóli forseta. Síðar birtust vopnaðir menn á lykilstöðum á Krímskaga og í Austur-Úkraínu í tilraun til að taka stjórnina á landsvæðum þar sem Rússar eru fjölmennir. 

Rússar eru einnig fjölmennir í öðrum nágrannaríkjum Rússlands, til dæmis í Eystrasaltsríkjunum, en þau hafa þegar gengið til liðs við Nató.

Viðrar enn til innrásar

Biden Bandaríkjaforseti hefur ítrekað fullyrt að Pútín hafi þegar ákveðið að ráðast inn í Úkraínu. Takmarkaður gluggi er til innrásar áður en hlýrra loft veldur þíðu í jarðvegi og gerir skriðdrekum erfiðara að ferðast yfir landið. Nú þegar hafa verið birtar myndir af leðju í Úkraínu sem gæti hindrað för skriðdreka.

Nýjustu yfirlýsingar bandarískra yfirvalda snúa að því að rússnesk yfirvöld hafi útbúið lista yfir Úkraínumenn sem eigi að myrða eða senda í fangabúðir eftir innrás.

Komi til innrásar hafa Bandaríkjamenn lýst því yfir að þeir sendi ekki herlið til Úkraínu, enda leiði slíkt til heimsstyrjaldar.

Eldræða Pútíns kom beint í kjölfarið á hugmynd Macrons Frakklandsforseta um leiðtogafund Pútíns og Bidens Bandaríkjaforseta fyrr í dag.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Nató, sagði í kvöld að Rússland væri að reyna að búa til aðstæður til þess að ráðast inn í Úkraínu enn á ný. Þá sagði hann að Rússar væru að fjármagna og vopnvæða uppreisnar- eða aðskilnaðarmenn í Austur-Úkraínu, nokkuð sem Pútín hefur þráfaldlega þrætt fyrir.

Pútín „viðurkennir sjálfstæði“Í kvöld undirritaði Pútín yfirlýsingu um að Rússland viðurkenndi sjálfstæði Donetsk og Luhansk, héraða í austurhluta Úkraínu. Aðksilnaðarsinnar hafa fagnað yfirlýsingunni með því að veifa rússneska fánanum.

Nú hefur Pútín hins vegar lagt grunninn að réttmæti aðgerða Rússa í Úkraínu. Yfirlýsing Pútíns er ekki stríðsyfirlýsing en þó nóg til þess að opna dyrnar að frekari aðgerðum, sem í kvöld hófust með yfirlýsingu um að hluti Úkraínu sé ekki lengur hluti Úkraínu og þeirri túlkun að herlið Rússa sé friðargæslulið. Þessi hluti Úkraínu hefur þó verið hliðhollur þeim forsetum sem hafa verið hallir undir Rússa. Ekki þykir ólíklegt að atburðarásin muni fylgja sama ferli og á Krímskaga, þar sem íbúar samþykktu á endanum að ganga inn í Rússland.

Ef úkraínski herinn tekur á móti Rússum er nægt rússneskt herlið fyrir norðan Úkraínu sem getur náð til höfuðborgarinnar Kiyv. Spurningin er um leið hvar friðargæslulið Pútins mun nema staðar.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (3)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
 • Ásgeir Överby skrifaði
  Með svipuðum rökun gætu þjóðverjar endurheimt Kaliningrad.
  1
 • Jónsson Höskuldur skrifaði
  Af hverju var verið að fella veldi sovét rikjana .
  Var það ekki vegna þess að Rúsar voru að gefa skít í sovétið og komónisman .

  En lengi lifir í gölum glaðum og er Pútin og bandaríkja forseti þar fremstir í farar broddi og reina eins og rjuppan við staurinn að koma á stríði milli Rússa og BNA hvð sem það kostar .

  Fengu RÚsar ekki nóg þegar fleri mijón nanns voru drepin í seinni heimstirjöldini.
  Er kanski kominn tími á að faekka Rúsum en frekar ?.hver veit

  Held að þetta kjaftaeði um Úkraníju sem er ett mesta forða búr Efvrópu sé ekki ágrenigur um yfirráð ,heldur um hvernig haga skal áframhaldandi vopna framleiðslu sem nú er í laegð vegn vöntunar á stríði .

  Ef Rúsar og Úkrqaníju menn sem" eru nánast braeður og sistur" eru ornir svona frjalsir af hverju ganga þessar þjóðir ekki bara í Evrópusambandið ,og stiðja hvor aðra eftir bestu getu og gera öllum kleift að lifa í friði og spekt .

  Eiga ekki Rúsar ógrini af gasi sem EVrópuskum þjóðum, ansi margra, vetnar sárlega .

  Og eiga ekki Úkraníju menn ógreini af góðu reaktarlandi sem getur fullnaegt mörgum svöngum manninum.

  Hvað er að þegar ekkert er að .

  Er ekki komin timi á að menn haeti að vera í tindádaleik og fari að slíðra vopnin .

  Ekki faeða vopnin sveltandi mannkyn eða hvað .

  Hvað skyldu Rúsar og BNA annars eiða sameigilega í vopnaframleiðslu og hvað vari hagt að faða margar skepnur og menn fyrir þaer mög þúsund biljónir Evra.? SPÁIÐ Í ÞAÐ GOTT FÓLK OG EKKI TALA UM AÐ EINHVER SÉ AÐ EINFALDA HLUTINA ÞETTA ER NEFNILEGA MJÖG EINFALT ,ENDA ERUM VIÐ BARA MENN AÐ MEIRI
  0
 • Sigurður Þórarinsson skrifaði
  ,,Fjölmenn mótmæli evrópusinna" í Úkraínu árið 2014 segir hr. Jón Trausti. Nei nei, þessi ,,mótmæli" voru nú eitthvað talsvert meira en bara það:

  https://www. counterpunch. org/2022/02/18/war-in-europe-and-the-rise-of-raw-propaganda/

  Svo er engin launung að hr. Zelensky, Úkraínuforseti, ýjaði að þeirri hugmynd á öryggisráðstefnu í Munchen fyrir stuttu að ríkisstjórn hans væri alveg tilbúinn að skoða þróun kjarnorkuvopna:

  http: //oneworld. press/?module=articles&action=view&id=2499

  En auðvitað er hr. Jón Trausti ekkert að nefna þetta sérstaklega í þessum skrifum sínum. Nei nei, enda eflaust alger óþarfi. Það er fyrir lifandis löngu búið að draga þá línu innan ,,siðaðra" vesturvelda að Rússaveldi sé vont og hr. Putin sé ,,Hitler endurborinn." Já já, já já. Nóg um það. Kv
  -1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Úkraínustríðið

Græða sár innrásar í þögn
VettvangurÚkraínustríðið

Græða sár inn­rás­ar í þögn

Í hafn­ar­borg­inni Odesa við strend­ur Svarta­hafs stend­ur Filatov-rann­sókn­ar­stofn­un­in í augn­lækn­ing­um. Vla­dimir Petrovich Filatov nokk­ur, virt­ur pró­fess­or í augn­lækn­ing­um, stóð að stofn­un henn­ar ár­ið 1936 og hún hef­ur síð­an skap­að sér sess sem mið­stöð vís­inda­legr­ar ný­sköp­un­ar og lækn­is­fræði­legr­ar þró­un­ar á sviði augn­lækn­inga í Aust­ur-Evr­ópu. Ósk­ar Hall­gríms­son fékk að líta í heim­sókn og kynna sér hvernig hald­ið er úti þjón­ustu við erf­ið­ar að­stæð­ur.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár