Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 3 árum.

Engin rök fyrir lokun leikskóla vegna Covid

Sótt­varn­arrök hníga ekki að því að leik­skól­um verði lok­að til að tak­ast á við fjórðu bylgju Covid og þá myndi lok­un­in valda mik­illi rösk­un á ým­is kon­ar nauð­syn­legri starf­semi, þar á með­al starf­semi heil­brigð­is­stofn­ana.

Engin rök hníga að því að loka beri leikskólum vegna fjórðu bylgju Covid-19 hér á landi. Upplýsingar frá Norðurlöndum benda ekki til að smithætta hjá börnum á leikskólaaldri sé aukin, þrátt fyrir að hið svokallaða breska afbrigði virðist nú orðið útbreitt í samfélaginu. Talið er ljóst að börn á leikskólaaldri séu mun minna smitandi en þau sem eldri eru og þá myndi lokun leikskóla valda umtalsverðri röskun á ýmis konar starfsemi í samfélaginu, þar á meðal á starfsemi heilbrigðisstofnana.

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag. Átta smit greindust innanlands í gær en harðar sóttvarnaraðgerðir tóku gildi á miðnætti. Enn hefur ekki tekist að rekja uppruna klasasmits sem greindist um síðustu helgi og tuttugu manns hafa nú greinst með Covid-19 sem tengjast því smiti. Þórólfur segir að búast megi við frekari tilfellum næstu daga. Þannig tengjast þau átta smit sem greindust innanlands í gær öll umræddu klasasmiti.

Um er að ræða breska afbrigði veirunnar, sem er mun meira smitandi og veldur alvarlegri veikindum en fyrri afbrigði. Gera má ráð fyrir að mun fleiri sem smitast nú þurfi á sjúkrahúsinnlögn að halda en verið hefur, allt upp í tíu prósent smitaðra. Þá leggst breska afbrigðið einnig í frekara mæli á börn og þau smit sem greind hafa verið síðustu daga eru flest hjá börnum á grunnskólaaldri. Ekki stendur þó til að breyta forgangsröðun bólusetninga og ekki er stefnt að því að bólusetja börn yngri en 16 ára, frekar en verið hefur.

 

   

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár