Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 3 árum.

Nýjasta sviðsmyndin fyrir eldgos gerir ráð fyrir mögulegu hraunflæði yfir Reykjanesbraut

Eld­fjalla­fræði- og nátt­úru­vár­hóp­ur Há­skóla Ís­lands hef­ur upp­fært spálík­an fyr­ir eld­gos á Reykja­nesi vegna breyttr­ar skjálfta­virkni í dag.

Eldfjallafræði- og náttúruvárhópur Háskóla Íslands hefur gefið út nýtt sviðsmyndakort fyrir möguleg eldgos á Reykjanesi í yfirstandandi skjálftahrinu.

Öflugir jarðskjálftar hafa skekið Reykjanesið og höfuðborgarsvæðið síðasta sólarhring, meðal annars 5,2 að stærð klukkan 8 í morgun og 4,9 að stærð klukkan 22.38 í gærkvöldi. Sá stærsti og tveir minni, 4,6 og 4,4 að stærð, ásamt fjölda smærri skjálfta, hafa í dag og í gær verið mældir milli fjallsins Keilis og Fagradalsfjalls. Skjálftamiðjan er því nánast sýnileg frá höfuðborgarsvæðinu, aðeins um þremur kílómetrum handan Keilis. Nýtt spákort fyrir mögulegt eldgos staðsetur hugsanlegar og líklegastar gosstöðvar í kringum það svæði. Ekki eru þó merki um gosóróa.

Sviðsmyndin frá því kvöldÁ myndinni frá eldfjallafræði og náttúruvárhópi Háskóla Íslands eru sýndir líklegir farvegir hraunrennslis ef til eldgoss kemur á þeim svæðum sem nú teljast líklegust. Rauðari litur gefur til kynna aukin líkindi.

Í Facebook-færslu frá hópnum segir að spáin sé mikið breytt eftir að skjálftavirkni færðist til í dag. „Eins og áður látum við gjósa á allra líklegustu svæðunum. Miðað við kortið frá fyrr í dag eru miklar breytingar, eins og við mátti búast út frá spákortinu. Nú er það fyrst og fremst mitt Reykjanesið þar sem líklegast er að hraun flæði um. Eins og áður, því rauðari sem liturinn er því líklegra er að hraun fari þar um á nesinu.“

Eins og sviðsmyndin sýnir er gert ráð fyrir að hraun geti runnið yfir vegstæði Reykjanesbrautarinnar og gæti því mögulega teppt umferð milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Einnig er gert ráð fyrir að Suðurstrandarvegur geti orðið fyrir hraunrennsli í nýjustu sviðsmyndinni. Áður hefur á sögulegum tíma runnið hraun til sjávar úr eldgosi á Reykjanesi, bæði til norður að ströndinni við Faxaflóa og til suðurs.

Líklegustu eldgosasvæðinSamkvæmt uppfærðu líkani er líklegast að möguleg eldgos geti átt sér stað á rauðu svæðunum. Ólíklegri eru gos á gulleitu svæðunum. Byggð í Grindavík sést neðst til vinstri á myndinni en efst til sjást Njarðvík og svo Keflavík.

Fyrr í kvöld birti eldfjallafræði og náttúruvárhópur Háskóla Íslands nýja eldgosaspá. „Eftir hrinurnar í dag breytist eldsuppkomuspáin. Miðað við skjálfta frá hádegi í gær fram til kl. 17 í dag er spáin samkvæmt mynd. Eins og áður eru það innan eldrauðu svæðanna sem líklegast er að eldgos verði. Miðað við fyrri póst okkar hefur orðið mikil breyting á spákortinu. Líklegustu svæðin eru komin að Trölladyngju. Enn og aftur þá er spákortið byggt á undirliggjandi rannsóknum á Reykjanesi að viðbættum þeim atburðum er áttu sér stað í dag.“

Sem fyrr segir hefur ekki verið greint frá neinum gosóróa í tengslum við skjálftahrinuna, sem orsakast af sniðgengum flekahreyfingum Ameríkufleka til vesturs og Evrasíufleka til austurs. Meðal þeirra sem hafa varað við því að skjálftavirknin og fyrra landris kunni að vera fyrirboði eldgoss eru Ari Trausti Guðmundsson, jarðfræðingur og þingmaður. Ómögulegt er að segja til um líkindi á jarðhræringum vegna eða samhliða skjálftahrinunnar, enda engin fordæmi fyrir eldgosum á Reykjanesi síðustu 780 árin. Þó hefur verið bent á að eldgosahrinur eigi sér stað á svæðinu á 800 til 1.000 ára fresti og því teljist þau tímabær á jarðsögulegum tímaskala. Svo lengi sem eldgos á sér stað á þurru landi er líklegt að gjóskufall verði takmarkað.

Hættustig almannavarna er í gildi á Reykjanesi og á höfuðborgarsvæðinu vegna skjálftahrinunnar. Fólk er beðið að tryggja að lausir munir geti ekki fallið og orðið til líkamstjóns og að forðast hlíðar þar sem grjóthrun getur orðið.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Eldgos við Fagradalsfjall

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár