Joe Biden er nú formlega orðinn forseti Bandaríkjanna eftir innsetningarathöfn þar sem stjörnur eins og Lady Gaga og Jennifer Lopez sungu bandarísk ættjarðarlög.
Donald Trump, nú fyrrverandi forseti, er kominn til Flórída. Hann er fyrsti Bandaríkjaforsetinn í 150 ár til þess að neita að vera viðstaddur innsetningu eftirmanns síns. Mike Pence varaforseti var hins vegar viðstaddur.
Um leið er Kamala Harris fyrsti kvenkyns varaforseti Bandaríkjanna.
„Þetta er dagur Bandaríkjanna. Þetta er dagur lýðræðisins. Dagur sögu og vonar,“ sagði Biden við innsetninguna. Hann sagði þetta ekki dagur frambjóðandans, heldur lýðræðisins. „Við höfum lært aftur að lýðræðið er dýrmætt.“
„Ég mun berjast jafnötullega fyrir þau sem kusu mig ekki eins og þau sem kusu mig.“
Biden fjallaði um loftslagsvandann í ræðu sinni og sagði plánetuna gráta á hjálp. Hann boðaði sáttastjórnmál og samheldni og varaði við öfgahyggju. „Stjórnmál þurfa ekki að vera logandi eldur sem eyðir öllu sem á veginum verður,“ sagði hann. „Ég heiti ykkur þessu, að ég verð forseti allra Bandaríkjamanna. Ég mun berjast jafnötullega fyrir þau sem kusu mig ekki eins og þau sem kusu mig.“
Innsetningarræða Bidens var uppgjör við Trumptímann, sem hann lét þó ónefndan.
„Ég mun verja lýðræðið. Ég mun verja stjórnarskrána. Ég mun vernda Bandaríkin,“ sagði hann. „Saman munum við skrifa nýja bandaríska sögu. Um von, en ekki ótta. Um samheldni, en ekki sundgrung. Sögu af ljósi, en ekki myrkri. Sögu af velsæmi og virðingu. Ást og heilun. Mikilfengleika og góðmennsku. Megi þetta verða sagan sem sem leiðir okkur, sagan sem gefur okkur innblástur og segir komandi kynslóðum að við svöruðum kalli sögunnar, að við mættum augnablikinu, að lýðræðið, vonin og sannleikurinn dóu ekki á okkar vakt.“

Þótt Donald Trump sé ekki lengur forseti gætir áhrifa hans enn. Hann hefur skipað fjölda embættismanna og fært til í starfi og skipaði þrjá dómara í Hæstarétt.
Joe Biden hefur hins vegar þegar tekið til við að snúa mörgum ákvörðunum Trumps. Á fyrstu klukkustundum forsetatíðar sinnar mun hann undirrita 17 forsetatilskipanir, valdaúrræði sem Trump hefur beitt í mun meira mæli en forverar hans.
Biden hefur hætt við úrgöngu Bandaríkjanna úr Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) og ákveðið að Anthony Fauci verði formaður sendinefndar Bandaríkjanna þar.
Biden hefur einnig ákveðið að Bandaríkin verði aðilar að Parísarsamkomulaginu um baráttu gegn loftslagsmálum, sem tekur þó 30 daga að framfylgja. Hann snýr að auki um 100 ákvörðunum Trumps í umhverfismálum.
Ferðabanni gegn íbúum sjö múslimaríkja verður afétt og hætt verður að beina fjármagni neyðarsjóða til uppbyggingar á vegg við landamærin að Mexíkó.
Fyrir utan þessar ákvarðanir hefur Biden skipulagt næstu vikur með þemadögum. Á mánudag í næstu viku verður þemað „kaupum amerískt“, þar sem auknar kröfur verða gerðar til ríkisstofnana um að kaupa bandarískar vörur. Á þriðjudag verður hafin barátta til að útrýma einkareknum fangelsum, á miðvikudag verður loftslagsváin á dagskrá með endurreisn ráðgjafaráðs um vísindi og tækni og á fimmtudag verða heilbrigðismál í brennidepli og þar á meðal aðstoð við þungunarrof. Loks verður á föstudag í næstu viku hafin breyting á meðhöndlun innflytjendamála, meðal annars stofnun starfshóps um sameiningu fjölskyldna sem hafa verið aðskildar af bandarískum yfirvöldum í valdatíð Trumps.



Athugasemdir