„Þegar stórir atburðir gerast, þá setur þú sjálfan þig til hliðar og ræðst í verkefnið og tekst á við það. Ég held að langflestir fréttamenn fari ekki í lost og geri ekki neitt. Þeir setji bara augnblöðkur á sig til að útiloka allt annað en verkefnið sem þeir eru að fást við, horfa ekki á atburðina sem þátttakendur heldur sem skoðendur, sem standa fyrir utan atburðina og reyna að gera þeim skil. Þetta eru viðbrögðin þegar voveiflegir atburðir hafa dunið yfir, eins og snjóflóðin fyrir vestan. Þó að ég færi ekki sjálfur vestur, ég var þá fréttastjóri, þá útilokuðum við í rauninni þá skelfingu sem var að gerast frá vinnunni, við reyndum að vinna þau störf eins og þurfti. Ég játa það hins vegar að eitt það allra, allra erfiðasta verkefni sem ég hef þurft að takast á við í sjónvarpi í beinni útsendingu var að lesa upp nöfn þeirra sem dóu í snjóflóðinu á Flateyri. Ég man það enn þann dag í dag.“
Boga Ágústsson þekkja væntanlega flestallir Íslendingar sem komnir eru til vits og ára, og jafnvel einnig þeir sem yngri eru. Hann hefur enda verið gestur í stofum landsmanna allt frá árinu 1977 þegar hann hóf fyrst störf hjá Ríkisútvarpinu, á erlendri deild fréttastofu sjónvarps. Á þeim rúmu fjörutíu árum sem síðan eru liðin hefur Bogi flutt Íslendingum fréttir af heimssögulegum viðburðum, stundum á staðnum sjálfur, fréttir af hamförum og mannskaða, kreppum og aflabresti, en líka af gleðilegum atburðum, góðum árangri Íslendinga og björtum dögum.
„Það er ekki frétt þegar að 90 þúsund farþegaflugvélar taka á loft og lenda á hverjum degi“
Og vissulega eru jákvæðu og gleðilegu fréttirnar orðnar margar þótt Bogi segi að hinar, sem erfiðari hafi verið og skelfilegri, sitji kannski meira eftir í minninu. „Fréttir í eðli sínu eru þegar hlutirnir ganga ekki sinn vanagang. Það er ekki frétt þegar að 90 þúsund farþegaflugvélar taka á loft og lenda á hverjum degi, en þegar að flug leggst af eða flugvél hlekkist á, þá er það frétt. Það er til dæmis engin frétt að það sé sett upp leikrit í leikhúsi en það er frétt ef leikhúsið brennur, að vísu væri frétt núna á Covid-tímum ef það væri sett upp leikrit í leikhúsi.“
Bogi segir það hins vegar kolrangt, sem sumir halda fram og gagnrýna fjölmiðla fyrir, að fréttir séu að yfirgnæfandi hluta neikvæðar. Það sýni vanskilning á fjölmiðlum og fréttamennsku að halda slíku fram. „Ef þú tekur bara upp blað, hlustar á útvarpsfréttatíma eða horfir á sjónvarpsfréttir, þá sérðu að stór hluti fréttanna er alls ekki neikvæður. Það er verið að segja frá jákvæðum atburðum sem eru að gerast, það er verið að segja frá því að það sé verið að opna sundlaug einhvers staðar úti á landi eða að Kvennakór Suðurlands sé að fara um og syngja á hverri einbreiðri brú á svæðinu. Það er flutt mjög mikið af jákvæðum fréttum og raunar er reglan að það sé sagt frá því ef nýtt íslenskt leikverk er sett upp til að mynda.“
Var tíu sumur á sjó
Bogi rekur langfeðratal sitt til Vesturbæjar Reykjavíkur, einn forfaðir hans var fæddur í byrjun nítjándu aldar í Þerney og síðan hefur sú ætt búið mann fram af manni í Vesturbænum. Þar býr hann sjálfur í dag eftir útlegð á Seltjarnarnesi um skeið, eins og hann orðar það sjálfur. Þekkt er að Bogi er mikill KR-ingur, þannig hefur hann til að mynda sinnt sjálfboðaliðastarfi í KR-útvarpinu frá upphafi ársins 1999 og varla að efa að fjölmiðlareynsla hans hefur orðið þeim sem það reka að miklu gagni. „Ég spilaði fótbolta með KR þar til ég varð fimmtán ára en þá fór ég á sjóinn. Það er erfitt að spila fótbolta úti á sjó og það var enginn fótbolti á veturna þegar ég var í landi. Ég gat ekkert í körfubolta svo ég hætti í raun að æfa þarna.“
Spurður hvort hann hafi verið hæfileikaríkur knattspyrnumaður vill Bogi lítið kannast við það. „Við skulum segja að ég hafi verið liðtækur b-liðs maður. Ef ég hefði haldið áfram að spila hefði ég kannski átt einn eða tvo leiki með meistaraflokki þar sem ég hefði fengið að koma inn á. Mínir jafnaldrar og þeir sem spiluðu í KR þegar ég var ungur maður, þeir gátu ekki rassgat. KR urðu Íslandsmeistarar 1968, þegar ég er 16 ára, og svo ekki fyrr en undir aldamót. Þetta var eyðimerkurganga og KR-ingar ekkert sérstakir í fótbolta á þessum árum. En það breytir ekki því að trúnaðurinn við liðið er algjör.“
Sem fyrr segir stundaði Bogi sjóinn á sumrin en Ágúst, faðir hans, var stýrimaður og seinna skipstjóri hjá Eimskipi þar sem Bogi réði sig til starfa eftir landspróf. Hann var tíu sumur á sjó, öll sumur á meðan hann gekk í Menntaskólann í Reykjavík og einnig á háskólaárunum þar sem Bogi stundaði nám í sagnfræði og íslensku. „Ég kláraði ekki námið, ég átti eftir að skrifa BA-ritgerð þegar ég var ráðinn inn til sjónvarpsins. Hún er óskrifuð enn þá.“
Vökustaur í sjónvarpið
Spurður hvernig það hafi atvikast að hann var ráðinn til Ríkisútvarpsins segir Bogi að góður kunningi sinn úr háskólapólitíkinni hafi bent honum á að laust væri starf í erlendum fréttum þar. Hann hefði sótt um starfið og sér til mikillar furðu fengið. „Það þurfti að fá stuðning meirihluta útvarpsráðs á þessum tíma, og hann fékk ég. Það var í raun pólitískt ráðningarferli, að því leytinu til að ég var í Vöku í Háskólanum, ég var hægriblók, Vökustaur eins og við vorum kölluð. Ég hugsa að það hafi sannfært meirihluta útvarpsráðs um að það væri enginn sérstakur róttæklingur þarna á ferðinni og væri þokkalega treystandi fyrir skrifum um erlend málefni. Svo eins og fréttamenn eiga að gera þá hætti ég allri virkri þátttöku í pólitík og hef ekki komið nálægt flokkspólitík síðan. Mér finnst ekki við hæfi að frétta- og blaðamenn séu virkir þátttakendur í stjórnmálum. Þeir eiga að reyna að vera eins hlutlægir og hlutlausir og þeir mögulega geta verið.“
Bogi segist telja að honum hafi tekist vel upp við að halda skoðunum sínum og lífssýn frá starfi sínu sem fréttamaður og hafi sýnt hlutlægni í störfum. „Auðvitað getur enginn verið dómari í eigin sök en ég hef alla vega ekki fengið nein stór umkvörtunarefni um að ég hafi verið að taka afstöðu. Við vorum tveir saman í nokkur ár á erlendri deild fréttastofu sjónvarpsins, Ögmundur Jónasson og ég, og við urðum mjög góðir vinir. Á þessum árum var mjög mikið álag, við vorum með Kastljós aðra hvora viku líka, og það kom fyrir að Ögmundur, í miklum hasar í húsbyggingu sinni, þurfti að biðja mig um að hlaupa í skarðið fyrir sig, og öfugt. Ég man eftir að Ögmundur var einhvern tíma skammaður alveg rosalega fyrir einhvern texta sem ég hafði skrifað. Þá var það bara vegna þess að fólk var búið að gefa sér fyrirfram að fréttamaðurinn hefði einhverja afstöðu. Mér finnst þetta skýrt dæmi um að fólk getur búið sér til einhverja niðurstöðu sem á ekki við nokkur rök að styðjast. Ég held að þetta séu nokkur meðmæli með okkur báðum.“
Þekkti alla í flugvélinni eftir Palme-morðið
Á þessum árum var fréttamönnum sem fluttu erlendar fréttir sniðinn talsvert þrengri stakkur en nú er, þegar kom að því að flytja fréttir. Bogi segir að erlenda fréttadeildin hafi verið mjög háð öðrum heimildum og hafi að mestu þurft að taka því sem að þeim var rétt frá Reuters-fréttastofunni og örfáum öðrum fréttastofum úti í heimi. Þetta hafi hins vegar breyst þegar hann var ráðinn fyrsti fastráðni erlendi fréttamaður Ríkisútvarpsins á Norðurlöndum, með aðsetur í Kaupmannahöfn.
„Þangað flutti ég með fjölskylduna árið 1984 til að sinna því starfi. Við höfðum enga eða litla möguleika til að fylgjast með því sem var að gerast á Norðurlöndunum án þess að hafa mann þar staðsettan. Blöð komu dags eða tveggja daga gömul til landsins, við gátum ekki heyrt útvarp, við vorum ekki með fréttastofulínu nema mjög stopula frá norsku fréttastofunni NTB. Ef við vildum flytja einhverjar fréttir af því sem var að gerast á Norðurlöndunum, og það vildum við, þá var eini möguleikinn sá að hafa mann staðsettan þar. Það hefði getað verið allsherjarverkfall í hálfan mánuð í Danmörku án þess að við hefðum vitað af því vegna þess að við vorum svo háðir Rauters og AP. Fyrir okkur skipta Norðurlönd dálítið miklu máli en fyrir enskum og amerískum fréttastofum eru þau bara einhver afgangsstærð sem skiptir engu máli.“
„Þetta var mikið sjokk, ekki bara fyrir Svía heldur fyrir alla Norðurlandabúa, held ég“
Bogi sinnti störfum í Danmörku og á Norðurlöndunum á árunum 1984 til 1986. Hann var því starfandi þar þegar sænski forsætisráðherrann Olof Palme var myrtur og flaug þegar til Stokkhólms morguninn eftir, 1. mars 1986. „Það er held ég eina skiptið sem ég hef farið í flugvél þar sem ég þekkti nánast alla farþegana, meira og minna allt blaðamenn sem höfðu aðsetur í Kaupmannahöfn.“
Morðið á Palme er eitt af stóru fréttamálunum sem Bogi minnist sérstaklega af starfsævi sinni, bæði vegna atburðarins sjálfs og svo eftirleiksins. „Þetta var mikið sjokk, ekki bara fyrir Svía heldur fyrir alla Norðurlandabúa, held ég, að forsætisráðherrann skyldi myrtur á götu úti þegar hann var að koma úr bíó, fyrir framan konuna sína. Og auðvitað hefur ekki enn tekist að upplýsa þennan glæp, allavega sýnist sitt hverjum varðandi niðurstöðuna.“
Við komuna til Stokkhólms útvegaði sænska sjónvarpið Boga tökumann og þeir héldu strax út á götu til að fjalla um morðið á Palme. „Við tókum viðtöl við almenning og við Benedikt Gröndal heitinn, sem þá var sendiherra Íslands í Svíþjóð. Við gerðum síðan heillanga frétt, ætli hún sé ekki tuttugu mínútur eða svo, og sendum heim um gervitungl. Það var á þeim tíma fáheyrður lúxus, kostaði dobíu, og ekki boðið upp á slíkt nema í einhverjum algjörum undantekningartilvikum. Sú ágæta frétt var raunar gerð aðgengileg á netinu þegar þess var minnst að þrjátíu ár voru liðin frá morðinu á Palme.“
Afturför að leggja niður stöðu fréttamanns á Norðurlöndum
Sem fyrr segir var Bogi fyrsti fastráðni fréttamaður Ríkisútvarpsins með aðsetur á Norðurlöndunum. Þeirri stöðu var haldið úti í rúman áratug áður en hún var lögð niður enda allar forsendur þá breyttar, netið komið til sögunnar og hægt að horfa á norrænt sjónvarp hér á Íslandi. Engu að síður segir Bogi að það hafi verið afturför að leggja niður stöðuna. „Auðvitað var það. Maður sem er á staðnum hefur alltaf miklu betri forsendur til þess að flytja fréttir af því sem er að gerast í hans nærumhverfi heldur en einhver sem er háður öðrum miðlum og frásögn þeirra. Við sjáum til dæmis hvað okkur finnst mikill fengur að því að fá öðru hvoru fréttir frá Jóni Björgvinssyni þegar hann er að ferðast um, hvort sem það er í Sýrlandi eða á flóttamannasvæðum í Grikklandi, í Afríku, hvar sem hann er. Það er allt annað að sjá þetta með augum Íslendings sem er á staðnum heldur en að sjá þetta annars staðar frá, jafnvel með augum Norðurlandabúa. En erlendar fréttir eru dýrar, það er dýrt að hafa fólk í útlöndum og þegar hægt er að leysa verkefnið á ódýrari hátt þá er skiljanlegt að það sé gert. Þessi staða var nú lögð niður á þeim tíma þegar ég var sjálfur fréttastjóri svo ég verð að taka einhverja ábyrgð á því. Þegar að bjargir eru takmarkaðar þá verða menn auðvitað að nýta krónurnar á þann hátt sem best þjónar rekstri fjölmiðilsins.“
Breytingunum sem orðið hafa á blaða- og fréttamennsku frá því Bogi hóf störf í faginu hafa því orðið miklar, raunar segir hann þær ævintýralegar. „Stóra breytingin er tilkoma netsins en líka sú að allur almenningur gengur um með fréttamyndavél á sér. Nú til dags eru það fáir myndrænir atburðir sem gerast í þéttbýli sem ekki eru festir á mynd. Skýrasta dæmið er þegar Valhöll á Þingvöllum brann árið 2009. Ef sá atburður hefði gerst tíu árum fyrr hefðu ekki verið til neinar myndir af húsinu að brenna. Fréttastofurnar hefðu heyrt af þessu, Stöð 2 og við hefðum henst upp í bíla, það tekur minnst 25 mínútur að keyra á Þingvelli og þegar að myndatökumenn hefðu verið komnir þá hefði allt verið brunnið. En þegar atburðurinn verður þá er fullt af fólki á svæðinu sem er með sínar fréttamyndatökuvélar í símunum. Almenningur er orðinn hluti af fréttaöflunarkerfinu, það eru breytingarnar. Fólk er líka orðið miklu duglegra að hafa samband við fjölmiðla, það er líka orðið miklu auðveldara en það var. Einangrunin sem ríkti á Íslandi hvað varðaði upplýsingar frá umheiminum, hún var þannig að það er mjög erfitt að gera sér það í hugarlund fyrir fólk sem ekki upplifði það. Myndir sem sjónvarpið fékk erlendis frá voru minnst tveggja daga gamlar. Það var sjónvarp sex daga í viku, og ekki á sumrin. Það var ein sjónvarpsstöð og ein útvarpsstöð. Dagblöðin voru meira og minna flokksblöð. Þannig að breytingarnar eru byltingarkenndar.“
Óheillaþróun í rekstri fjölmiðla
Þrátt fyrir þessar miklu breytingar sem hafa breytt fjölmiðlun og fréttamennsku á dramatískan hátt segir Bogi þó að miklir annmarkar séu á fjölmiðlaumhverfi á Íslandi í dag. „Netið er bæði blessun og bölvun. Illu heilli hefur netið, og þetta mikla flæði upplýsinga, sérstaklega í svona litlu samfélagi eins og Ísland er, orðið til þess að það er mjög erfitt að reka fjölmiðla. Ég bý við þann takmarkalausa lúxus að vinna hjá Ríkisútvarpinu sem er nokkurn veginn tryggt með sínar tekjur en við erum eini fjölmiðillinn sem býr við svona lúxus. Allir fjölmiðlar landsins berjast í bökkum, jafnvel Morgunblaðið, sem nýtur duglegra styrkja frá eigendum sínum.
Þetta er hættuleg þróun, vegna þess að sjálfstæð fjölmiðlun er nauðsynleg hverju þjóðfélagi. Það hefur stundum verið talað um fjórða valdið, ég vil nú ekki gera of mikið úr hlutverki blaða- og fréttamanna, en þeir hafa hlutverki að gegna. Það skiptir máli að það sé einhver sem getur bent á það sem aflaga fer í samfélaginu og það skiptir máli að það séu einhverjar stofnanir, í þessu tilfelli fjölmiðlar, sem fólk getur snúið sér til. Að því leyti má líkja hlutverki okkar við umboðsmann Alþingis. Við erum ekki dómstóll og við höfum þannig séð ekki neinar formlegar skyldur í samfélaginu, en við höfum samt þessa skyldu við samfélagið, að við eigum að þjóna því og við eigum að þjóna því til gagns.“
„Stjórnmálamenn hafa verið duglegri við að samþykkja styrki til stjórnmálaflokka heldur en til fjölmiðla“
Boga sýnist að halli á ógæfuhliðina í þessum efnum, vel hæft fólk flýi fjölmiðla og þeir sem með völdin fari virðist ekki gera sér grein fyrir í hversu mikið óefni stefni. „Þetta hefur verið óheillaþróun undanfarin ár og það verður að segjast eins og er að íslenskir stjórnmálamenn, þeir hafa ekki valdið því hlutverki sem þeir eiga að valda hvað þetta varðar. Stjórnmálamenn hafa verið duglegri við að samþykkja styrki til stjórnmálaflokka heldur en til fjölmiðla, þrátt fyrir hið mikilvæga lýðræðislega hlutverk sem fjölmiðlar gegna. Nú hef ég ekkert á móti því að stjórnmálaflokkar, eins og önnur öfl sem vinna í hinu lýðræðislega kerfi, séu styrktir en það er mun auðveldara að koma því í gegnum þingið heldur en að koma á einhverju skipulagi þar sem fjölmiðlar, aðrir en Ríkisútvarpið, geta þrifist almennilega. Ég bendi mönnum á að líta til Norðurlandanna, þar sem menn viðurkenna mikilvægi fjölmiðla í verki, með styrkjum til dagblaða til dæmis. Þetta verðum við að viðurkenna líka því þetta litla samfélag sem við erum, við megum ekki við því að neinn fjölmiðill gefi upp öndina. Alltof margir hafa gert það nú þegar og alltof margir eru að berjast í þessu af vanefnum.
Fólk sem vinnur á fjölmiðlum er undantekningarlítið vel hæft til verka, bæði hvað varðar tungumálið og hvernig það vinnur. Álagið gerir það hins vegar að verkum að það er alltof lítill tími til að sérhæfa sig eða sökkva sér ofan í eitthvað, sem er þó algjörlega nauðsynlegt. Fjölmiðlar á Íslandi geta ekki sinnt því eftirlitshlutverki sem þeir eiga að sinna eins vel og þeir gætu gert. Ég skil til dæmis eiginlega ekkert í því að þú hafir þennan tíma til að sitja með mér hérna.“
Blæs á alla vitleysu um að heimurinn sé að fara til helvítis
Bogi vill þó alls ekki taka undir með þeim sem halda á lofti heimsósómastefum um að öllu fari aftur og allt hafi verið betra hér áður. „Þú heyrir því stundum haldið fram að blaðamenn hafi skrifað miklu betri texta hér áður. Þetta er bölvað bull. Ég held því fram að blaðamenn núna séu miklu betur menntaðir og upplýstari heldur en þeir voru áður. Þegar ég var að fara yfir umsóknir um störf á fréttastofu sjónvarpsins, og síðar fréttastofu útvarpsins þegar ég var forstöðumaður yfir þeim báðum, voru tugir vel hæfra umsækjenda, sem sumir höfðu reynslu og miklu meiri menntun heldur en ég. Ég grínaðist stundum með það, og grínast enn, að hefði mín eigin umsókn verið í þessum hópi hefði mér ekki dottið hug að taka sjálfan mig í viðtal.
„Hefði mín eigin umsókn verið í þessum hópi hefði mér ekki dottið hug að taka sjálfan mig í viðtal“
Það gildir í raun um samfélagið í heild sinni. Við búum í miklu, miklu betra samfélagi núna heldur en fyrir hálfri öld. Það er svo ótal margt sem hefur breyst til batnaðar, og raunar í heiminum líka. Auðvitað horfum við fram á gríðarleg vandamál, sérstaklega hvað varðar loftslagsbreytingar, en að svo mörgu leyti er heimurinn svo miklu betri en hann var. Ég bendi fólki á að kíkja á bók Hans Rosling heitins, sænska læknisins sem rýndi í tölfræðina og sá út úr henni það sem aðrir sáu kannski ekki. Hann benti á hvað það eru miklu færri sem deyja úr malaríu, það hefur tekist að útrýma sjúkdómum, til dæmis bara núna fyrir skömmu var tilkynnt að lömunarveiki hefði verið útrýmt nema í tveimur löndum. Það tekur innan við ár að þróa bóluefni gegn þessari skelfilegu kórónaveiru sem hefur herjað á heiminn.
Svo segja menn að heimurinn fari versnandi. Ég er algjörlega ósammála. Ég sé það bara á kynslóð barnanna minna. Hún er betur upplýst. Samskipti kynjanna eru miklu heilbrigðari og eðlilegri en þau voru í minni kynslóð, þó ég sé ekki að útmála okkur sem einhverja aumingja. Samfélagið, og þjóðfélagið, hefur batnað að langmestu leyti, en ekki að öllu leyti. Það er ekki fullkomið, langt því frá, hvorki okkar samfélag né heimurinn allur. En við erum hins vegar svo heppin að við tilheyrum ríkustu sjö, átta prósentum heimsins. Við búum við kjör sem forfeður okkar og formæður, ef við förum svona hundrað ár aftur í tímann, hefðu ekki getað látið sig dreyma um, aldrei ímyndað sér þær framfarir sem hafa orðið. Svo ég blæs á alla vitleysu um að heimurinn sé að fara til helvítis.“
Pantaði Hercules-vél frá norska flughernum
Áður hefur verið minnst á morðið á Olof Palme hér að framan sem eitt stærsta fréttamál sem Bogi hefur sinnt. Þau eru hins vegar töluvert fleiri, stóru málin sem hann hefur fjallað um á rúmum fjörutíu árum í fréttamennsku. Bogi var þannig starfandi úti í Kaupmannahöfn þegar kjarnorkuslysið í Tjernobyl varð 26. apríl 1986. „Það var vitað frá upphafi að það væru einhverjir skelfilegir hlutir að gerast þarna. Það var fylgst mjög vel með mögulegri geislun frá Sovétríkjunum til Norðurlandanna. Auðvitað var mönnum ekki ljóst umfang slyssins á þeim tíma en það var ljóst að þarna var eitthvað hrikalegt á ferðinni. Ég skrifaði um þetta slys talsvert, enda í ágætri aðstöðu til þess, en það hefur áreiðanlega verið gert hér heima líka því á þessum tíma vorum við komin með gervihnattasamband og farin að fá daglega fréttapakka. Það var hins vegar fjandi dýrt, ég held að við höfum upphaflega fengið tíu mínútna fréttapakka, valinn, frá breskri fréttastofu.“
Hver stórviðburðurinn rak annan á árinu 1986 því í október það ár var leiðtogafundur þeirra Reagans og Gorbatsjovs haldinn í Höfða í Reykjavík. Bogi fjallaði þó ekki um hann heldur fékk hann annað hlutverk. „Ég var kallaður heim til Íslands vegna þess að ég hafði meiri reynslu af samskiptum við erlendar sjónvarpsstöðvar en flestir á fréttastofunni og þekkti kannski fleiri skammstafanir en hinir, ég vissi til dæmis hvað RAI [ítalska ríkissjónvarpið] stóð fyrir. Þannig að ég var fenginn til landsins, ekki í fréttamennsku heldur í skipulagninguna. Það voru svo fáar leiðir út úr landinu á þessum tíma, til dæmis gervihnattasendingar, og þetta þurfti að skipuleggja allt, til að allir gætu komið sínu efni frá sér.
Þetta var það langstærsta sem sjónvarpið hafði tekist á hendur til þessa. Maður vann baki brotnu við þetta og fann þá hvað aðstöðumunurinn var, og kannski er enn þá, fáránlegur milli okkar og stóru fréttastofanna. Einn daginn, þegar ég var enn þá úti í Kaupmannahöfn, sparaði ég Ríkisútvarpinu danskan fimmhundruðkall með því að fara í lest frá Kaupmannahöfn til Bremerhaven í staðinn fyrir að taka flug til Hamborgar og taka lest þaðan. Nokkrum dögum seinna var ég kominn til Íslands og að panta Hercules-vél frá norska hernum vegna leiðtogafundarins. Þetta var svo fáránlegt.“
„Svo þegar einhver hringdi seinnipart dags og sagði: Hekla er byrjuð að gjósa, þá var símanum nánast skellt á og sagt: Ekki reyna þetta!“
Margt er eftirminnilegt af löngum ferli og nefnir Bogi til að mynda einn dag sem er honum ofarlega í minni, 17. janúar 1991. „Þá hófst fyrra Persaflóastríðið. Sama dag dó Ólafur V. Noregskonungur, sem var umtalsvert mál hjá okkur. Hann hafði oft komið til Íslands og hafði mikil tengsl hingað, auk þess sem dauði norræns þjóðhöfðingja er náttúrlega stóratburður hér og hefði verið fyrsta frétt undir öllum venjulegum kringumstæðum. Svo þegar einhver hringdi seinnipart dags og sagði: Hekla er byrjuð að gjósa, þá var símanum nánast skellt á og sagt: Ekki reyna þetta!
Svona dagar líða seint úr minni en það er langmest gaman á fréttastofunni þegar allt er á suðupunkti og brjálað að gera. Að reyna að ná yfirsýninni, að skipuleggja hvernig á að dekka hlutina og taka þátt í því. Það er gaman þegar hlutirnir ganga upp og tekst að koma upplýsingum á framfæri, það er starfsánægja í því. Það sem er líka gaman við að vera í þessu fagi er að oftast ertu að ganga að nýjum degi sem nýjum degi. Verkefni gærdagsins eru búin, fréttin er skrifuð, blaðið er komið út og borðið er hreint. Þetta er ekki dósaverksmiðja, þetta er ekki Chaplin í Nútímanum.“
Ekki mikill spámaður
Sumar fréttir er erfiðara að flytja en aðrar, líkt og Bogi lýsir í upphafi viðtalsins um snjóflóðin á Súðavík og Flateyri árið 1995. Hann segir að allar fréttir af atburðum þar sem manntjón hefur orðið séu sérstaklega erfiðar að flytja. Fyrir hann sjálfan á það ekki síst við um sjóslys. „Sem betur fer eru sjóslys þar sem mannskaði verður orðin mjög fátíð á Íslandi, en þau hafa orðið og þau taka alltaf á, sérstaklega vegna þess að ég var sjálfur það lengi á sjó. Ég upplifði sjálfur, í eina skiptið sem ég var á sjó um vetrartíma, að vera mjög nálægt skipi sem fórst með ellefu manns. Veðrið var svo vont að við gátum ekki tekið þátt í leit eða björgun, veðrið var svo brjálað. Þarna varð ég óbeint vitni af skelfilegum atburði. Sjóslys og fréttir af þeim hafa alltaf lagst mjög þungt á mig.
En ég hef nú meira gaman af því að hugsa um hluti eða fréttir sem eru jákvæðir og gleðilegir. Eitt sem ég hef líka haft gaman af er þegar fólk hefur beðið mig um að spá einhverju, um þróun mála eða slíkt. Þá svara ég því til að ég sé svo góður spámaður að þegar Berlínarmúrinn varð 25 ára 1986 stóð ég með míkrafón fyrir framan hann og sagði: Hér hefur hann staðið, þessi múr sem hefur aðskilið austur og vestur, í aldarfjórðung og það er ekkert sem bendir til annars en að hann verði hér áfram eftir önnur 25 ár. Ég spái því engu síðan.“
„Það þarf að segja frá því ekki bara þegar sjóslys verða heldur líka þegar við eignumst alheimsfegurðardrottningu“
Fréttir eru alls konar, þungar og erfiðar en líka skrýtnar og skemmtilegar. Það skrýtnasta sem kemur upp í huga Boga er þegar segja átti frétt af því að Linda Pétursdóttir hefði verið kjörin ungfrú heimur í London árið 1988. „Þá þurfti ég að reyna að sannfæra yfirmann CBS-fréttastofunnar amerísku í London, unga konu sem tiltölulega nýlega var tekin við, um að ég væri ekki að fíflast í henni þegar ég var að biðja um tökumann til að fara og mynda Lindu. Konan var algjörlega sannfærð um að það væri einhver á skrifstofunni hjá sér sem væri að fíflast í henni, henni fannst þetta svo „outlandish“, að það væri hringt frá Íslandi til þess að fá lánaðan tökumann til að taka mynd af átján ára gamalli íslenskri fegurðardrottningu. Mér tókst þó að sannfæra hana um að það væri ekki verið að fíflast í henni. Fréttir eru fréttir, það þarf að segja frá því ekki bara þegar sjóslys verða heldur líka þegar við eignumst alheimsfegurðardrottningu.“
Ekki farinn að leiða hugann að starfslokum
Bogi hefur ekki látið við það sitja að birtast Íslendingum á sjónvarpsskjánum og lesa upp fréttir heldur varð hann að sjónvarpsstjörnu í þáttunum Ráðherrann sem sýndur var fyrr á þessu ári á RÚV. Þar þóttu hann og Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðisprófessor fara á kostum í kosningasjónvarpi í þáttunum, eins og þeir raunar gera gjarnan í raun og veru. Bogi segist ekki hafa átt von á því að verða stjarna í leiknu sjónvarpsefni. „Nei, ekki sérstaklega. Ég átti heldur ekki von á því að verða vinsæll meðal barna, eins og virðist vera raunin núna. Mín skoðun er sú að menn eiga ekki að velja sér starfsvettvang í sjónvarpi til þess að verða frægir. Ég hef búið við það nánast allt mitt líf að fólk þekkir á mér andlitið og það hefur nánast aldrei plagað mig neitt. Það hafa stöku menn viljað gera mig ábyrgan fyrir dagskrárstefnu sjónvarpsins en það er nánast ekki neitt. Ég hef aldrei orðið fyrir áreiti þegar ég hef verið úti á veitingastöðum til að mynda. Þegar tímaritið Séð og heyrt var við lýði á sínum tíma og var að reyna að koma upp einhverjum celebkúltúr á Íslandi fannst mér það algjörlega fáránlegt. Það er ekki hægt að vera celeb á Íslandi, ef þú ferð niður í Austurstræti á degi þar sem hægt er að vera úti og stendur þar í fimm mínútur þá sérðu að minnsta kosti fjóra, fimm sem eru landsfrægir. Farðu í Melabúðina og það sama gerist þar.“
„Það er lukka hvers manns að lenda í starfi sem hann hefur gaman af og það hefur verið mitt lán“
Bogi er 68 ára gamall, verður 69 ára á árinu. Að óbreyttu á hann því aðeins eitt og hálft ár eftir í fastráðnu starfi í sjónvarpinu. Hann segist þó ekki vera farinn að velta því neitt fyrir sér. „Ég hef reglulega minnt yfirmenn mína á að til dæmis hjá BBC hætti David Dimbleby sem fastur þáttastjórnandi í þættinum Question Time til að snúa sér að almennri fréttamennsku og dagskrárgerð því hann vildi gera það áður en hann yrði áttræður. John Simpson hætti sem ritstjóri erlendra frétta BBC rétt áður en hann varð 75 ára, af því það voru svo mikil ferðalög. Þessir menn eru í fullri vinnu enn þá, og án þess að ég vilji líkja mér við þá, þá get ég líka bent á að í fréttaskýringaþættinum 60 minutes hættir fólk ekki heldur deyr frá þættinum! Eins og staðan er núna þá verð ég að hætta þegar ég verð sjötugur. Auðvitað getur vel verið að eftir eitt og hálft ár þá finnist mér ágætt að hætta þessu. Þetta er eitthvað sem er í framtíðinni og auðvitað veit maður að framtíðin kemur en mér finnst þetta eitthvað svo langt í burtu að ég er ekkert farinn að leiða hugann að þessu. Það er lukka hvers manns að lenda í starfi sem hann hefur gaman af og það hefur verið mitt lán.“
Athugasemdir