Sjö tilkynningar um aukaverkanir vegna bólusetninga við Covid-19 hafa borist til Lyfjastofnunar. Þar af er ein tilkynning um hugsanlega alvarlegar aukaverkanir en orsakasamband er óljóst í því efni. Þetta kom fram í máli Ölmu Möller landlæknis á upplýsingafundi landlæknisembættisins og almannavarna í dag. Að öðru leyti hafa aukaverkanir af völdum bólusetningarinnar ekki verið teljandi heldur í takt við það sem almennt gerist við bólusetningu.
Næsti skammtur af bóluefni frá Pfizer mun berast hingað til lands 21. janúar og vikulega eftir það út mars mánuð en samkvæmt afhendingaráætlun mun þá hafa borist nægilegt bóluefni frá fyrirtækinu til að bólusetja 25 þúsund manns. Búið er að tryggja bóluefni fyrir 125 þúsund manns frá fyrirtækinu en óljóst er hvenær skammtar fyrir 100 þúsund manns sem eftir standa eftir marsmánuð munu berast. Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði á fundinum að sérstakar viðræður við Pfizer um bóluefni til að bólusetja þjóðina alla og fylgjast með því verkefni sem tilraun séu staddar á þeim stað að boltinn sé hjá Pfizer. Hann sagðist gera sér hóflegar væntingar um að svör frá fyrirtækinu við þeirri hugmynd myndu berast á næstu dögum.
Þórólfur sagði einnig að gleðilegt væri að búið væri að tryggja bóluefni fyrir alla þjóðina. Ísland hefði tryggt sér bóluefni fyrir um 60 þúsund manns frá Moderna en búst ef við að bóluefni fyrirtækisins fái markaðsleyfi í Evrópu í dag. Þá er einnig von til þess, sagði Þórólfur, að styttist í að bóluefni frá AztraZenica fái markaðsleyfi í Evrópu. Ísland hefur tryggr sér bóluefni frá fyrirtækinu fyrir 115 þúsund manns.
Ný reglugerð um sóttvarnir mun taka gildi 12. janúar næstkomandi og sagði Þórólfur á fundinum í dag að ef ástandið á faraldrinum héldist svipað og verið hefur mætti búast við tilslökunum á samkomutakmörkunum þá. Vel virtist hafa tekist upp í baráttunni gegn Covid yfir hátíðarnar en þessi vika myndi þó skera úr um það. Ekki má þó slaka á í persónubundnum sóttvörnum enda mikilvægt að halda faraldrinum áfram í skefjum.
Athugasemdir