Fyrsti Íslendingurinn utan heilbrigðisstétta til að fá mótefnasprautuna frá Pfizer sem ver hann gegn Covid-19 var Þorleifur Hauksson, 63 ára gamall íbúi á hjúkrunarheimilinu Seljahlíð í Seljahverfinu í Breiðholti, sem samþykkti að ríða á vaðið eftir að þrír aðrir íbúar heimilisins höfnuðu því að verða fyrst.
Þorleifur sagðist í morgun vera „mjög svo“ spenntur, en tók athöfninni með hægð og líkti henni við venjulega flensusprautu. „Þetta var bara eins og að láta sprauta sig við flensu,“ sagði Þorleifur. 20 íbúar Seljahlíðar fá sprautu í dag og verða að líkindum ónæmir fyrir covid-19 sem valdið hefur víðtækum takmörkunum á daglegu lífi undanfarna níu mánuði.
Þorleifur kemur ágætlega undan faraldrinum. Spurður hvað hann hyggist gera eftir að hann fær seinni sprautuna að þremur vikum liðnum er svarið: „Ekkert sérstakt.“
Um hvort hann muni ekki rjúka í bæinn, sagði Þorleifur: „Nei, ég fer ekki í bæinn nema ég þurfi“. Hann neitaði því ekki að þetta gæfi honum aukið frelsi til þess að fara um.
„Það hefur aðallega verið í sambandi við þegar það hefur þurft að hringja á undan sér til þess að koma til mín og það mátti bara koma einn í einu. Eins og tveir bræður mínir, þeir máttu ekki koma sama daginn.“
Margrét Árdís Ósvaldsdóttir, forstöðumaður Seljahlíðar, sagði bólusetninguna sýna ljósið við enda gangnanna.
Heilbrigðisstarfsfólk er í fyrsta forgangshópi og voru fyrstir þeirra bólusettir í Skaftahlíð 24 í morgun. Líklega tekur tvo daga að bólusetja 770 manns í fyrstu umferð.
Fólk sem er í forgangshópi fyrir bólusetningu mun fá skilaboð í síma um mætingu í sprautu. Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, greindi frá því í Seljahlíð í morgun að viðkomandi fái uppgefinn ákveðinn tíma í skilaboðunum og komi með símann og sýni strikamerki. „Síðan bíðum við í fimmtán til tuttugu mínútur með fólk áður en það fær að fara heim. Og það eru öryggisráðstafanir sem hefur sem betur fer nánast hvergi þurft að nota neitt. Sumir vilja fá sér vatnssopa eða líður aðeins betri með því, en alvarlegar aukaverkanir eru bara nánast engar þó það sé búið að sprauta milljónir.“
Hann sagði að gæði bóluefnisins skipti miklu máli og að það hafi varla sést svo gott bóluefni. Þeir sem hafa alvarlegt ofnæmi og hafa farið í ofnæmislost eiga ekki að fá bólusetninguna.
Athugasemdir