Talið er að hægt verði að bólusetja meginþorra þjóðarinnar á næstu þremur til fimm mánuðum. Búið er að tryggja bóluefni fyrir meira en alla íslensku þjóðina þó enn eigi eftir að skrifa undir samninga við tvö fyrirtæki þar um. Þetta kom fram í máli Ástu Valdimarsdóttur, ráðuneytisstjóra í Heilbrigðisráðuneytinu, á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis nú fyrir skemmstu.
Pfizer lyfjafyrirtækið mun fá markaðsleyfi í Evrópu fyrir bóluefni sitt í dag, að öllu óbreyttu. Á milli jóla og nýárs munu berast hingað til landa tíu þúsund skammtar af bóluefni fyrirtækisins, rétt eins og til allra annarra landa innan ESB og EES. Unnið er að því að skipuleggja bólusetningu landsmanna.
Samkvæmt plani Pfizer munu Íslendingar fá 50 þúsund skammta af bóluefni Pfizer fram í mars mánuð, sem dugar til að bólusetja 25 þúsund manns. Þá er vonast eftir að Moderna fái markaðsleyfi í Evrópu 6. janúar næstkomandi og þá mun skýrast hversu hratt Ísland fær bóluefni frá því fyrirtæki.
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, sagði einnig að bóluefni muni koma mjög þétt á markað á næstunni, stutt sé í bóluefni frá fyrirtækjunum Jansen og AstraZenica. Því þurfi að horfa til þess einnig að Íslandi muni berast bóluefni frá þeim fyrirtækjum. Þá sé einnig mikilvægt að horfa til þess hvernig öðrum þjóðum Evrópu muni takast til við bólusetningar, því það muni gagnast efnahagslífi álfunnar allrar og þar með okkar.
11:50
Síðasti fundur fyrir jól Næsti fundur almannavarna og landlæknis verður 28. desember. Víðir hvetur alla til að gæta að sínum persónulegu sóttvörnum, segir einnig að reynt verði að halda úti sýnatöku eins og verið hefur um hátíðarnar og hvetur alla til að láta skima sig ef nokkur grunur vaknar um smit. Í dag eru vetrarsólstöður, á morgun fer dagurinn að lengjast, sól að hækka á lofti og vonandi geð okkar með segir Víðir og óskar fólki gleðilegrar hátíðar og kærleika.
11:46
Bóluefnin munu koma mjög hratt Rúna segir að markaðsleyfi bóluefna muni koma mjög þétt, talið sé að Modern fái markaðsleyfi í Evrópu 6. janúar og stutt sé í bóluefni frá AztraZenica og Jansen. Mikilvægt sé að horfa til þess, en miða ekki eingöngu við það sem nú sé vitað um afhendingu, sem er eingöngu frá Pfizer. Þá sé mikilvægt að horfa til þess hvernig öðrum þjóðum Evrópu muni takast til við bólusetningar sem muni gagnast efnahagslífi álfunnar allrar.
11:40
Talið að hægt verði að bólusetja meginhluta þjóðarinnar á næstu þremur til fimm mánuðum Ásta segir að talið sé að hægt verði að bólusetja meginhluta þjóðarinnar á næstu mánuðum, og segist hún vera að tala um þrjá, fjóra til fimm næstu mánuði.
11:38
Mögulega samið um aukið magn frá Pfizer Ásta segir að yfirstandandi séu samningafundir hjá ESB við Pfizer um mögulegar viðbætur á bóluefni frá fyrirtækinu. Verði samið um aukið magn bóluefnis mun það einnig koma í hlut Íslands. Allar þjóðir ESB fá tíu þúsund skammta frá Pfizer á milli jóla og nýárs.
11:36
Horft verður til afléttingu takmarkana í samhengi við árangur bólusetningar Spurt er hvort raunhæft sé að halda úti hörðum samkomutakmörkunum mánuðum saman til viðbótar, í ljósi þess að óvíst sé hvort hægt verði að bólusetja nægjanlegan fjölda fólks fyrr en á síðari hluta næsta árs.æ Alma segir að reynt verði að létta takmörkunum í samhengi við bólusetningu, mögulega verði hægt að fara að slaka aðeins á þegar tekist hefur að bólusetja þá hópa sem í mestri hættu. Það hafi verið leiðarljós allan tíman að reyna að hafa takmarkanir sem minnst íþyngjandi í samhengi við ástandið sem sé á hverjum tíma.
11:34
Talið að hagsmunum Íslands sé betur borgið í samfloti við önnur ríki Spurt er hvort við hefðum átt að semja beint við lyfjaframleiðendur, en ekki fylgja ESB að málum. Ásta segir að talið hafi verið að Ísland hefði sterkari stöðu í samstarfi við önnur ríki, í ljósi smæðar þjóðarinnar á alþjóðavísu. Talið hafi verið, og sé, að hagsmunum Íslands sé betur borgið í samstarfi en ekki ein og sér.
Varðandi ágreining innan ESB segir Ásta að í júní hafi fólk talið að annað fyrirtæki yrði á undan Pfizer í sinni bóluefnaþróun. Því hafi verið erfitt fyrir samningsaðila að ákveða hvernig rétt hefði verið að haga samningum við lyfjaframleiðendur.
11:30
Hví hafa ríkari lönd tryggt sér meira bóluefni en þörf er á? Upplýsingaóreiða hefur verið í kringum bólusetningar. Spurt er hver staðan sé í raun og veru, hvenær verður búið að bólusetja fólk.
Ásta ítrekar að búið sé að tryggja bóluefni fyrir alla þjóðina en óljóst sé hvenær bóluefni berist. Vitað sé hvenær bóluefni frá Pfizer berist, að hluta. Þega búið verði að semja við Moderna muni það skýrast einnig hvenær bóluefni fari að berast.
Ásta segir að hún velti fyrir sér hví ríkari lönd hafi tryggt sér umfram magn af bóluefni, margfalt meira en þörf sé á. Þetta hafi Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gagnrýnt.
Rúna bendir á að það sé talsvert átak að bólusetja alla þjóðina.
11:26
Enginn afsláttur gefinn af öryggi bóluefnanna Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar ítrekar að sömu hörðu kröfur séu gerðar á bólefni gegn Covid-19 og önnur bóluefni. Þau hafi verið prófuð á tugþúsundum manneskja sem er meira en gengur og gerist.
11:21
Búið að tryggja bóuefni fyrir meira en alla þjóðina Við undirritun samnings við lyfjafyrirtæki tryggjum við okkur ákveðinn fjölda skammta en ekki hvenær þau verða afhent. Ekki er enn búið að veita markaðsleyfi fyrir bóluefnum ennþá en búist er við að Pfizer fái slíkt fyrir jól.
Búið er að undirrita samninga við Pfizer og AstraZenica, til stendur að klára samninga við Jansen fyrir jól og Moderna 31. desember. Þegar búið verður að undirrita alla samningana verður búið að tryggja bóluefni fyrir alla þjóðina og ríflega það.
Með samnignunum við Pfizer og Astra er búið að tryggja bóluefni fyrir 200 þúsund manns. Þegar hinir samningarnir verða undirritaðir verður búið að tryggja tæplega 400 þúsund skammta og mögulega meira því vísbendingar eru um að aðeins þurfi að bólusetja einu sinni með bóluefninu frá Jansen.
Tíu þúsund skammtar frá Pfizer koma milli jóla og nýárs. Út mars koma síðan fleiri skammtar, allt í allt 50 þúsund sem duga fyrir 25 þúsund manns. Ásta segir að búist sé við að hægt verði að bólusetja meginhluta þjóðarinnar á næstu mánuðum.
11:17
Höfum unnið náið með Noregi varðandi bóluefni Í vor hófst samstarf um kaup á bóluefni á vegum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, COVAX, með því markmiði að tryggja öllum aðgang að bóluefnum. Það er fyrst og fremst gert til að tryggja þróunarríkjum bóluefni en opnar einnig á kaup fyrir okkur Íslendinga.
Samstarf innan ESB hófst einnig í vor og fylgjum við þeim samningum og tryggt er að við fáum sama magn hlutfallslega og ESB ríkin. Þá hefur Ísland unnið náið með Norðmönnum og það hefur orðið okkur til mikils gagns, segir Ásta.
11:13
Óvissa um hversu hratt bóluefni mun berast Vel gengur að undirbúa bólusetningu en óvissa ríkir um hversu hratt það berist til landsins, og hvenær takast má að bólusetja nógu marga til að ná hjarðónæmi segir Alma. Hún gefur Ástu Valdimarsdóttur, ráðuneytisstjóra í Heilbrigðisráðuneytinu, svo orðið um samninga um bóluefni.
11:11
Smit síðustu daga í gegnum vinahópa Alma Möller landlæknir segir spurningu um hvort faraldurinn sé á uppleið, tölur næstu daga segi til um það en lítið þurfi útaf að bregða til að í óefni fari. Brýnt er að fólk sem finnur fyrir minnstu einkennum sé heima, fari í sýnatöku, og bíði svo eftir niðurstöðum. Þannig náist helst að eiga við faraldurinn. Þeir sem greinst hafa síðustu daga haf flestir smitast í vinahópum og vel hefur gengið að rekja smitin. Því sem næst allir sem smitast hafa hafa smitast af bláa stofninum, franska stofninum.
Alma ræðir um nýtt afbrigði veirunnar í Bretlandi. Það afbrigði virðist meira smitandi en önnur en engar vísbendingar eru um það afbrigði valdi verri einkennum eða að bóluefni virki ekki gegn því. Einn ferðamaður frá Bretlandi hefur greinst með það afbrigði, hann fór í sóttkví og ekki varð um útbreiðslu að ræða.
11:07
Víðir aftur kominn til starfa Víðir Reynisson byrjar á að ræða um hamfarirnar á Seyðisfirði. Hann brýnir fólk sem ekki á nauðsynlegt erindi niður á Seyðisfjörð að vera ekki á ferðinni þangað, það trufli viðbragðsaðila og skapi hættu. Öll þjóðin standi með Seyðfirðingum og Seyðisfjörður verði hinn sami á nýjan leik.
11:04
Fjórir með Covid-19 á landamærunum Fjórir greindust með Covid-19 á landamærunum í gær, eitt virkt smit var í fyrri sýnatöku og tvö í seinni sýnatöku. 378 sýni voru tekin á landamærunum eða í seinni sýnatöku eftir komu til landsins.
11:01
Sjö smit í gær Sjö innanlandssmit greindust við skimanir fyrir Covid-19 kórónaveirunni í gær og voru fimm þeirra sem greindust í sóttkví. 779 sýni voru tekin í gær. Inniliggjandi á sjúkrahúsi eru nú 29 manns, þar af 3 á gjörgæslu. Í einangrun eru 141, lítið eitt fleiri en í gær og 552 eru í sóttkví, um 150 fleiri en í gær.
Athugasemdir