Ekki munu nema um fimm þúsund skammtar af bóluefni gegn Covid-19 veirunni berast til landsins í fyrstu sendingu. Sú sending er væntanleg á næstu dögum og vonast er til að hægt verði að byrja að bólusetja framlínustarfsfólk, um eitt þúsund manns, og aldraða, um þrjú til fjögur þúsund manns, milli jóla og nýárs. Næsta sending kemur í janúar eða febrúar og mun innihalda um átta þúsund skammta. Hjarðónæmi verður væntanlega ekki náð fyrr en um mitt næsta ár eða seinni part ársins.
Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag. Þar kom fram að Ísland hefði gert samninga um að fá 85 þúsund skammta af bóluefni frá lyfjafyrirtækinu Pfizer en vegna hráefnisskorts seinkaði framleiðslu fyrirtækisins á bóluefninu. Óvíst væri hvenær næstu skammtar af bóluefninu myndu berast, eftir þá átta þúsund skammta sem berast eiga í upphafi næsta árs.
Þá sagði Þórólfur að ekki væri hægt að reikna með að fá önnur bóluefni fyrr en um mitt næsta ár, en Ísland hefur auk samningana við Pfizer tryggt sér bóluefni frá Moderna og AstraZeneca. Fyrrnefnda bóluefnið verður tekið til afgreiðslu af Lyfjastofnun Bandaríkjanna í dag og er búist við að notkun þess verði heimiluð.
Alma Möller landlæknir sagði markmið bólusetningar vera að ná hjarðónæmi og til þess að svo mætti verða þyrfti að bólusetja 65 prósent þjóðarinnar. Í ljósi vandkvæða við framleiðslu Pfizer á bóluefni sínu og þess að ekki væri búist við öðrum bóluefnum á næstunni er líklegt að hjarðónæmi náist ekki hér á landi fyrr en í fyrsta lagi um mitt næsta ár og jafnvel ekki fyrr en á seinni hluta ársins.
Ingileif Jónsdóttir, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og deildarstjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu, sagði að þrátt fyrir flýtiafgreiðslu á bóluefni Pfizer og mögulega annarra bóluefna væru þau fullkomlega jafn örugg og önnur bóluefni. Gríðarlega mikill ávinningur væri af því fyrir flesta einstaklinga og samfélagið allt að fá bólusetningu. Ávinningurinn væri miklu meiri en áhættan, þó alltaf gætu komið upp aukaverkanir. Þær aukaverkanir sem væru alvarlegar væru hins vegar afar sjaldgæfar, mögulega einn á móti hálfri til einni milljón. Þá sýndu bólefni Pfizer og Moderna mikið öryggi og mikla vernd, 94-95 prósent vernd gegn veirunni.
Athugasemdir