Smitstuðull Covid-19 er kominn niður fyrir einn og segir Þórólfur Guðnason að Ísland sé að komast út úr þeirri bylgju sem hefur staðið yfir í faraldrinum. Lítið megi þó út af bregða, áfram geti hópsmit komið upp sem muni færa faraldurinn inn í nýja bylgju. Hann hvetur fólk til að fara ákaflega varlega nú á aðventunni og forðast hópamyndanir, enginn vilji þurfa að eyða jólunum í einangrun, veikur af veirunni.
Á upplýsingafundi almannavarna og embættis landlæknis í dag um stöðu mála í kórónaveirufaraldrinum voru kynnta frumniðurstöður á líðan þjóðarinnar í faraldrinum. Þær niðurstöður eiga einungis við um fyrstu bylgju faraldursins.
Niðurstöðurnar eru þær að þunglyndiseinkenni og áfallastreita jókst hjá þeim sem fengu Covid-19, hjá þeim sem fóru í sóttkví, hjá þeim sem eiga ættingja sem fengu sjúkdóminn og hjá þeim sem urðu fyrir tekjumissi af hans völdum, miðað við samanburðarhópa. Slík einkenni er hins vegar ekki að finna hjá heilbrigðisstarfsfólki, þrátt fyrir gríðarlegt álag á það. Það er mikið ánægjuefni sagði Unnuf Anna Valdimarsdóttir, prófessor í faraldsfræði, sem leitt hefur rannsóknina sem um ræðir. Alma Möller landlæknir tók undir það og benti á að í löndum þar sem faraldurinn hefði farið úr böndunum hefðu mælingar sýnt að geðheilbrigði heilbrigðisstarfsfólks hefði orðið fyrir áhrifum.
Þórólfur greindi frá því að stutt væri í að bóluefni kæmi hingað til lands, þó ekki væri ljóst hvenær og í hversu miklu magni. Á næstu dögum yrði fyrirkomulag bólusetninga kynnt og sömuleiðis kostir þess og gallar að láta bólusetja sig. Ekki væri búið að ákveða hver fyrstur yrði bólusettur.
Athugasemdir