Donald Trump Bandaríkjaforseti segist hafa sigrað kosningarnar, þrátt fyrir að talningu sé langt frá því lokið í mörgum lykilríkjum sem valda úrslitum um hvaða frambjóðandi vinnur. Hann segist munu berjast fyrir hæstarétti til að vinna kosningarnar.
Tilkynnti Trump þetta í ræðu fyrir stuðningsmönnum sínum rétt í þessu. Fréttamenn í sjónvarpi leiðréttu málflutning hans samstundis eftir að honum var lokið, en niðurstöður kosninganna liggja ekki fyrir og munu líklega ekki gera með óformlegum hætti fyrr en á næstu dögum.
„Þetta eru svik gegn bandarískum almenningi, þetta er þjóðarskömm, við erum tilbúin til að vinna þessar kosningar og, í hreinskilni, unnum við þessar kosningar,“ sagði forsetinn.
Sagði Trump að hæstiréttur gæti þurft að skera úr um niðurstöðuna, en árið 2000 stöðvaði rétturinn endurtalningu atkvæða í Flórída þegar George W. Bush og Al Gore börðust um forsetaembættið. Trump skipaði nýlega nýjan dómara við réttinn, Amy Coney Barrett, eftir andlát Ruth Bader Ginsburg. Þykir Barrett íhaldssöm og nýtur hún stuðnings Repúblikanaflokks forsetans.
Ekki verður skorið úr um sigurvegara í ríkjunum Pennsylvania og Michigan fyrr en í vikulok, en Joe Biden, frambjóðandi Demókrata þarf að ná árangri þar til að tryggja sér sigurinn. CBS fréttastofan tilkynnti rétt í þessu að Biden hefði unnið í ríkinu Virginia. Wisconsin og Georgia eru einnig í spilinu fyrir báða frambjóðendur. Mjótt er því á mununum og óvíst hvor frambjóðendanna vinnur þar til atkvæði úr póstkosningu hafa verið talin.
Samkvæmt öllum helstu fréttastofum hefur Trump unnið í Flórída, Texas og Ohio. Alls þarf frambjóðandi að hljóta 270 kjörmenn til þess að vinna, en fjöldi þeirra er mismunandi eftir ríkjum. Fréttastofur vestanhafs segja Biden nú hafa fengið 225 kjörmenn, en Trump 213.
Athugasemdir