Allar spurningarnar snúast um sama efnið, eins og venjulega þegar tala spurningaþrautarinnar endar á núll. Nú eru það Bandaríkjaforsetar og frambjóðendur sem málið snýst um.
Aukaspurningar: Á myndinni hér að ofan sver einn Bandaríkjaforseti embættiseið sinn við frekar óvenjulegar aðstæður. Hver er sá?
Á neðri myndinni má sjá Bandaríkjaforseta einn heilsa hermanni, sem síðar varð forsetaefni sjálfur. Hvað heita þessir tveir menn?
En hér eru almennu spurningarnar:
1. Hver var forsetaefni Repúblikana gegn Barack Obama árið 2012?
2. Hvaða Bandaríkjaforseti sagði: „Herra Gorbatsjov, rífðu niður þennan múr“?
3. Hver hefur verið Bandaríkjaforseti lengst allra?
4. Hver er fyrsta konan sem var forsetaefni annars stóru flokkanna í Bandaríkjunum?
5. Hversu margir Bandaríkjaforsetar hafa verið myrtir í embætti?
6. Einn Bandaríkjaforseti fæddist í tíu þúsund manna smábæ sem heitir Hope í Arkansas árið 1946. Hver er hann?
7. Faðir Obama forseta fæddist og dó í Afríkulandi einu. Hvaða land er það?
8. Einn Bandaríkjaforseti hafði ekki ensku að móðurmáli. Hver var hann?
9. Vegna kjörmannakerfisins í bandarískum stjórnmálum náði Donald Trump kjöri 2016 þótt hann fengi færri atkvæði en mótframbjóðandi hans. Það gerðist einnig árið 2000 þegar George W. Bush varð forseti þótt hann fengi færri atkvæði en ... ja, hver?
10. Eitt af því sem gerðist á 19. öldinni var að Jón Ólafsson ritstjóri fór í heimsókn til Bandaríkjanna og lenti þar á fylleríi með Bandaríkjaforseta. Hvað hét sá forseti?

Hér eru þá svörin:
1. Romney.
2. Reagan.
3. Franklin D. Roosevelt.
4. Hillary Clinton.
5. Fjórir.
6. Bill Clinton.
7. Keníu.
8. Van Buren, forseti 1837-1841. Hann var af hollenskum ættum og hollenska var töluð á æskuheimili hans í New York-ríki.
9. Gore.
10. Grant.
Á efri myndinni sver Lyndon B. Johnson embættiseið.
Á neðri myndinni heilsar Nixon forseti John McCain, sem var forsetaefni Repúblikana 2008.
Athugasemdir