Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

„Það er ekki hægt að spila þennan leik með þeim spilum sem voru gefin í byrjun“

Mæl­ir­inn er full­ur að sögn Loga Pedro og þol­in­mæð­in fyr­ir ras­isma er að þrot­um kom­in. Hann horf­ir til sögu svartra í al­þjóð­legu sam­hengi, en heim­fær­ir stöð­una: „Ég á sjálf­ur svo sterka fjöl­skyldu­sögu þeg­ar kem­ur að þræla­haldi,“ seg­ir Logi og árétt­ar mik­il­vægi þess að fólk taki af­stöðu.

Heimurinn brennur, en það voru ekki þau sem kveiktu bálið, það logaði alltaf neisti. Dauði George Floyd var kveikurinn en sinan fuðrar nú upp hringinn í kringum hnöttinn. Fólk hvaðanæva að sameinast nú í sorg og reiði gegn banvænum rasisma, gegn kerfum sem mismuna á grundvelli litarhafts og menningar. Það er samt ekki nóg að vera sorgmæddur eða reiður, raunverulegar breytingar þurfa að fylgja og þær munu ekki eiga sér stað að sjálfsdáðum. „Fólk hlýtur að átta sig á því að það er engin þolinmæði fyrir þessu lengur. Ég sjálfur hef enga þolinmæði,“ segir tónlistarmaðurinn Logi Pedro Stefánsson, sem hefur fengið sig fullsaddan af óbreyttu ástandi. 

Logi telur hinn almenna Íslending ekki átta sig fyllilega á stöðunni sem ríkir, hvernig kerfið í Bandaríkjunum er hannað til þess að kúga og undirskipa svart fólk. „Það er bara mjög eðlilegt að allt hafi sprungið, þetta er ástand sem er búið að vera í gangi í mörg hundruð ár,“ segir hann og vísar til eldfimra mótmæla vestanhafs. Logi segir skipta miklu máli hvaða afstöðu fólk tekur, því það sé ekki hægt að vera afstöðulaus, þeir sem þykjast ekki taka afstöðu taki afstöðu með óbreyttu ástandi. Nauðsynlegar breytingar munu þó ekki eiga sér stað fyrr en fólk í forréttindastöðu áttar sig á því að þetta er þeirra vandamál að leysa, ekki hinna undirskipuðu sem hinir sýna aðeins samhug með. 

Mikilvægt að taka afstöðu

Stundin fjallaði um þung orð sem Logi Pedro lét falla um Morgunblaðið og Viðskiptablaðið á Facebook-síðu sinni. Þar hvatti hann fólk til þess að gera ekki lítið úr þeim raunverulegu og oft banvænu vandamálum sem svart fólk í Bandaríkjunum stendur frammi fyrir. Skilaboðin eru þó ekki aðeins sértæk, heldur gilda þau einnig um stöðu svartra í alþjóðlegu samhengi. Logi Pedro lýsir veruleikanum sem svartir Bandaríkjamenn standa frammi fyrir sem helför og hvetur fólk til þess að taka afstöðu gegn henni. Sem þeldökkur maður standa þessi mál honum sérstaklega nærri, en það er saga móður hans af vinnumansali í barnæsku sem hefur ekki síður verið leiðandi afl í baráttu hans á síðari árum. Þótt hann telji ástandið á Íslandi ekki vera jafn slæmt og í Bandaríkjunum, séu hendur okkar langt frá því að vera hreinar.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár