Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

Óvissa, óöryggi og hryllingur á götum Aþenu

Adel Dav­oudi sótti um hæli á Ís­landi ár­ið 2018 en var vís­að aft­ur til Grikk­lands þar sem hann bjó um tíma á göt­unni. Sa­leh, Malilheh og tví­bura­syst­urn­ar Setayesh og Para­stesh búa við al­gjöra óvissu, hafa hvorki að­gang að heil­brigð­is­þjón­ustu né skóla­kerfi. Saga þeirra er veru­leiki þús­unda annarra flótta­manna í Grikklandi. Jón Bjarki Magnús­son hitti þau í Aþenu.

Óvissa, óöryggi og hryllingur á götum Aþenu
Fjölskylda í óvissu Þau Saleh, Malilheh og tvíburadætur þeirra Setayesh og Parastesh, búa við mikla óvissu í Aþenu. Mynd: Jón Bjarki Magnússon

Eftir að íranska flóttamanninum Adel Davoudi var vísað frá Íslandi og til Grikklands í nóvember 2018 hélt hann fyrst um sinn til á götunni í höfuðborginni Aþenu. Þar hafðist hann meðal annars við undir húsvegg grískrar orthodox-kirkju sem vildi lítið með fólk eins og hann hafa. Sem betur fer var írönsk kirkja á næsta leiti sem veitti flóttafólki matargjafir. Kvöldin og næturnar voru verstar því þá var mesta hættan á því að verða fyrir árásum. Stundum voru það lögreglumenn sem voru að atast út í hann og jafnvel stugga við honum þar sem hann lá í það og það skiptið. Þá var um að gera að hlýða fyrirskipunum og reyna að finna sér annan samastað um sinn, einhvers staðar þar sem lögreglumenn og eða hvers kyns fautar sæju ekki til. Mest óttaðist hann samt fasistana sem hatast við fólk eins og hann, leita það uppi og lemja svo sundur og saman þegar færi gefst.

En Davoudi gerir ekki mikið úr eigin stöðu. Hann segist geta bjargað sér, sé ungur og hraustur og hafi lært bardagalistina Mua Thai í heimalandinu. Verra sé að horfa upp á fjölskyldufólkið sem eigrar um götur Aþenu í eilífri óvissu um framhaldið. Þannig er einmitt komið fyrir þeim Saleh og Malilheh, og tvíburadætrum þeirra, þeim Setayesh og Parastesh. Þau komust yfir til Grikklands fyrir um sjö mánuðum síðan og sóttu um hæli í landinu. „Þau voru ekki með neitt þegar þau komu hingað til Aþenu. Engan mat. Ekkert húsnæði. Ekki neitt,“ segir Davoudi sem hefur reynt að hjálpa fjölskyldunni hvað hann getur með að koma sér fyrir. Þau leigja nú herbergi á hosteli í borginni þar sem annað flóttafólk heldur til. Þau hafa engan aðgang að læknisþjónustu og þá ganga stúlkurnar, sem eru níu ára, ekki í skóla. Sögur þeirra Davoudi, Saleh, Malilheh, Sateish og Rateish er saga tugþúsunda annarra flóttamanna í Grikklandi.

Davoudi býr ennþá í Aþenu. Hann leigir nú litla íbúð með fjórum öðrum írönskum félögum. Hann er sá eini sem er þegar kominn með hæli í landinu, kennitölu, og þannig sá eini sem gat fengið leigusamning á sínu nafni. Þeir deila kostnaði af leigunni á milli sín, um 500 evrum á mánuði, fyrir rými sem er lítið annað en stofan sem þeir skipta með sér. Það er lítil sem engin vinna í boði fyrir menn eins og þá. Mögulega býðst þeim svört vinna endrum og eins og þiggja fyrir það 10 til 20 evrur á dag, ef þeir fá þá yfirleitt borgað. Sumir geta treyst á smávegis fjárhagsstuðning frá foreldrum eða ættmennum í heimalandinu en það er ekki allir í þeirri stöðu. Þá eru góð ráð dýr og menn þurfa að finna einhverja leið til þess að skrapa saman fyrir leigunni. Þeir eru afskiptir og útundan, fjarri heimahögunum, og vita ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu