Árið hefur á margan hátt verið ánægjulegt og lærdómsríkt. Akureyri og Norðurland halda áfram að koma mér notalega á óvart og hér erum við að læra nýja siði. Ég hef búið bæði fyrir vestan og í höfuðborginni en það er margt við þetta svæði sem slær öllu öðru við. Á Akureyri er allt til alls í fallegu og mjög fjölskylduvænu umhverfi. Hér eru lífsgæðin sem margir eru að leita eftir.
Starf bæjarstjórans er ákaflega skemmtilegt, fjölbreytt og gefandi. Það er í mörg horn að líta. Flest eru verkefnin tiltölulega viðráðanleg, kannski einkum og sér í lagi ef þau snúa að einhverju öðru en samskiptum við ríkisvaldið. Það á við bæði vestur á fjörðum og hér á Akureyri. Hef ég fengið að kynnast því hversu mikilli orku sveitarfélögin úti á landi þurfa að eyða í þrátefli við ríkið. Stjórnmálamenn vilja vel og skiptir litlu hvort ríkisstjórnir eru til hægri eða vinstri. En einhvers staðar er kerfislæg stífla – þetta við og þið. Eitthvað sem mér hugnast illa. Við erum lítil þjóð í litlu landi. Ríki og sveitarfélög eru bæði að þjónusta fólk á sem bestan en hagkvæmastan hátt og eiga því að vera samstiga.
Því miður hefur þjónusta ríkisins á landsbyggðinni dregist saman víða en þó, til að gæta allrar sanngirni, líka verið efld á nokkrum stöðum. Litlu samfélögin verða verst fyrir barðinu á hagræðingu og hefur opinberum störfum fækkað mjög hratt. En það eru víða brothættar byggðir, líka tiltölulega stór samfélög. Eins eru tiltölulega lítil en brýn verkefni látin bíða árum saman og eru dæmin mörg. Í vegagerð, uppbyggingu flugvalla, heilbrigðisþjónustu, varaafli og ekki síst uppbyggingu á flutningskerfi raforku. Sannaðist það rækilega og með dapurlegum hætti í óveðrinu um daginn. Það er með ólíkindum að grunnkerfi landsins séu ekki betri úti á landi en raun ber vitni árið 2019. Ég er þó vongóð um að þetta muni breytast á næstu misserum en geri mér líka vel grein fyrir að það geta ekki allir fengið allt.
„Þessi tregða að bregðast við og byggja upp nauðsynlega innviði á landsbyggðum heimsins er algjörlega óskiljanleg“
Erfiðast er þegar skilningsleysi og aðstöðumunur bitnar á tækifærum barna til að þroskast og menntast. Niðurstöður PISA-könnunar sýna til dæmis mikinn mun á frammistöðu barna á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu, þar sem árangur landsbyggðarbarna er umtalsvert lakari. Þar kristallast þessi mikli aðstöðumunur. Á því verður að taka, í góðu samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Þetta er ekki bara mál landsbyggðarinnar eða sveitarfélaganna heldur okkar allra. Við getum nýtt tæknina til að bæta gæðin og koma til móts við þarfir barna í dreifðum byggðum. Þannig getum við boðið þjónustu okkar allra bestu kennara til minnstu samfélaga landsins og það þarf að styðja við breytta starfshætti hjá kennurum. Akureyrarbær er í fararbroddi á landsvísu þegar kemur að fjölda fagmenntaðra kennara í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins svo eftir er tekið. Háskólinn á Akureyri aðstoðar okkar góða fólk í skólunum og styður við starf fjölda kennara úti um allt land sem er algjört lykilatriði. Við Akureyringar gerum mjög vel en þurfum eigi að síður að gera betur og getum það. Ég er stolt af samfélaginu mínu, sem er ekki bara Akureyri heldur líka jaðarbyggðirnar Hrísey og Grímsey. Þessi staða á ekki bara við um Ísland heldur hefur þetta einnig komið fram í samtali bæjarstjóra á norðurslóðum.
Með þá vangaveltu í huga óska ég landsmönnum öllum gleðilegra jóla, árs og friðar.
Athugasemdir