Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

Útlendingur í eigin lífi

Frið­geir Ein­ars­son hef­ur vak­ið mikla að­dá­un gagn­rýn­enda með fyrsta smá­sagna­safni sínu, Takk fyr­ir að láta mig vita. Hann hef­ur áð­ur vak­ið at­hygli fyr­ir sviðs­verk sín, en bók­mennta­fólk virð­ist líta svo á að nú fyrst sé hann orð­inn rit­höf­und­ur. Frið­geir fjall­ar gjarna um það hvers­dags­lega, það sem ekki þyk­ir skáld­legt, í verk­um sín­um og seg­ist alltaf hafa upp­lif­að sig sem dá­lít­ið ut­an við heim­inn. Sem barn ákvað hann meira að segja að þegja í heilt ár, kannski til að þurfa ekki að taka þátt í heimi hinna.

Þótt Friðgeir Einarsson hafi verið starfandi sviðslistamaður, bæði höfundur, leikstjóri og leikari, árum saman og verk leikhóps hans Kriðpleir vakið töluverða athygli og aðdáun, er eins og hann hafi fyrst stigið fram á sjónarsvið íslenskra lista með nýútkomnu smásagnasafni, Takk fyrir að láta mig vita. Er svona miklu merkilegra að vera rithöfundur en sviðslistamaður í augum alheimsins? Og hvers vegna ákvað hann að snúa sér að smásagnaritun samhliða sviðslistinni?

„Það hefur alltaf blundað í mér að skrifa skáldverk – ef ég má nota þá klisju,“ segir Friðgeir þegar ég spyr hann hvers vegna hann hafi snúið sér að því að skrifa smásögur eftir að hafa einbeitt sér að skrifum leikverka árum saman. „Ég hef alltaf séð ritsörf sem einhvers konar köllun eða örlög, en aldrei haft neitt sérstaklega gaman af því að skrifa skáldskap fyrr en núna síðustu árin. Það var eiginlega ekki fyrr en ég fór að skrifa smásögur sem mér fór að finnast það skemmtilegt. Ég hafði skrifað nokkrar misheppnaðar tilraunir að skáldsögum, en aldrei fundið mig almennilega í því.“

Friðgeir segir áhugann á smásagnaforminu hafa kviknað við lestur smásagna annarra undanfarin ár og orðið að neista. „Smásagnaformið getur verið svo skilvirkt og góð smásaga getur oft haft meiri áhrif en slöpp skáldsaga. Sumar hugmyndir detta líka betur inn í smásagnaformið. Þær eru líka góð leið til að opna inn í einhvern heim og hverfa út úr honum aftur áður en maður verður leiður á honum.“

Hafandi verið starfandi sviðslistamaður sem bæði skrifar og flytur eigin verk er ekkert óþægilegt að hafa enga stjórn á upplifun lesenda? „Jú, það er dálítið skrítið. Bókin kom út fyrir nokkrum vikum og svo verður maður bara að bíða eftir viðbrögðunum. Það tekur á taugarnar. Við í leikhópnum Kriðpleir frumsýndum leikritið Ævisaga einhvers á föstudaginn í síðustu viku og fengum auðvitað viðbrögð strax á staðnum, í augnablikinu. Það er það sem ég er vanur. Með bók þá skilar maður bara handriti í prentun á ákveðnum tímapunkti og eftir það getur maður engu breytt. Ekki get ég mætt með tippex í búðirnar og krotað inn leiðréttingar. Þótt það væri reyndar ágætis gjörningur. Það er til dæmis eitt orð í einni sögunni sem mér finnst núna að hefði átt að vera öðruvísi en ég get ekkert gert í því héðan af. Ef maður gerir mistök í leikhúsinu getur maður leiðrétt þau um leið, mistökin eru horfin um leið og þú ert búinn að gera þau, en þetta orð mun standa í þessari sögu um aldur ævi.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár