Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 9 árum.

Uppreisnarmaður í fangelsi

Ní­els Ár­sæls­son varð skip­stjóri á tog­ara rúm­lega tví­tug­ur. Skip­herra varð­skips lét manna fall­byssu og beindi að skipi hans. Síð­an hef­ur hann bar­ist við kerf­ið. Svið­sett brott­kast vakti lands­at­hygli. Sjö ár­um eft­ir gjald­þrot var enga vægð að fá og hann sett­ur í fang­elsi vegna vörslu­gjalda.

Dvölin í fangelsinu er það þungbærasta sem ég hef gengið í gegnum í lífinu. Fangelsið á Akureyri er einhver ömurlegasti staður sem ég get hugsað mér,“ segir Níels Ársælsson, 55 ára fyrrverandi útgerðarmaður og skipstjóri frá Tálknafirði, sem lauk afplánun vegna vörslugjalda fyrir tæpu ári síðan. Mörgum árum eftir brotið var hann skyndilega læstur inni með nauðgurum og morðingjum í fangelsinu á Akureyri. Hann hefur síðustu 35 ár staðið í slagsmálum við kerfið. Stundum hefur Níels, sem jafnan er kallaður Nilli, tapað en jafnharðan risið upp aftur og tekið nýjan slag. 

Mörg af málum hans hafa vakið þjóðarathygli. Rúmlega tvítugur var hann skipstjóri á eigin togara og neitaði að hleypa varðskipsmönnum um borð. Það var ekki fyrr en búið var að manna fallbyssu skipsins og beina að skipi hans að hann lét undan þrábeiðni lögmanns síns að hlýða skipunum varðskipsmanna. Seinna vakti enn meiri athygli þegar hann sýndi sjónvarpsmönnum brottkast um borð í Bjarma BA-326. Honum hafði verið lofað trúnaði en skipið þekktist og hann var ákærður fyrir að fleygja 53 fiskum. Málið markaði upphaf þess að Níels lenti í gríðarlegum fjárhagserfiðleikum og endaði í fangelsi. Kerfið vildi koma honum í bönd.  

Fátækt í Breiðholti

Í dag rekur hann fiskbúðina Sjávarhöllina í Hólagarði ásamt félaga sínum, Hinrik Matthíassyni. Í Efra-Breiðholti er fátæktin mikil. Níels þekkir sjálfur örbirgðina og hefur samúð með fólkinu sem bankar bakdyramegin hjá fiskbúðinni til að biðja um gefins þunnildi af fiski eða hrygg til að sjóða upp í súpu. 

„Fátæktin hér er meiri og sárari en ég held að fólk geri sér grein fyrir. Ég hef mikla samúð með fólkinu hérna. Þótt ég hafi lengst af búið við allsnægtir í lífinu komu tímar þar sem fjölskylda mín leið mikinn skort. Ég veit hvernig tilfinning það er og gef það sem ég get af fiski sem ekki selst. Og það er oft bankað á bakdyrnar. Það er mjög sjaldan sem ég þarf að fara með fiskúrgang héðan. Hér nýtir fólk allt til matar. Taílendingarnir sjóða hausa, bein og fiskafganga í súpu og sósur og ná sér þannig í næringu. Það er skömm að því að á Íslandi sé slík fátækt á borð við það sem þarna sést,“ segir Níels.

Bræður dæmdir

Níels losnaði úr fangelsi 19. júní 2014 eftir að hafa afplánað síðustu mánuðina á áfangaheimilinu Vernd í Reykjavík. Hann sat inni í framhaldi þess að útgerð hans og fiskeldisfyrirtæki  á Tálknarfirði fóru í þrot og tugmilljónir vörslugjalda voru ekki greiddar. Hann og bróðir hans, sem var framkvæmdastjóri beggja félaganna, voru dæmdir til að greiða rúmlega 40 milljónir króna eða fara að öðrum kosti í fangelsi. Hann gat engan veginn borgað sektina. Það liðu fimm ár frá því dómur féll árið 2006 þar til yfirvöld buðu Níelsi, örfáum dögum fyrir firningu dómsins, að gegna samfélagsþjónustu. Þá hófst atburðarás þar sem pólitíkusar beittu sér beinlínis gegn því að hann afplánaði með vinnu. Heima á Tálknafirði var hann rekinn úr samfélagsþjónustu við sundlaugina. Þar kom við sögu mágkona hans, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, oddviti Tálknafjarðarhrepps. Níels Ársælson, fimm barna faðir og eiginmaður, var fluttur með lögregluvaldi til Reykjavíkur og settur í Hegningarhúsið á Skólavörðustíg. Fjölskylda hans var án fyrirvinnu og framundan voru dökkir mánuðir peningaleysis og þeirra þjáninga sem fylgir fangelsun. Níels félst á að segja Stundinni sögu sína. Við hittumst í fiskbúðinni hans í Hólagarði. Það er fámennt í búðinni. Við hverfum aftur til upphafs ferilsins. 

Uppreisnarmaður
Uppreisnarmaður Níels hefur verið í baráttu gegn kerfinu allt frá því hann var skipstjóri á togaranum Einari Benediktssyni BA. Lífshlaup hans hefur einkennst af átökum vegna kvótakerfisins.

Tvítugur skipstjóri

Níels var aðeins tvítugur þegar hann varð skipstjóri og fiskaði strax vel. Faðir hans, Ársæll Egilsson, var aflasæll skipstjóri og hafði kennt syni sínum eitt og annað. Níels var gríðarlega metnaðarfullur og fór fljótlega í eigin útgerð. Fyrsti báturinn hans var Sæhrímnir, sem hann keypti frá Þingeyri. Sá bátur var fljótlega dæmdur í úreldingu. Þá keypti hann Fálkann frá Vestmannaeyjum, 59 tonna bát. Veiðarnar gengu vel en svo kom reiðarslagið 19. september 1981. 

„Við vorum á leið um Látraröst í ofsveðri að koma úr róðri þegar við fengum á okkur heiftarlegan brotsjó. Það kom leki að bátnum og við sendum út neyðarkall. Okkur tókst að sigla út úr röstinni og suður fyrir Bjargtanga inn í Keflavík. Það vildi okkur til happs að togarinn Ingólfur GK var í grennd við okkur og kom siglandi og beið átekta. Við vorum að bíða eftir varðskipi með dælur. Þetta horfði mjög illa og stöðugt kom meiri sjór í skipið. Áhöfnin var í miklum háska og ég sendi þrjá menn og skipshundinn yfir í Ingólf með gúmmbáti. Skömmu síðar fór Fálkinn á hliðina. Ég og stýrimaðurinn, Ólafur Ingimarsson, sem vorum eftir í bátnum, komumst út um brúarglugga og biðum hjálpar, sitjandi á kili. Við komumst svo um borð í Ingólf. Þarna hefði ekki mátt neinu muna. Þetta var nánast kraftaverk þar sem allt þurfti að ganga upp,“ segir Níels. 

Eftir björgunina byrjaði Níels strax að huga að nýju skipi. Því fór víðs fjarri að háskinn í Látraröst sæti í honum. 

„Ég vildi komast sem fyrst á sjóinn aftur. Á þessum tíma kunni ég ekki að hræðast. Ég var ungur og vitlaus. Strax eftir slysið byrjaði ég að líta í kringum mig eftir nýju skipi,“ segir Níels. 

Togarakaup

Níels setti sig í samband við Benedikt Sveinsson, lögmann og Engeying, sem þá rak skipasölu og varð seinna einn af umsvifamestu mönnum íslensks athafnalífs. Níels var með hugmynd um að kaupa togara. Hann fékk Bjarna V. Magnússon, forstjóra Íslensku umboðssölunnar, í lið með sér og það var stofnuð útgerð sem Níels og félagar áttu 75 prósenta hlut í á móti 25 prósentum Íslensku umboðssölunnar. 

Eftir að Íslendingar færðu út fiskveiðilögsöguna sátu Englendingar uppi með fjöldann allan af togurum sem engin verkefni voru fyrir. Benedikt og Níels brugðu sér til Bretlands til að skoða skip. 

„Þegar við hittum forstjóra breska útgerðarfyrirtækisins Boston Deep Sea ltd, benti hann yfir flotann sem lá bundinn í höfninni í Lowestoft. Þetta voru 80 skip. Hann sagði mér að velja hvert þeirra sem ég vildi. Ég valdi mér skip sem var aðeins átta ára gamalt. Umsamið kaupverð var 300 þúsund pund sem var hrakvirði,“ segir hann.  

Níels taldi útilokað að hann fengi lán til kaupanna frá Fiskveiðasjóði. Ástæðan var sú að þar réði Landsamband íslenskra útgerðarmanna miklu. 

„Menn þurftu að vera innmúraðir til að fá lán. Ég stakk upp á því við Benedikt að við fengjum lán í breskum banka til kaupanna. Hann horfði á mig hissa og taldi það vera útilokað. Ég benti honum á þann möguleika að breska útgerðin tæki lánið og framseldi okkur. Það gekk allt upp og við fengum erlent lán frá Lloyds Bank of London með skipinu,“ segir Níels. 

Ráðherrakaup

Enn var þó langt í land með að klára kaupin að fullu. Níels þurfti að fá leyfi langtímalánanefndar í gegnum viðskiptaráðuneytið þar sem framsóknarmaðurinn og ráðherrann, Tómas Árnason, réði ríkjum. 

„Við höfðum leitað til formanns Framsóknarflokksins, Steingríms Hermannssonar, sem var þingmaður okkar og sjávarútvegsráðherra. Þetta þvældist eitthvað fyrir Tómasi, sem var þingmaður Austfirðinga, og hann taldi fráleitt að hann væri að tryggja þessi skipakaup fyrir útgerð vestur á fjörðum. Svo féllst hann á þetta gegn því að Austfirðingar fengju skip á sömu kjörum. Það varð úr að svipað stórt skip var keypt til Breiðdalsvíkur. Þegar ég stóð í þessu brasi öllu saman sá ég ekki fyrir þær ofsóknir og öll þau læti sem átti eftir að verða í kringum útgerðina,“ segir Níels. 

Steingrímur „plataður“

Eftir að kaupin á breska togaranum voru ráðin var komið að því að gefa skipinu nafn. Þar dugði ekkert minna en þjóðskáldið og athafnamaðurinn Einar Benediktsson sem birtist Níels í draumi. Togarinn fékk nafn hans, og hét Einar Benediktsson BA 377. Níels og hans menn voru bjartsýnir þegar siglt var af stað til Íslands. En það átti mikið eftir að ganga á í sögu útgerðarinnar. Bjartsýnin sem réði ríkjum á heimleiðinni reyndist vera byggð á óskhyggju. Þær reglur voru í gildi á þessum tíma að ekki mátti flytja inn fiskiskip til Íslands nema sambærilegt skip hyrfi úr rekstri. 

„Það varð úr þessu mikið hneyksli þegar Steingrímur Hermannsson sjávarútvegsráðherra sagðist hafa verið plataður til að leyfa mér að koma með skipið. Þá hafði komið á daginn að það vantaði upp á að það væri tonn á móti tonni til að fullnægja reglum um að ég mætti flytja inn skipið. Ég hafði gefið upp eldri mælingu vegna Sæhrímnis sem leiddi af sér að það vantaði nokkur tonn upp á. En þarna fékk ég strax aðra útgerðarmenn upp á móti mér. Augu Kristjáns Ragnarssonar, þáverandi framkvæmdastjóra LÍÚ, beindust að mér. Áratugalangt stríð þeirra við mig hófst,“ segir Níels. 

Afinn
Afinn Hér er Níels með tveimur af barnabörnum sínum, Tristan Erni og Alexander Hrafni Ársælssonum.

Tekinn af varðskipi

Eftir heimkomuna til Íslands hófst strax undirbúningur til að fara á veiðar. Það var mikils virði að geta veitt upp á grunnslóð, inni í svokölluðum hólfum. Þar giltu ákveðnar reglur um stærð skipa og afl véla þeirra. Vél Einars Benediktssonar hafði verið mæld 910 hestöfl þegar dælur og búnaður var kominn við hana. Aftur á móti var hún yfir 1000 hestöfl á gólfi verksmiðjunnar sem framleiddi hana en þá var enginn búnaður við hana. Út frá þessu gekk Níels þegar hann hóf veiðar inni í hólfi út af Vík í Mýrdal. 

„Ég taldi mig hafa fullan rétt á að veiða upp að 4 sjómílum þar sem vélin væri innan við 1000 hestöfl. Þessu var Siglingamálastofnun ósammála og sendi Landhelgisgæsluna til að stöðva mig. Ég var í mokveiði þegar flugvélin kom og kallaði mig upp og fyrirskipaði mér að hætta veiðum og halda þegar til hafnar. Ég þvertók fyrir það og sagðist vera í fullum rétti. Flugvélin sveimaði yfir mér í tvo tíma og þeir reyndu að fá mig til að hætta veiðum. Ég gaf mig ekki. Þá gáfust þeir upp og kölluðu til varðskip,“ segir Níels. 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár