Natacha Bouchart, borgarstjóri frönsku borgarinnar Calais, lét nýlega þau orð falla að matargjafir til flóttafólks ógnuðu hreinlega öryggi borgarinnar. Orð borgarstjórans vöktu skiljanlega athygli og rötuðu í helstu fjölmiðla heims. Bouchart sagði þetta í tilraun sinni til þess að útskýra hvers vegna borgaryfirvöld hefðu brugðið á það ráð að leggja blátt bann við því að einstaklingar og sjálfboðaliðasamtök færðu hungruðu fólki á svæði nærri borginni matargjafir.
En þessi tilskipun borgarstjórans sprettur ekki upp í einhverju tómarúmi. Frönsk yfirvöld hafa undanfarna mánuði verið að sækja sjálfboðaliða til saka fyrir svokallaða samstöðuglæpi, fyrir það að sýna flóttafólki samstöðu og aðstoða það í erfiðleikum sínum. Í ítarlegri umfjöllun Al Jazeera um málið er til að mynda greint frá máli landafræðiprófessorsins Pierre Mannoni sem var sóttur til saka fyrir það eitt að hafa keyrt þremur slösuðum eritreskum unglingsstúlkum á spítala.
Franski ólífubóndinn Cédric Herrou var svo í síðasta mánuði dæmdur til að greiða 3.000 evrur í sekt fyrir að aðstoða flóttafólk við að komast til Frakklands. Herrou, sem á ólífubúgarð í dal sem liggur að landamærum Ítalíu, aðstoðaði flóttafólk við að komast yfir landamærin til Frakklands og hýsti það meðal annars á búgarði sínum.
„Ef við þurfum að brjóta lögin til þess að hjálpa fólki þá gerum við það,“ sagði hann meðal annars við stuðningsmenn sína á meðan á réttarhöldunum stóð. „Það er hlutverk okkar að hjálpa aðstoða fólk við að komast hjá hættum og þessi landamæri eru hættan,“ sagði hann og bætti við að gjörðir hans væru einfaldlega byggðar á því að verja mannréttindi.
Athugasemdir