Bátur lónar úti fyrir Galtarvita. Hann er að koma með vistir fyrir ferðahóp sem dvelur í vitavarðarhúsinu. Það er þungt í sjóinn og brimaldan brotnar á ströndinni. Bátsverjar hika. Þeir gera tilraun til að komast í gegnum brimgarðinn en snúa jafnharðan við. Ólafur Jónasson stendur í fjörunni og bíður átekta. Loks gefast þeir á bátnum upp. Þeir fleygja vistunum í sjóinn og sigla á brott. Ólafur fylgist áhyggjufullur með kassa og sjópoka velkjast um í sjónum. Góssið nálgaðist land en síðan hreyfðist ekkert. Ólafur hikar ekki andartak. Hann göslar út í ískalt hafið og er kominn upp undir hendur þegar hann nær taki á kassanum sem hefur að geyma kjöt og kál fyrir svanga ferðamenn. Hann bröltir á land um hála steina og í gegnum þaravöndla. Hann glottir þegar hann lýsir því að svona væri þetta oft við ysta haf, ófært á land. En hvernig byrjaði þetta allt saman?
„Ég sá auglýsingu í blaði þar sem jörðin og húsin að undanskildum sjálfum vitanum var til sölu. Ég hafði aldrei komið í vitann og vissi lítið um hann. En ég gat ekki hætt að hugsa um þetta og skilaði inn tilboði,“ segir Ólafur Jónasson leikmyndahönnuður sem árið 2000 keypti jörðina Keflavík með öllum húsakosti. Undanskilinn er sjálfur Galtarviti sem er í eigu ríkisins.
Jörðin, sem er í dalverpi við litla vík milli Súgandafjarðar og Skálavíkur, er án allra vegasamgangna. Helsta samgönguleiðin er af sjó eða um fjörur eða fjall frá Súgandafirði eða Skálavík. Það ferðalag tekur í það minnsta þrjár klukkustundir við bestu skilyrði. Þegar Ólafur setti inn tilboðið hafði jörðin um árabil verið í eyði. Fyrir mörgum var það óðs manns æði að kaupa jörðina sem er algjörlega einangruð í verstu veðrum og þá aðeins fær fuglinum fljúgandi.
Lífróður á bátsskel
Ólafur ólst upp á Ísafirði og bjó þar til 24 ára aldurs. Hann vissi því af Galtarvita án þess að hafa komið þangað. Staðurinn hafði yfir sér blæ dulúðar.
„Maður hlustaði á veðurfréttir þar sem Galtarviti var nefndur. En ég vissi svo sem lítið annað um vitann en það að hann var einhverstaðar að fjallabaki, nálægt Bolungarvík,“ segir Ólafur.
Nokkru eftir að hann sendi inn tilboð í jörðina barst honum svar.
„Mér var tilkynnt að gengið hefði verið að tilboði mínu. Ég hafði 10 daga til að taka endanlega ákvörðun um það hvort ég keypti. Ég ákvað að fara og sjá eignina í fyrsta sinn,“ segir Ólafur.
Þetta var í nóvembermánuði og veturinn að læðast að. Hann fékk félaga sinn, Hermann Þorsteinsson, til að sigla með sig frá Súgandafirði og fyrir Gölt að Galtarvita þar sem hann ætlaði að dveljast í nokkra daga og kynnast staðnum. Á leiðinni horfði hann á kolsvarta hamrana sem gnæfðu yfir stórgrýttri fjörunni. Sumstaðar var fjaran á kafi og aðeins hátt bjargið að sjá. Þarna höfðu vitaverðir gengið um en þurftu að gæta þess að fara um á fjöru. Ólafur segir að sú stund þegar hann sá vitann hafi verið mögnuð. Það gekk þó ekki áfallalaust að komast í fjöruna.
„Ég réri hálfgerðan lífróður í land á litlum báti. Ég fékk yfir mig gusu og lenti í sjónum. Það var ekki beinlínis slæmt í sjóinn en þó kom ein og ein alda. Þá gerði ég þau mistök að lenda á röngum stað í fjörunni. Ég var auðvitað að koma þangað í fyrsta sinn og vissi ekki betur,“ segir Ólafur.
Svaf úti
Ólafur kom bátnum á þurrt og brölti upp í fjöruna. Farangur hans var blautur. Þetta var ekkert sérstaklega góð byrjun. Hann fór heim í húsið og skoðaði sig um. Í Galtarvita er ljósavél en Ólafur kunni ekkert á hana. Það var ískalt í húsinu og Ólafi leist ekki á að sofa þar.
„Ég vissi ekki hvernig ætti að koma ljósavélinni í gang. Það var því ekki hægt að koma ljósi á húsið. Ég ákvað því að sofa úti. Ég náði í rekavið og hlóð bálköst í húsgrunni. Svo kveikti ég eld og bjó um mig undir berum himni. Ég kom fyrir eldhúsborði til að skýla mér. Þetta var mögnuð nótt. Norðurljósin dönsuðu á himninum og ég sofnaði við sjávarhljóðin,“ segir Ólafur.
Hann vaknaði síðan reglulega um nóttina þegar eldurinn var að kulna. Þá bætti hann á eldinn og hélt áfram að sofa. Eftir heimsóknina á Galtarvita hélt hann aftur til byggða. Að þessu sinni fór hann um fjallið og kom niður um Bakkaskarð til Skálavíkur.
„Ég lenti í dálitlu basli á heimleiðinni. Það var talsverður snjór og færið þungt. Þá bætti ekki úr skák að ég fór í rangan dal og þurfti að klífa snarbratta hlíðina. Ég var nánast örmagna þegar ég náði upp á toppinn. En ég fann Bakkaskarð og komst niður í Skálavík. Svo komst ég til byggða, angandi eins og brennuvargur eftir að hafa sofið við bálið,“ segir Ólafur.
„Ég ákvað því að sofa úti. Ég náði í rekavið og hlóð bálköst í húsgrunni. Svo kveikti ég eld og bjó um mig undir berum himni.“
Eigandi vitajarðar
Það var ekki aftur snúið eftir heimsóknina. Ólafur var orðinn hugfanginn af vitanum og staðfesti kauptilboðið.
Athugasemdir