Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

„Hlutirnir fara nákvæmlega eins og þeir eiga að fara“

Mánu­dags­morg­un­inn eft­ir að loka­þátt­ur Ófærð­ar var sýnd­ur í sjón­varp­inu gekk Lilja Nótt Þór­ar­ins­dótt­ir leik­kona út úr hús­inu sínu og fannst sem all­ir væru að horfa á sig. Kvöld­ið áð­ur komst þjóð­in loks­ins að hinu sanna um það sem gerð­ist raun­veru­lega í af­skekkta svefn­þorp­inu úti á landi og var að­ild Maríu, sem leik­in var af Lilju, lík­lega það sem kom helst á óvart. Lilja stapp­aði í sig stál­inu, sagði sjálfri sér að skrúfa sjálf­hverf­una að­eins nið­ur, eng­inn væri að pæla í þessu og gekk af stað til vinnu. Í þann mund sem hún var að finna gleð­ina á ný var bíl­rúða skrúf­uð nið­ur og kall­aði á eft­ir henni: „Morð­ingi!“

„Hlutirnir fara nákvæmlega eins og þeir eiga að fara“

Þarna var að vísu á ferð Ilmur Kristjánsdóttir, leikkona og samstarfskona Lilju í Ófærð, en því verður ekki neitað að fátt íslenskt sjónvarpsefni hefur hlotið viðlíka athygli og Ófærð. Það má því leiða líkum að því að fleiri hafi horft í áttina að Lilju Nótt þennan dag. Svo virtist sem öll þjóðin sæti við skjáinn á sunnudagskvöldum, sem sást meðal annars á vatnsnotkun borgarbúa og fyrirferðamikilli umræðu á samfélagsmiðlum. 

„Það var svo fallegt að um leið og þátturinn var búinn hringdi mamma í mig. Móðurhjartað er svo sterkt að hún fór strax að réttlæta gjörðir dóttur sinnar. Hún sagði við mig að ég væri ekki morðingi, heldur hefði ég aðeins verið að hreinsa til á jörðinni. Hann hafi átt þetta skilið. Það tók hana svona langan tíma að réttlæta það að dóttir hennar hefði framið morð,“ segir Lilja Nótt og smellir fingrum. „Ég benti henni góðlátlega á að þetta hafi nú ekki gerst í alvöru.“

Leikararnir plottuðu í rútunni

Sjálf gerði Lilja sér ekki grein fyrir því hversu veigamikið hlutverk Maríu var þegar hún var ráðin. „Líkt og allir leikararnir þá fékk ég lágmarks upplýsingar um söguþráðinn,“ segir hún. „Það var síðan um páskana í fyrra að ég fékk símtal frá Sigurjóni Kjartanssyni. Ég man meira að segja hvar ég var stödd þegar hann hringdi. Ég hafði verið í sveitinni um páskana og var fyrir utan Olíssjoppuna hjá Rauðavatni. Ég fékk algjört flisskast í bílnum, því ég held að allir leikararnir í hópnum hafi verið búnir að finna út hvernig þeir gætu mögulega verið morðinginn, nema ég. Hún er fræg sagan af danska leikaranum sem lék morðingjann í Forbrydelsen en hann fékk ekki að vita að hann væri morðinginn fyrr en síðasti þátturinn var tekinn upp. Hann varð alveg brjálaður og sagði að hann hefði leikið þetta allt öðruvísi ef hann hefði vitað sannleikann. Þess vegna voru allir leikararnir í Ófærð mjög meðvitaðir og undirbúnir - það ætlaði enginn að láta þetta koma sér á óvart. Það gat verið mjög gaman í rútunni að heyra alla plotta hvernig þeir gætu mögulega verið morðinginn.“ 

Eins og frægt er orðið þá fengu afar fáir í tökuliðinu að vita hvernig þættirnir myndu enda. Eftir að Lilja fékk símtalið örlagaríka upphófst heilmikill samkvæmisleikur meðal leikaranna þar sem þeir reyndu að veiða upp úr hver öðrum upplýsingar. „Menn gengu meira að segja svo langt að þykjast vita eitthvað til þess að reyna að fiska. Ég ákvað að segja ekkert, því ég vissi ekkert hverjir vissu raunverulega eitthvað og hverjir voru að þykjast.“

Ósigrandi og alvitur

Lilja Nótt ólst upp á bænum Eyvík í Grímsnesi. Ein af hennar fyrstu minningum úr sveitinni er þar sem hún sat á hestagerði og söng tímunum saman fyrir hestana lag úr þá nýlegri kvikmynd - Gremlins. Lilja hefur frá blautu barnsbeini haft þörf fyrir listsköpun og þó svo að áhorfendahópurinn hafi bæði breyst og stækkað með árunum, er ástríðan fyrir söng og leiklist hin sama. „Ég var til dæmis alltaf að semja ljóð og flytja. Í sveitinni er enn fólk, vinir mömmu og pabba, sem eiga ljóð eftir mig uppi á vegg frá því ég var kannski tíu ára gömul.“

Lilja segir að því hafi fylgt mikið frelsi að alast upp í sveit. „Ég er mjög heppin að hafa náð því að hafa alist upp á sveitabæ þar sem voru kýr, hestar, kindur og hænur, baggar og heyskapur á sumrin, og æðisleg rómantík. Við krakkarnir vorum alltaf úti að leika okkur og komum ekki inn fyrr en í okkur var kallað. Ég varð hins vegar að flytja mjög ung í bæinn til þess að fara í skóla því sveitaskólinn var aðeins upp í áttunda bekk. Mig langaði að prófa eitthvað nýtt þannig ég flutti í Mosfellsbæ til bróður hans pabba og bjó þar í tvö ár. Það er skrítið að hugsa til þess núna að ég hafi verið hálf flutt að heiman svona ung. Nú á ég dóttur sjálf og myndi aldrei sætta mig við að hún þyrfti að fara svona ung að heiman.“

Þrátt fyrir ungan aldur segist Lilja ekki hafa átt mjög erfitt með að flytja úr foreldrahúsum. „Ég var svo mikil gelgja,“ útskýrir hún. „Unglingum finnst þeir gjarnan vera ósigrandi og alvitrir, og ég var algjörlega þar. Ósigrandi og alvitur. Þessi tvö orð lýsa mér ágætlega á aldrinum 13 til 16 ára.“ 

Þorði ekki að sækja um

Föðurafi Lilju var leiksviðsstjóri í Þjóðleikhúsinu og kynnti hana fyrir leikhúsinu á unga aldri. Eftir það var ekki aftur snúið. „Ég var alveg heilluð,“ segir hún, en Lilja var mjög virk í leiklistinni bæði í gagnfræðaskóla og menntaskóla. Þá fékk hún hlutverk í kvikmyndinni 101 Reykjavík eftir Baltasar Kormák einungis 21 árs gömul. Þrátt fyrir að vera staðráðin í að leggja leiklistina fyrir sig sótti Lilja ekki um Leiklistarskólanum strax að loknum menntaskóla. „Ég held ég hafi verið hrædd við að sækja um,“ segir hún. „Á meðan maður sækir ekki um þá fær maður allavega ekki neitun. Um leið og þú sækir um þá er alltaf hætta á að þú fáir nei.“

Eftir að hafa þvælst um heiminn í nokkur ár sótti Lilja hins vegar um í leiklistarskóla í Bretlandi og fékk inngöngu. Á sama tíma fékk hún hlutverk í kvikmyndinni Strákunum okkar eftir Róbert Douglas og fékk leyfi til að fresta náminu um eitt ár svo hún gæti leikið í myndinni. „Ég hugsaði líka með mér að ég gæti verið heima og safnað smá pening, því það er auðvitað dýrt að fara í nám úti. En vegna þess að ég var komin inn úti, og það voru einmitt inntökupróf hér heima, þá ákvað ég að prófa að sækja hér um. Ef ég fengi neitun þá væri ég hvort eð er að fara í nám úti. En ég komst inn hér og valdi að fara í nám á Íslandi. En ég þurfti alveg að hugsa mig vel um.“

Snæfríður Íslandssól
Snæfríður Íslandssól Lilja lék Snæfríði Íslandssól í Íslandsklukkunni í uppsetningu Benedikts Erlingssonar stuttu eftir að hún útskrifaðist úr Leiklistarskólanum.

Hún segir það á endanum hafa verið draumurinn um að vinna í Þjóðleikhúsinu sem hafi gert útslagið, en þaðan átti hún sínar fyrstu minningar úr leikhúsi. „Á þeim tíma var líka erfiðara fyrir krakka sem voru að koma að utan að fá vinnu hér heima, en það hefur breyst mjög hratt. Ég hef alveg pælt í því eftir á, þegar ég horfi til dæmis á Heru Hilmars og Heiðu Rún, hvernig ferillinn minn hefði orðið ef ég hefði farið út í nám. En ég hef mikla trú á því að hlutirnir fari nákvæmlega eins og þeir eigi að fara. Það er auðvitað fullkomlega tilgangslaus æfing að velta því fyrir sér hvað hefði gerst ef þú hefðir tekið aðrar ákvarðanir, því þú hefur ekki hugmynd um hvað hefði gerst. Ég trúi að við þurfum að velja og hafna og taka ákvarðanir sem á endanum reynast yfirleitt réttar.“

Komst á bragðið með eigið efni

Lilju gekk vel í náminu og bauðst samningur í báðum stóru leikhúsunum við útskrift. Ástæðan fyrir því að hún valdi að lokum Þjóðleikhúsið var að henni bauðst að leika Snæfríði Íslandssól í uppsetningu Benedikts Erlingssonar á Íslandsklukkunni. „Ég held að engin íslensk leikkona hefði valið annað,“ segir hún. „Fyrsta árið mitt eftir útskrift var mjög spennandi. Ég fékk hlutverk hjá Kristínu Jóhannesdóttur leikstjóra og einnig í uppsetningu Balta á Gerplu, sem er örugglega skemmtilegasta leiksýning sem ég hef tekið þátt í. Eftir þetta fyrsta ár var mjög erfitt að fá ekki áframhaldandi samning og það var ákveðin höfnunartilfinning sem fylgdi því. Fljótlega var ég hins vegar farin að vinna í mínu eigin efni.“

Í kjölfarið stofnaði Lilja meðal annars leikhópinn SuðSuðVestur ásamt öðrum sem setti upp sýninguna Eftir lokin í Tjarnarbíói árið 2011. „Það kom mér á óvart hvað ég fékk mikið út úr því að gera þetta sjálf. Víman var öðruvísi, kikkið sem maður fær og kitlið sem nærir litla leikarann í manni. Það eru ákveðin þægindi sem fylgja því að vinna í leikhúsi. Þú getur einbeitt þér algjörlega að þínum karakter og færð þín laun fyrir það. Það er meira hark hinum megin. Þú þarft sjálfur að taka ábyrgð á öllu, en að sama skapi átt þú mikið meira í verkinu. Þetta tókst mjög vel hjá okkur og ég komst á bragðið með að gera mitt eigið efni.“

Fann ástina í vetrarfríi í London

Lilja kynntist sambýlismanni sínum, Ólafi Gauta Guðmundssyni, þegar hún var í leiklistarnáminu. Gauti er hins vegar ekki leikari, heldur hugbúnaðarverkfræðingur og rekur hugbúnaðarfyrirtækið Bókun. „Við kynntumst þegar ég var í vetrarfríi í London árið 2006,“ segir Lilja. „Ég var tiltölulega nýhætt með strák og það var búið að vera mikið að gera í skólanum. Mig langaði að fara ein til útlanda, fara í leikhús og hafa gaman. Ég held ég hafi verið búin að vera í London í fjóra klukkutíma þegar ég kynntist Gauta.“

Lilja hafði fengið gistingu hjá vini sínum í London og Gauti reyndist meðleigjandi hans. „Talandi um að hlutirnir fari eins og þeir eigi að fara,“ segir hún, „þá seinkaði flugvélinni minni mjög mikið á leiðinni út. Ég átti að vera komin klukkan fimm en var ég ekki komin fyrr en á miðnætti. Í staðinn fyrir að fara út að hitta eitthvað fólk, eins og ég ætlaði að gera um kvöldið, þá ákváðum við Kjartan, vinur minn, að opna okkur hvítvínsflösku og vera bara heima að spjalla. Nokkrum tímum síðar kom Gauti heim og þetta endaði á því að verða mjög skemmtilegt kvöld. Við fórum í handstöðukeppni, danskeppni og vorum bara þrjú að djamma til klukkan sjö um morguninn. Við Gauti enduðum á rosalegu spjalli og fljótlega eftir að við hittumst byrjuðum við síðan saman.“

Ósýnileg í beige-litum

Lilja Nótt og Gauti eignuðust dótturina Emmu í nóvember árið 2013. Emma var því ekki nema tveggja og hálfs mánaða gömul þegar Lilja fór í prufu fyrir hlutverk Maríu í Ófærð. „Flestar mæður kannast við þetta tímabil þegar maður er glæný móðir, enn svolítið bólgin og ekkert búin að sofa sérstaklega mikið. Maður er allur einhvern veginn á taugum, tilfinningarnar alveg á fullu, maður passar ekki almennilega í fötin sín og brjóstin á manni eru bara einhvers staðar. Þannig var ég þegar ég fór í prufuna fyrir Ófærð,“ segir Lilja og hlær við tilhugsunina. „Sjálfri fannst mér ég vera mjög fín, ég málaði mig og allt, en frétti síðan seinna að það hafi hjálpað mér að landa hlutverkinu hvað ég var þreytuleg í prufunni.“

Líkt og aðdáendur Ófærðar muna þá lék Lilja hlutverk Maríu, einstæðrar móður sem hafði átt afar erfiða ævi. Faðir hennar, Leifur, var virtur í samfélaginu en hafði átt Maríu í framhjáhaldi. „Það var viljandi gert að hafa alla búningana mína í beige-litum. Litarhaft mitt er þannig að ef ég fer í beige-liti þá hverf ég nánast. Þetta var gert svo María yrði eins ósýnileg og hægt væri. Hún var þarna, en fólk tók varla eftir henni.“

Í hlutverki Maríu
Í hlutverki Maríu Lilja Nótt í hlutverki sínu sem María í spennuþáttaröðinni Ófærð, ásamt Jóni Arnóri Péturssyni töframanni og leikara.

Grét heilan dag í yfirheyrsluherberginu

Ætlunarverk höfundanna tókst og það fór ekki mikið fyrir Lilju Nótt í fyrstu þáttunum. Hún átti hins vegar magnþrungin atriði í síðasta þættinum. „Þetta voru rosalegir dagar þegar við vorum að skjóta þessar senur,“ segir Lilja. „Hálfur dagur fór bara í slagsmálin en áður en við byrjuðum að taka upp fórum við í Mjölni og æfðum okkur. Svo grét ég í heilan dag í yfirheyrsluherberginu og var síðan í tvo daga að jafna mig á því. “

Aðspurð hvernig hún hafi undirbúið sig fyrir hlutverkið segir Lilja það hafa hjálpað að vera sjálf búin að eignast barn. „Ég átti mjög auðvelt með að setja mig tilfinningalega inn í hlutverkið. Verandi móðir þá er til dæmis mjög erfitt að lesa um eitthvað sem kemur fyrir lítil börn, því það fer einhvern veginn beint inn í mann. Þá var mjög auðvelt að yfirfæra þessar tilfinningar yfir á þennan dásamlega dreng, Jón Arnór, sem lék son minn í þáttunum. Hann er svo mikið yndi og það er svo auðvelt að þykja vænt um hann í alvörunni. Þegar ég ímyndaði mér að þetta væri að koma fyrir mitt eigið barn þá byrjuðu tárin bara að flæða.“ 

Fyrsta íslenska læknadramað

Lilja vinnur nú að því að setja upp allar Íslendingasögurnar fyrir ferðamenn í samstarfi við Jóhann G. Jóhannsson og Ólaf Egil Egilsson. Settar verða á svið fjörutíu Íslendingasögur, á 75 mínútum og á ensku, í Norðurljósasal Hörpu í sumar en þríeykið stofnaði fyrirtækið Welcome Entertainment, ásamt einum fjárfesti, í nóvember síðastliðnum sem mun halda utan um sýninguna og mögulega einhver framtíðarverkefni. 

Íslendingasögurnar á 75 mínútum
Íslendingasögurnar á 75 mínútum Lilja Nótt vinnur nú að uppsetningu fjörutíu Íslendingasagna ásamt Jóhanni G. Jóhannssyni og Ólafi Agli Egilssyni. Sýningin verður sýnd, á 75 mínútum og á ensku, í Norðurljósasal Hörpu í sumar.

Að auki fékk Lilja nýverið tvo handritsstyrki frá Kvikmyndasjóði til þess að skrifa og þróa fyrstu íslensku dramaþættina um líf og störf íslenskra lækna. Þetta verður jafnframt í fyrsta skipti sem Lilja skrifar fyrir sjónvarp. „Ég hef verið að vinna að þessum þáttum samhliða öðrum verkum í um fimm ár,“ segir Lilja. „Sjálf er ég umkringd fólki í heilbrigðisstéttinni og hef mikinn áhuga á þessum málaflokki. Í gegnum þá vinnu hef ég verið að tala við lækna og fá sögur. Þær eru stundum svo ótrúlegar að maður trúir því ekki að þetta hafi gerst í alvöru.“ 

Hún segir þættina koma á heppilegum tímapunkti því íslenska heilbrigðiskerfið hefur sjaldan verið jafn mikið á milli tannanna á fólki. „Þættirnir munu endurspegla íslenskan raunveruleika og fjalla um lækna sem eru að díla við niðurskurð og biluð tæki. Þetta verður ekki íslenskt Grey’s Anatomy, ég er búin að lofa því, heldur meira í ætt við Nordic Noir þætti á borð við finnsku þættina Nurses, sem eru töluvert ólíkir bandarísku sjónvarpsefni.“

Komin á draumastaðinn

Lilja segist loksins vera komin á þann stað í lífinu að hún geti sagt að allir hennar helstu draumar hafi ræst.  

„Maður býr sér til ákveðna hugmynd um draumana sína og hvenær þeir muni rætast. Minn draumur var alltaf að komast á þann stað sem leikkona að geta valið úr verkefnum. Ég ímyndaði mér að það væri vegna þess að verkefnin væru svo mörg að ég þyrfti að velja og hafna, því ég gæti ekki gert allt. Svo fattaði ég, sérstaklega eftir að ég eignaðist Emmu dóttur mína, að ég var komin á þennan stað. En hann leit allt öðruvísi út en ég bjóst við. Mér hefur tekist að brjótast út úr hræðslunni sem fylgir því að þora ekki að segja nei, heldur vel ég mér verkefni sem ég vil taka þátt í. Því fylgir mikið frelsi,“ segir Lilja. 

Hún segir starfsóöryggið sem íslenskir leikarar búa við gera það að verkum að fólki hætti til að rífa sig niður. „Mér fannst alltaf mjög erfitt að fá ekki vinnu. Ég velti fyrir mér hvers vegna enginn vildi vinna með mér og fór í hálfgert niðurrif. Mér hlaut að hafa mistekist, ég væri greinlega ekki nógu skemmtileg og ekki nógu góð leikkona. En þegar maður býr í óttanum þá nær maður aldrei að njóta þess sem maður er að gera þá stundina. Þess vegna er svo gott að komast á þennan stað að vera öruggur með sjálfan sig og vita hver maður er sem listamaður. Þetta hljómar kannski klisjukennt en það er eiginlega ekki hægt að orða þetta öðruvísi. Ég vel mér verkefni sem gefa mér eitthvað, sem næra mig og þroska sem listamann. Í leikhúsinu ertu settur í misgefandi hlutverk en þau krefjast þess samt af þér að þú sért hundrað prósent á staðnum allan tímann. Þá ertu í rauninni að velja að fórna tíma með fjölskyldunni þinni eða þínum eigin verkefnum. Það voru því mikil tímamót fyrir mig þegar ég áttaði mig á því að ég væri komin á þennan stað - laus undan óttanum.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár