Austan Madagaskar, örlítið sunnan miðbaugs, fyrir miðju Indlandshafs, er fylki í Frakklandi, Eyjan Réunion. Þessi unga eldfjallaeyja skaut upp kollinum úr sjónum fyrir fjórum milljónum ára en er þegar þakin villtum frumskógum og sykurekrum. Mannfólk nam land fyrir einungis þrjúhundruð árum en fram að því bjuggu einungis plöntur, skordýr og fuglar á þessum tveimur eldfjöllum. Nú búa um 800 þúsund manns og helmingurinn af þeim eru múslimar sem eiga uppruna sinn að rekja til Indlands. Talsvert er þarna líka af hindúum, kaþólikkum, afkomendum þræla og Kínverjum. Þær eru ólíkar eldfjallaeyjurnar Ísland og Réunion, en eiga sumt sameiginlegt; óbyggilegar hraunbreiður og misheppnað borgarskipulag.
Á fyrsta degi mínum á eyjunni lendi ég í umferðarteppu. Klukkan er hálfsjö og eftir níu tíma flug frá París og þvert yfir Afríku er ég kominn til St. Denis.
Borgin minnir mig strax á Reykjavík. Þetta er borg sem slefar upp í 200 þúsund íbúa og meirihluti þeirra kemur akandi úr úthverfunum í átt að miðbænum á hverjum virkum degi. Þetta er mjög kunnugleg umferðarteppa fyrir mann sem ólst upp í Hafnarfirðinum, meira að segja hraunið á eyjunni er ekki ólíkt Reykjanesinu.
En fjöllin eru ótrúleg. Þrátt fyrir ungan aldur eyjarinnar skaga þau meira en tvo kílómetra upp í loftið, þakin skógum og í nágrenni St. Denis, lúxusvillum. (Við ströndina er hitastigið óbærilegar þrjátíu gráður sem gerir fjallshlíðarnar í sínum svölu tuttugu gráðum afar ákjósanlegar). Ég stari heillaður upp hlíðarnar á meðan við nálgumst gamla bæinn sem við eigum að gista í. Til stendur að sýna La mélancholie des dragons.
Segull á hákarla
Niður í leikhúsi er afslöppuð stemming, svo afslöppuð að vinnufélagar mínir sem eru vanir snarpari vinnutökum í hjá tæknimönnum í París stressast ósjálfrátt. „Af hverju er ekki búið að sækja settið úr gámunum?“ spyr leikstjórinn. „Var ekki sviðsmyndin að koma með gámaskipinu í gær?“
„Sojons Positíf,“ segir tæknistjórinn í leikhúsinu og skilur ekki. Er ekki venjan að redda hlutum seinustu klukkustundum fyrir sýningu í París líka? Af hverju förum við ekki bara á ströndina? Réunion er svo falleg, þið ættuð að fá ykkur sverðfisk og Dodo (lókal bjórinn heitir smekklega í höfuðið á Dódófuglinum útdauða sem bjó á Márítus næstu nágranneyju).
Til að vera positíf heldur hersingin af stað og í átt að einu ströndinni í nágrenni St. Denis sem öruggt er að synda við. Hermitage ströndin er mjó landræma sem nýtur góðs af því að meirihluti baðstrandartúrismans sé við St. Leu í vesturhluta eyjarinnar. Á þessu svæði er vatnið grunnt og kristaltært. Frá ströndinni sér maður nokkur hundruð metra af ljósbláu vatni þar til dökkblátt hyldýpi Indlandshafsins tekur við. Þar endar kóralrifið og við tekur sterkur hafstraumur sem er vís til að drekkja hvaða sundkappa sem er.
Ástæða þess að Réunion er ekki sú paradís sem hún lítur út fyrir að vera er sú staðreynd að hún er umlukin sterkum hafstraumum og virkar eins og
Athugasemdir