Upprætum fátækt
Á Íslandi býr enginn við þá tegund af mannskaðafátækt sem þekkist víða erlendis. Við erum sem betur fer rík þjóð sem hefur fyrir mestan part séð um sína. En fátækt er engu að síður til staðar, og afleiðingarnar eru alvarlegar.
Eftir efnahagshrunið 2008 hefur vandinn aukist. Heimilislausum hefur fjölgað, peningapyngjurnar hafa orðið léttari, og fleiri hafa sóst í vímuefni til að milda áhrifin af streitunni, óhamingjunni og óörygginu. Aldraðir eru lakar settir en áður og eru margir milli vonar og ótta óskandi þess að lífið verði skárra. Fullvinnandi fólk minnkar við sig eins og hægt er, aðallega til að geta átt fyrir nauðsynlegum lyfjum og læknisþjónustu.
Á sama tíma alast börn upp við tíðari heimilisflutninga, minni og verri næringu, og hræddari foreldra. Eftir því sem einkavæðing heilbrigðiskerfisins eykst, minnka líkurnar á því að börn sem alast upp í verkamannafjölskyldum muni fá að sjá hvernig háskólar líta út að innan. Þetta er þó ekki svona hjá öllum. En svona er þetta hjá mörgum íslendingum og þeim fer fjölgandi ár frá ári. Við getum gert betur.
Fólk sem elst upp á Íslandi á ekki að þurfa að vera hrætt um afkomu sína. Við erum ein af ríkustu þjóðum heims -- við hljótum að geta tryggt afkomu allra. En það er samt raunin að ef fyrirtæki fer á hausinn eða þarf að skera niður, og fólk verður atvinnulaust, þá á það mjög fáa valkosti. Atvinnuleysi ber með sér þunga sálfræðilega örðugleika. Sagt er að tíminn lækni öll sár, en atvinnuleysi er undantekningin: eftir því sem fólk er atvinnulaust lengur minnka líkurnar á því að það komist aftur inn á vinnumarkaðinn.
En það er hægt að minnka fátækt á Íslandi. Píratar hafa talað mikið fyrir upptöku á einhverskonar skilyrðislausri grunnframfærslu. Margir líta á það sem einhverskonar Útópíu, en það er það svo sannarlega ekki. Margar tilraunir hafa verið gerðar og þær fóru allar á einn veg.
Grunnframfærsla
Árið 2009 var gerð tilraun í London. Þrettán heimilislausir menn, sem sumir voru í harðri vímuefnaneyslu, voru einir og sér að kosta velferðarkerfið rúmlega 70 milljónir króna á ári, þegar allt var tiltekið: kostnaður lögreglu af því að hafa tíð afskipti af þeim, kostnaður heilbrigðiskerfisins af því að leysa vandamálin sem komu upp, hlutfallslegur kostnaður við rekstur gistiskýla, og þar fram eftir götunum.
Því var brugðið á það ráð í tilraunaskyni að gefa þeim hreinlega £3000 á mánuði, hverjum um sig - rúmlega hálfa milljón króna - og að auki bjóða þeim upp á ráðgjafaþjónustu. Ýmsir áttu von á því að peningarnir færu bara í súginn, en viti menn: átján mánuðum síðar voru allir búnir að taka miklum framförum. Einn sem hafði verið í heróínneyslu í tuttugu ár hætti neyslu og fór að stunda garðyrkjunám. Aðrir voru að stunda nám, farnir í meðferð, komnir í tengsl við fjölskyldur sínar, og að skipuleggja framtíðina. Sjö þeirra voru komnir með heimili, og tveir aðrir voru að fara að flytja inn í eigin íbúðir. Þeir höfðu endurheimt mannvirðingu sína. Heildarkostnaðurinn við verkefnið yfir 18 mánuði var um 12% af því sem þessir aðilar höfðu kostað kerfið á ári fram að því.
Kerfið sparaði rosalegar upphæðir, og þessir þrettán menn komust allir upp úr fátæktinni, og fátæktargildrunni. Einn mannana lagði til að mánaðarlega upphæðin yrði lækkuð í £2000, því þeir þyrftu ekki svona mikið.
Tímaritið Economist komst að þeirri niðurstöðu að skilvirkasta leiðin til að eyða peningum í heimilislausa væri að gefa þeim þá.
Maður að nafni Bernard Omondi þénaði um 240 krónur á dag við vinnu í jarðgryfju í vesturhluta Kenya. Einn daginn fékk hann skilaboð um að hann hefði fengið 60000 krónur inn á reikninginn sinn -- heil árslaun. Nokkrum mánuðum síðar var Omondi ekki hættur að vinna, heldur búinn að kaupa sér mótorhjól og farinn að vinna sem skutlari: daglegar tekjur hans höfðu fjórfaldast.
Hagfræðingurinn Charles Kennedy benti á að helsta ástæða þess að fólk er fátækt er að það á ekki pening. Þetta er það augljóst að það á ekki að koma neinum á óvart að það að veita fólki rétt til útgreiddrar grunnframfærslu gefa fólki peninga lagi vandmálið. Fræðimenn við Manchesterháskóla komust að því að framfærslupeningum er almennt vel varið, fátækt minnkar, heilsufar batnar, skatttekjur aukast, og almennt kostar grunnframfærsla minna en flóknari velferðarkerfi.
Mjög margir halda að ef allir fá gefins peninga þá muni allir hætta að vinna. Ekki það sjálft, auðvitað, bara allir hinir letingjarnir. Fjögurra ára tilraun meðal 1000 fjölskyldna í Dauphin, Kanada, leiddi í ljós að fólk stytti vinnutímann sinn lítillega: karlar um 1% á ári, giftar konur um 3%, og ógiftar konur um 5%. Álag á heilbrigðiskerfið minnkaði um 8.5% á sama tíma, sem minnkaði verulega kostnaðinn við rekstur þess.
Aðrar tilraunir sem gerðar voru meðal 8500 fjölskyldna í Bandaríkjunum sýndu svipaðar tölur. Fólk nennir alveg að vinna, og það vinnur betur þegar það er ekki að deyja úr áhyggjum.
Hvernig framkvæmum við þetta?
Rúmlega 1200 hagfræðingar skrifuðu undir grein í New York Times árið 1968, að atlagi John Kenneth Galbraith, Harold Watts, James Tobin, Paul Samuelson og Robert Lampman, þar sem þeir sögðu að "ríkið mun ekki hafa sinnt skyldu sinni fyrr en að öllum íbúum eru tryggðar tekjur sem eru ekki minni en fátæktarmörk."
Richard Nixon, af öllum mögulegum, reið á vaðið og reyndi að svara þessu kalli. Það var vegna ósamstöðu í öldungardeild bandaríkjanna sem málið var ekki klárað: á hægrivængnum óttuðust menn að hagkerfið færi á hliðina, þrátt fyrir allar rannsóknirnar, og á vinstri vængnum fannst sumum ekki nógu langt gengið og vildu frekar gera ekkert.
Það dylst engum að það er dýrt að taka upp svona kerfi, og það eru fullt af vafamálum um hvernig er best að fara að. Því er ekki galið að fara sér hægt.
Í stað þess að fara strax yfir í það kerfi að allir fái sjálfvirkt fasta upphæð mætti innleiða það í skrefum. Fyrsta skrefið væri upptaka á neikvæðum tekjuskatti. Það virkar þannig að ef fólk er með tekjur yfir ákveðnum viðmiðunarmörkum borgar það skatt af tekjum yfir þeim mörkum eins og vanalega -- sama og persónuafsláttur í dag. En breytingin er að ef fólk hefur tekjur undir þeim mörkum, þá fær það greitt frá ríkinu upp á móti.
Tökum dæmi um að viðmiðunarmörkin væru 200.000 krónur (bara til að velja einhverja tölu), og bótahlutfallið væri 80% (aftur, til að velja tölu). Einhver sem væri algjörlega atvinnulaus fengi þá 80% af 200.000 krónum, eða 160.000 krónur á mánuði frá ríkinu -- sambærilegt við atvinnuleysisbætur. En eftir því sem tekjurnar aukast minnka áhrif neikvæða tekjuskattsins. Einhver sem væri með 90.000 í mánaðartekjur fengi þá 88.000 krónu uppbót frá ríkinu, og sá sem væri með 190.000 krónur fengi þá 8.000 króna uppbót. Almenna reikningsreglan væri: (viðmiðunarmörk - tekjur) * bótahlutfall. (Athugið samt að þetta á bara við þegar tekjur eru undir viðmiðunarmörkum! Annars er greiddur tekjuskattur, í stað þess að fá hann greiddan!)
Svo er hægt að flækja þetta með ýmsu móti, eins og er nánast öruggt að einhver muni reyna að gera.
Kostnaðurinn af þessu yrði sennilega minni en kostnaðurinn af atvinnuleysistryggingum, og mætti fjármagna mestmegnis á sama hátt (eða skipta tryggingargjaldi út fyrir breytingar á almennum tekjuskatti). Helstu eiginleikarnir eru að það væri minni yfirbygging, minni skriffinska, aukin samfélagsréttindi einstaklinga ásamt minni skömm og minna mótlæti, og einna helst væri engin skerðing sem kæmi til fyrir þá sem tækju að sér hlutastarf, hvort sem það væri með skóla eða annað. Það myndi alltaf borga sig að vinna meira í þessu kerfi. Það þýðir að margir sem eru í fátæktargildru núverandi kerfis hefðu fengu tækifæri til að koma undir sig fótunum og skapa verðmæti fyrir samfélagið.
Það mætti byrja á því að taka þetta kerfi upp í stað atvinnuleysisbóta og grunnframfærslu örorkubóta, auk þess sem þetta myndi taka við af framfærslustyrk sveitarfélaga. Hér er einungis átt við framfærslutekjur, ekki aðra þætti. Lyf, hjálpartæki og annar kostnaður yrði áfram hluti af almannatryggingum. Nákvæmar tölur um þetta allt þyrfti líka að kanna betur, en þetta er allaveganna hugmyndin.
Það þarf að öllum líkindum að gera nokkrar tilraunir og sjá með hvaða hætti er hægt að stilla þetta af þannig að allir komi vel frá borði án þess að hægt sé að misnota kerfið, en það eru útfærsluatriði sem má ræða um síðar. Helsti gallinn við þessa nálgun er að það er ekki búið að taka hana upp fyrir löngu.
Athugasemdir