Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Ragnarök verkamannastéttarinnar

Í dag fór ég í árlegu kröfugönguna, stóð í grenjandi rigningu og hlustaði á ræður. Sumt var yfirlætisfullt hjal um verkalýðsbaráttuna, aðrir voru öflugir. Ellen Calmon og Ragnar Þór Ingólfsson voru frábær á litla sviðinu ─ merkilegt að þau fengu hvorugt að komast á stóra sviðið, þar sem voru minni spámenn. Ég sá hvergi Gylfa. Fannst líka pínlegt að heyra verkalýðsforingja nota gamla slagorð fasista (og Sjálfstæðismanna) “stétt með stétt” án þess að vottaði fyrir kaldhæðni. Ég stakk af áður en Gunnar Smári fór að röfla. Veit ekki hvað hinn nýsmurði messías félagshyggjunnar var að vilja upp á dekk á verkalýðssamkomu, og nennti ekki að komast að því.

Enginn ræðumanna dagsins rifjaði upp atburðina sem urðu til þess að 1. maí varð baráttudagur verkalýðsins, því það þykir ekki fínt að tala um öll mannslífin sem það kostaði að stytta vinnudaginn niður í 8 klukkustundir. Öllum finnst sú mannvirðing sjálfsögð orðið. Í staðinn var passlega prúð ganga og passlega snyrtilegar ræður voru haldnar. Nallinn var sunginn, og Maístjarnan. Lúðrasveit Verkalýðsins tók Stál og Hnífur, helvíti flott.

En úff samt.

Verkalýðurinn á Íslandi á sannarlega við minna bágt að etja en víða annarsstaðar, þar sem sjálfsögð mannréttindi eru algjörlega ótryggð. Hér er deilt um prósentur og sporslur en ekki um grundvallaratriði. Verkalýðsfélög eru sum hver mikið til leigufélög fyrir sumarbústaði ─ AirBnb almúgans. Mikið af því sem þau gera sést samt aldrei á yfirborðinu, mikilvæg vinna sem kraumar undir. Á yfirborðinu er baráttuandinn lítill og baráttumálin virðast lítilfjörleg.

Ýmis vandamál eru þó í aðsigi, vandamál sem hafa að geyma ótal tækifæri, sé þeim svarað af festu. Sjálfvirknivæðing, gervigreind, hækkaður meðalaldur almennings, lengri líftími fólks og aukið flæði fólks um heiminn. Allt getur þetta verið gott eða slæmt, eftir því hvernig við bregðumst við. Ríkisstjórnin virðist ætla að bregðast við þessu eins og öðru með aðgerðarleysi, og þótt flest hafi verið rétt sem ræðuhaldarar dagsins sögðu þá var sjóndeildarhringurinn upp á tíu mánuði frekar en tíu ár.

Verkalýðshreyfinguna, rétt eins og ríkisstjórnina, skortir framtíðarsýn. Það er eins og að með upptöku 8 tíma vinnudags hafi endanlegu réttlæti verið náð í heiminum og ekkert eftir til að berjast fyrir nema prósentur og sporslur. Vissulega eru verkalýðsfélögin dugleg við að viðhalda mikilvægum grunnréttindum fólks, en þetta er í lok dags mestmegnis prósentur og sporslur.

Á meðan við stóðum á Ingólfstorgi og Austurvelli (eða með Wobblies á Lækjartorgi) og hlustuðum á framtíðarsýn fortíðarinnar unnu gervigreindir hörðum höndum að því að læra að ýta mannfólki út af markaðnum. Öll fyrirtæki sem eru þess megnug leitast við að skipta út starfsfólki (sem vinnur dýrum dómi átta tímana sína til að borga leiguna og yfirvinnu til að eiga svo fyrir mat) fyrir þjarka sem vinna þrotlaust og kauplaust allan sólarhringinn ef þess þarf.

Ragnarök verkamannastéttar eru á næsta leyti, og fólk atast yfir prósentum. Mikilvægum prósentum, vissulega, en tíu auka prósent af engu er samt ekkert.

Ef framtíðarsýnin væri nokkur væri krafa um að færast smám saman yfir næsta áratug niður í fjögurra tíma vinnudag án launaskerðingar. Margsinnis hefur verið sýnt fram á aukna skilvirkni starfsfólks við styttri vinnudag, því einbeitingin verður betri, slenið minna, og verkviljinn eykst. Aðeins í örfáum starfsgreinum má sjá minni framleiðni, og vélmennin munu hirða þau störf á næstu árum hvort eð er.

Einnig ætti verkalýðshreyfingin að krefjast þess að almenningur njóti hlutdeildar í auðlindunum sem liggja framleiðslugetunni til grundvallar, þannig að allir njóti góðs af sjálfvirknivæðingunni. Í stað þess að verðmætin safnist saman í skattaskjólum ættu þau að vera notuð til að styrkja samfélagið okkar. Það er augljóst, sé sjálfvirknivæðingunni fylgt að rökréttum endapunkti, að hún felur í sér atvinnumissi fyrir marga, jafnvel flesta. Það þarf ekki að vera slæmt, svo lengi sem ágóðinn dreifist með eðlilegum hætti milli fólks. Annars verður þetta martröð. Skilyrðislaus grunnframfærsla er ekki lengur fyndin pæling furðufugla, heldur nauðsynlegur þáttur í framtíðinni sem við þurfum að fara að prófa okkur áfram með.

Svo er hitt. Kröfugöngur 1. maí með fullt af góðum baráttumálum eru einskis virði ef sama fólkið snýr sér svo við og kýs yfir sig sömu Sjallana með sömu einkavæðingaráformin og sömu efnahagslegu tómhyggjuna. “Stétt með stétt” auðvitað, þegar þeim hentar. Fólki var tíðrætt um heilbrigðiskerfið og húsnæðismál í dag, enda eru það grafalvarleg vandamál sem þarf að leysa. En það ætti að vera öllum ljóst fyrir löngu síðan að þau verða ekki leyst á viðunandi hátt meðan náhirð Sjálfstæðisflokksins getur grætt á viðvarandi neyðarástandi.

Það er ekki til neitt vandamál á Íslandi í dag sem væri ekki hægt að leysa með smá framtíðarsýn. Að hugsa sér: það eru nær allir Íslendingar sammála um að það þurfi að laga heilbrigðiskerfið, að það sé algjört forgangsmál, og að einkarekstur þar sé óviðeigandi. Hvernig væri þá að það væri barasta lagað, og það án einkareksturs, þannig að við getum farið að tala saman um framtíðina?

Það er löngu búið að draga allar tennurnar úr verkalýðshreyfingunni, en undanfarið hefur örlítið farið að sjást í fullorðinstennur. Vonandi að þær vaxi og baráttan fari af stað að nýju.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu