Litla Evrópa
Að hraða inngönguferli Tyrklands í Evrópusambandið er slæm hugmynd. Rökin eru margvísleg, og þá ekki síst aukin samstaða um viðbrögð við flóttamannavandanum og sterkari mótstaða gegn hernaðarbrölti Rússa. Mótrökin vega þó þyngra.
Erdoğan Tyrklandsforseti hefur í mörg ár brotið kerfislægt gegn mannréttindum. Árið 2012 voru 49 blaðamenn fangelsaðir í Tyrklandi fyrir hin ýmsu brot, þótt þeim hafi raunar fækkað undanfarið. Landið er því í harðri samkeppni við Kína um mestan fjölda fangelsaðra blaðamanna. Samkvæmt samfélagsmiðlinum Twitter bárust fimmfalt fleiri óskir frá ríkisstjórn Tyrklands um ritskoðun en frá nokkru öðru landi árið 2014. Rúmlega 78.000 vefsíður eru ritskoðaðar í Tyrklandi. Ríkisstjórn Erdoğans hefur þannig haldið í langa hefð sem hefur orðið til þess að Tyrkland tapi hverju dómsmálinu á fætur öðru fyrir Evrópudómsstól, en þeir ósigrar hafa litlu breytt.
Á dögunum "þjóðnýtti" ríkisstjórn Tyrklands svo dagblaðið Zaman. Efnistök blaðsins breyttust um leið, úr eðlilegri umfjöllun og gagnrýni um málefni hversdagsins í eitthvað allt annað. Gagnrýnisraddirnar þögnuðu.
Eftir því sem baráttan við Daesh harðnar á landamærum Tyrklands í suðri og kröfur Kúrda um sjálfstæði verða háværari verður mikilvægara að tjáningarfrelsi verði almennilega tryggt.
Evrópusambandið hefur glatað sakleysi sínu í áföngum undanfarin ár með þrengingu á fjölmiðlafrelsi í Ungverjalandi og Póllandi, aukningu á ritskoðun netsins í Bretlandi og Danmörku, og mismunun fólks á grundvelli trúarbragða nánast út um allt. Þetta er stórhættuleg braut, svo ekki sé meira sagt.
En nú stendur Evrópusambandið frammi fyrir vali. Annað hvort þarf það að standa fast gegn mannréttindabrotum, bæði innan sambandsins sem utan, eða það þarf að fórna rétti sínum til að gagnrýna mannréttindabrot þegar þau koma upp. Að mannréttindi séu aðeins virt þegar það telst heppilegt er ekki ásættanlegt.
Fyrsta skrefið að því að endurheimta virðingu Evrópu er að taka afgerandi afstöðu með mannréttindum. Svo má aftur fara að ræða hvort Litla Asía fái að vera hluti af Litlu Evrópu.
Istanbul, 8. mars 2016.
Athugasemdir