Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Fjárlagaklúðrið í haust

 

Ég er ekki ósammála Kristjáni Möller með að það muni verða klúðurslegt, séu kosningar í lok október, að reyna að koma fjárlögum í gegnum þingið eins og gert er ráð fyrir í 42. grein stjórnarskránnar. Árslok renna hratt hjá, og tveir mánuðir þar sem annar er hálfur gefur Alþingi lítið svigrúm til að klára málin, ekki síst ef ríkisstjórnarmyndun dregst á langinn.

Þó er ég ósammála honum með að það þurfi að bíða fram á vor með kosningarnar. Þegar komst upp um spillingarathæfi leiðtoga stjórnarflokkanna beggja var ljóst að það þyrfti kosningar fyrr frekar en síðar. Ég skrifaði grein þá sem talaði um nauðsyn þess að fara hægt af stað vegna þeirrar ringulreiðar sem komin væri upp, og nauðsyn þess að allir fengu tíma til að skipuleggja sig.

En þegar ég talaði um að það væri betra að bíða fram á haust, þá meinti ég samt ekki endan október. Um miðjan ágúst hefði verið fínt, og þá hefði verið hægt að mynda ríkisstjórn í september og setja reglulegt Alþingi fyrsta október eins og stjórnarskráin gerir ráð fyrir, og mögulega gefist eðlilegur tími til að setja fjárlög, þótt það yrði mikil pressa.

En ríkisstjórnin fór svo að fleygja endann október fram sem tíma fyrir kosningar, hugsanlega til þess að skapa eftirmönnum sínum mikinn hausverk.

Athugum að 42. grein stjórnarskránnar talar um "reglulegt Alþingi", sem samkvæmt 35. grein "skal koma saman ár hvert hinn fyrsta dag októbermánaðar eða næsta virkan dag ef helgidagur er og stendur til jafnlengdar næsta árs hafi kjörtímabil alþingismanna ekki áður runnið út eða þing verið rofið."

Í þessu felst að það verður ekkert reglulegt Alþingi eftir kosningar í október, né í raun fram á haustið 2017. Til að ráða meinbug á vandamálinu sem felst í því að sigla inn í árið 2017 án fjárlaga má grípa í 28. grein stjórnarskránnar sem segir að "þegar brýna nauðsyn ber til, getur forsetinn gefið út bráðabirgðalög er Alþingi er ekki að störfum", en að þau megi ekki ganga gegn stjórnarskránni. Þá skuli Alþingi staðfesta þau þegar það kemur saman, en "samþykki Alþingi ekki bráðabirgðalög, eða ljúki ekki afgreiðslu þeirra innan sex vikna frá því að þingið kom saman, falla þau úr gildi."

Dagskráin lítur því um það bil svona út:

Eftir kosningar fara einhverjar vikur og jafnvel mánuður í að mynda nýja ríkisstjórn, nema það verði þeim mun einfaldara. Á meðan á því stendur setur Forseti Íslands bráðabirgðafjárlög fyrir 2017, sem taka mið af fjárlögum 2016 en eru uppfærð eftir því sem hægt er. Fljótlega að því loknu, þó sennilega ekki fyrr en í janúar kemur nýtt þing saman og hefst handa við að gera viðeigandi breytingar á bráðabirgðafjárlögunum eins og hægt er á sex vikum og þau samþykkt í bili.

Þessi dagskrá er ekki fullkomin, síður en svo. Þetta er klúðurslegt, óhjákvæmilega. En vegna þess hve seint gengið er út frá því að kosningarnar verða sé ég ekki betri nálgun. 

Ef farin væri sú hefðbundnari leið að láta Alþingi koma saman og samþykkja fjárlög í einum grænum er í fyrsta lagi ekki víst að það takist, af ótal ástæðum, en einnig væri þá eingöngu hægt að laga galla eftirá með fjáraukalögum, sem eru eðli málsins samkvæmt takmarkaðara tæki.

Kosturinn við þetta er að þetta skapar meira andrými fyrir Alþingi en annars væri og býður upp á að einhverjar lagfæringar verði gerðar á þeim hugsunarvillum sem einkenna áherslurnar í fjárlögum núverandi ríkisstjórnar.

(Einnig gefur þessi hrókering stjórnarskrárnördum ærlegt tilefni til að poppa, en látum það liggja milli hluta.)

Hvað sem því líður stendur eitt eftir: forsætisráðherra hefur ekki enn boðað til kosninga með lögformlegum hætti, og eru allar dagsetningar óljósar ennþá. Það virðist ætla að vera markmið ríkisstjórnarinnar að skapa eins mikla ringulreið og mögulegt er, með því að gefa ekkert út opinberlega, sveipa jafnvel einföldustu málum óvissu, og skapa eins mikið af aðstæðum og hægt er til að flækja annars eðlileg ferli.

Því verður að linna. Það er algjörlega óábyrgt af ríkisstjórninni að koma ekki skýrt og heiðarlega fram varðandi skipulag kosninga í haust.

[Viðbót: Vilhjálmur Þorsteinsson bendir réttilega á að þessi tillaga hljómar mjög undarlega í þingræðisríki. Ég er sammála -- þetta er nálgun sem ætti eðlilega að valda öllum lýðræðissinnum hugarangri. Tilgangurinn með að leggja þetta fram er að hluta til til að benda á að þrátt fyrir ótrúlega undarlegt ástand er til lausn innan núverandi stjórnarskrár, og að hluta til til að draga athyglina að því hvernig núverandi ríkisstjórn virðist vilja haga hlutunum. En sá punktur má alveg fylgja sögunni að þetta undirstrikar galla núverandi stjórnarskrár ágætlega: röð atburða er furðuleg og getur verið andlýðræðisleg í ákveðnum tilvikum. Þannig að, þótt ég leggi þetta til sem drög að lausn hér og nú er ég ekki að segja að ég sé sáttur við drögin. Betri lausnir óskast. Sem og ný stjórnarskrá!]

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu