Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Fátæktarhólfin

Það hafa verið lagabreytingar í mörgum löndum og alþjóðlegir viðskiptasamningar gerðir milli margra landa undanfarna áratugi sem opna fyrir frjálst flæði fjármagns, þjónustu og varnings án þess að opna samtímis á frjálsu flæði fólks.

Þetta gefur stórum fyrirtækjum möguleika á því að fara þangað sem vinnuafl er ódýrt, og jafnvel á staði þar sem eru engar reglur sem banna þrælahald, barnaþrælkun eða launaþrælkun, og nýta náttúruauðlindir villt og galið án þess að það séu neinar mengunarvarnir eða reglur sem takmarka hversu mikið má menga grunnvatn og svo framvegis.

En athugið að þetta gefur vinnuaflinu ekki rétt á að færa sig þangað sem mengunarvarnir eru góðar og þar af leiðandi vatnið drykkjarhæft, þar sem vinnuskilyrði eru góð og þrælahald ekki leyft, þar sem laun eru há, og svo framvegis. Þannig er heiminum hólfað niður í fátæktarsvæði og auðsvæði -- fjármagnið fær að fljóta frjálst, en fólkið ekki.

Þetta er oftar en ekki kallað "frelsi" eða "frjálsræði", og talað um "frjálsa markaði". Það er mikil geggjun að halda að frjálsir markaðir geri frjálst fólk. Þvert á móti getur aðeins raunverulega frjálst fólk skapað raunverulega frjálsa markaði.

Ég er ekki endilega að segja að það eigi bara að afnema landamæri í einum rykk; það væri sennilega ekki til bóta og myndi hleypa öllu í ringulreið. En að leggja niður landamæri í áföngum eins og hefur verið gert innan ESB og Schengen og nú er farið að gera innan Afríkusambandsins, með því að tryggja frjálst flæði allra, er liður í því að jafna út stöðu almennings gagnvart risafyrirtækjum og auðmönnum.

Auðvitað er fólk sem græðir á núverandi fyrirkomulagi. Mokgræðir. Það er ekki þannig að fólk vakni á morgnanna og hugsi, "djöfull væri nú fínt að hneppa einhvern í þrældóm og láta þá eyðileggja heilsuna sína með hættulegri vinnu svo að ég geti grætt" -- flestir eru ekki svo kaldrifjaðir. Einhverjir, vissulega, en ekki flestir. En það eru ótrúlega margir sem vakna á morgnanna og hugsa, "rosalega er ég feginn að vinnuafl í Banglaesh er ódýrt, ég ætti kannski að fara þangað einhvern daginn og skoða verksmiðjuna þar sem ég er með tvö þúsund manns í vinnu á hundrað krónur á dag."

Þetta er ekki bara Bangladesh. Fjöldinn allur af þrælum er nú í vinnu í Qatar við að byggja innviðina fyrir heimsmeistaramótið í fótbolta 2022. Einnig voru þrælar notaðir við undirbúning og uppbyggingu í Sochi fyrir vetrarólympíuleikana þar. Skilgreiningin á þræl í þessu samhengi er einstaklingur sem hefur verið sviptur frelsi sínu, er neyddur til að vinna, og fær engin laun.

Þessi fátæktarhólf, sem við getum líka kallað landamæri ef við viljum, eru mörk velferðarþjónustu, mörk mengunarvarna, mörk persónuöryggis, mörk lögmætis, og mörk mannúðar.

Samkvæmt alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni deyja um 5 milljón börn undir fimm ára aldri á hverju ári vegna læknanlegra sjúkdóma, sem þýðir rúmlega 130 milljón börn síðan 1990. Að auki deyja 1.8 milljón börn undir 18 ára aldri deyja á hverju ári úr niðurgangi, sem er nokkuð ömurlegt.

Þessu samhliða hefur verið stríðsrekstur ansi víða, þá bæði raunveruleg stríð með beinni aðkomu vesturvelda eins og í Afganistan og tvívegis í Írak, og sömuleiðis nær linnulaus keðja borgarastyrjalda, til dæmis í Sómalíu, þjóðarmorðin í Rwanda, uppreisn Tuarega sem stóð yfir 1990-1995, borgarastríðið í Djibouti, borgarastríðið í Alsír, og önnur stríð í Burundi, Kurdistan, Yemen, Congo, og svo framvegis. Þessi stríð hefjast oftast vegna þjóðernisátaka eða deilna um jarðgæði, en þau eiga sér stað í því umhverfi alþjóðlegra viðskipta þar sem fyrirtæki hafa beinan hag af ástandinu.

Alþjóðleg viðskipti eru að mjög mörgu leyti af hinu góða, en bera líka með sér óásættanlegan kostnað í mannslífum. Stóraukin alþjóðleg viðskipti eru jákvæð og er full ástæða til að hvetja til þeirra, en með breyttu fyrirkomulagi og auknu gagnsæi er líklegast hægt að hafa viðskiptin án fórnarkostnaðarins.

Stríðsreksturinn í Írak og Afganistan, einn og sér, skapaði aðstæður fyrir stríð í Sýrlandi sem virðist engan enda ætla að taka. Þessi stríð hafa samanlagt tekið nærri 2 milljón líf beint, og óljósan fjölda óbeint. Chilcot skýrslan er mjög skýr á því að Íraksstríðið var byggt á fölskum forsendum.

Þessi útkoma er afleiðingin af ríkjandi stefnum í stjórnmálum undanfarna áratugi. Þetta er afleiðingin af óheftri nýfrjálshyggju, einstaka sinnum útþynnt með smá félagshyggju, en oft veldur það bara mögnunaráhrifum þegar ótti fólks við að skítugir útlendingar komi og njóti góðs af velferðinni okkar er beislaður sem pólitískt afl.

Við höfum vísvitandi smíðað kerfi þar sem ýtir undir peningaflæði inn í skattaskjól meðan fólk allsstaðar í heiminum þjáist.

Mér finnst kominn tími til að hætta þessu.

Ég skrifa þetta á leiðinni til Kosovo, þar sem ég mun halda tölu á DokuFest heimildarmyndarhátíðinni um spillingu, en spilling er einmitt þema hátíðarinnar í ár -- ætli ég teljist ekki einhverskonar sérfræðingur í spillingu orðið, úff. Það hefur barist innra með mér ákveðinn ótti undanfarnar vikur, að vegna þess að ég get ekki verið á Íslandi að taka þátt í prófkjörsstússi með Pírötum út af vinnuskyldum sem ég þarf að ljúka, þá muni ég kannski ekki ná mjög langt í prófkjörinu. Ég tek því sem verður, en auðvitað langar mig í fyrsta sætið. Ekki út af því að ég er svo sannfærður um eigið ágæti endilega, heldur vegna þess að komandi kosningar marka sögulegt tækifæri til að ráðast gegn rótum vandans sem hefur skapað svo mikla þjáningu, og ég sé færi á að ná árangri þar. (Ef útkoman verður önnur finn ég aðra leið til að vinna í þessum málum að sjálfsögðu...)

Vandamál Íslands eru nefnilega vandamál heimsins. Með því að laga það sem er að á Íslandi með skilvirkum hætti getum við framleitt nýja heimsmynd, og með því að beita krafti Íslands á alþjóðavettvangi getum við byrjað að vinda ofan af mannvonskunni.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu