Björn Leví og samstaðan
Á árunum sem ég var að slíta barnsskónum sem tónlistarmaður (‘95 – ‘99) átti rokkið í tilvistarkreppu. Annað hvert band á Íslandi með hrottalegan bumbubarning og rafbjöguð öskur og strengjateygjur vildi láta kalla sig eitthvað annað en rokk. Og telja mátti á fingrum annarrar handar þá sem vildu gangast við því að spila „þungarokk.“ Margar af alþjóðlegu sveitunum í bárujárnssenunni skelltu grammófón-græjum á sviðið og fengu plötusnúð til að rispa vínyl til að útvega tónlistinni einhvern ferskleika. Útkoman var mjög skemmtileg og kraftmikil oft og tíðum en ekki mátti kalla þetta þungarokk eða metal.
Tónlistarpressan tók upp á því að kalla þetta „nu-metal“, sem útleggja mætti sem „nýmálmur“.
Þess vegna voru rokkarar á síðustu árum tuttugustu aldarinnar svona feimnir við að kalla tónlistina sína rokk. Þetta var eins konar tilvistarkreppa, ekki ósvipuð þeirri sem kom upp á vinstri væng stjórnmálanna eftir lok kalda stríðsins, þegar fólk með félagshyggjuhjarta forðaðist orð eins og marxisma og sósíalisma eins og dauðagrímu holdsveiks manns.
Allir vilja líta á framlag sitt sem eitthvað nýtt. Eitthvað frumlegt. Enginn vill vera sakaður um að gera gamalkunna hluti (nema kannski vintage-pervertar með Zeppelin-flúr sem elta uppi snjáða lampamagnara með rispur á hliðinni eftir drykkjuslagsmál í Tónabæ). Þess vegna voru rokkarar á síðustu árum tuttugustu aldarinnar svona feimnir við að kalla tónlistina sína rokk. Þetta var eins konar tilvistarkreppa, ekki ósvipuð þeirri sem kom upp á vinstri væng stjórnmálanna eftir lok kalda stríðsins, þegar fólk með félagshyggjuhjarta forðaðist orð eins og marxisma og sósíalisma eins og dauðagrímu holdsveiks manns. Meira að segja orðið „vinstri“. Ég skrifaði um þetta fyrirbæri í íslenskri pólitík fyrir rúmum tveimur árum. Þar lýsti ég djúpu þakklæti í garð eins Pírata fyrir framlag hans til gagnsæis í stjórnsýslunni en um leið nokkurri furðu á skilgreiningarótta hans og hugtakaruglingi.
Hann hét Björn Leví Gunnarsson.
Hann heitir það enn.
Í aðdraganda þeirra örlagaríku kosninga sem áttu sér stað skömmu eftir að sá pistill var skrifaður lá mikið undir og ég hugðist kjósa þann flokk sem væri síst líklegur til að ganga í eina sæng með Panama-flokkunum. Ég mælti hiklaust með Pírataframboðinu við alla þá sem hlusta vildu en mætti talsverðri mótstöðu frá hinum íhaldssamari í hópi íslenskra vinstrikjósenda. Anarkíska yfirbyggingin sem heillaði mig var mörgum svo á móti skapi að þeir gátu ekki fengið sig til að exa við péið. Settu þess í stað X við V og afganginn þekkjum við. Íhaldið fékk enn annan staurfótinn til að haltra á yfir bakið á íslensku þjóðinni.
Hvað klikkaði hjá Pírötum?
Flokkurinn sem hafði rúmu árið áður verið stærsti flokkurinn í könnunum náði ekki tveggja tölustafa fylgi þrátt fyrir fullkomið niðurbrot trausts íslensks almennings í garð gömlu flokkanna. Tættur Framsóknarflokkurinn spólaði fram úr Pírötunum, sem og nýstofnaður gobbedí-gobb-flokkur Wintris-narsissistans, og allt virtist komið aftur á byrjunarreit. Hneykslunarfylgið yfir Panama-skjölunum, pedó-málinu og öllu hinu hefði átt að lenda í fangi utangarðsflokksins en engin spenna myndaðist. Hvað olli?
Innanflokksdeilur um leiðtoga og stjórnunarstefnu eru stundum nefndar til að útskýra andlitsskell Pírata árið 2017 en það má andskotinn vita að Framsókn lenti í nákvæmlega því sama (nema enn neyðarlegra) og kom samt betur út á kjördag en Björn Leví og félagar.
Mér er fyrst núna að verða ljóst hvað hefur valdið þessu og það hefur með undirliggjandi hugmyndafræðilegar forsendur sumra þar innanborðs að gera. Uppljómun mín átti sér stað eftir að ég sá útspil Björns inn í kjaraviðræðurnar í Reykjavíkurborg 2. febrúar síðastliðinn.
Hann sagðist styðja kjarabaráttu láglaunafólks en ekki stéttarfélagið sem stóð í þeirri baráttu, sem er svolítið svipað því að styðja Everton en vilja ekki að þeir fái að vera í skóm inni á vellinum.
Eftir að hafa náð mér af áfallinu sem óhjákvæmilega fylgir því að heyra af því að maður sem ég kaus á þing lýsti frati yfir stéttarfélag láglaunafólks á suðupunkti í kjaradeilu fór ég að rýna í fésbókarfærsluna til að finna gagnrýnipunkta hans en fann ekkert annað en hálfkveðnar vísur um „áróðursherferð“ og eitthvað „meðal“ sem hann var ekki sáttur við. Hann sagðist styðja kjarabaráttu láglaunafólks en ekki stéttarfélagið sem stóð í þeirri baráttu, sem er svolítið svipað því að styðja Everton en vilja ekki að þeir fái að vera í skóm inni á vellinum. Ég skoðaði athugasemdirnar og sá að þar var hann duglegur að svara en kom lengi vel ekki með neitt efnislegt þar heldur. Var mest í því að verja rétt sinn til að vera ósammála; rétt sem enginn hefur nokkurn tíma reynt að taka af honum. Eitt sagði hann þó sem mér fannst lýsa ansi vel forsendum hans og annarra sem hafa ímugust á vinstri/hægri-ásnum:
„[M]ér leiðist tvíhyggja. Það er til annað en mótstaða og samstaða. Ég neita að láta þvinga mig í annað hvort boxið. Það skilgreinir enginn mínar skoðanir nema ég.“
Nú er auðvitað heilmikið til í því að tvíhyggja geti verið eitruð, t.d. þegar Bush Bandaríkjaforseti sagði við upphaf Íraksinnrásarinnar að þjóðir heimsins væru annað hvort „með okkur eða á móti okkur“ og ætlaðist til algjörrar fylgispektar af bandamönnum sínum. Á hinn bóginn verður ekki hjá því komist að stundum þarf maður að taka afgerandi afstöðu. Stundum er ekki um annað að ræða en annað hvort samstöðu eða mótstöðu. Eins og mannréttindabaráttumaðurinn Howard Zinn orðaði það þá er ekki hægt að vera hlutlaus um borð í lest sem er á fullri ferð. Kjaradeila er eitt besta dæmið um slíkt augnablik.
Við erum svo gegnsýrð af hugmyndinni um vörumerkjaþróun að við erum farin að halda að merkimiðarnir skipti meira máli en innihaldið. Það var ekki nýjabrumið sem fékk mig til að kjósa Píratana heldur það sem mér sýndist vera einlægur ásetningur þeirra til að höggva sér leið inn að sannleikanum í gegnum fúnar fjalir stjórnkerfisins, alveg sama hvaða íhaldspungur yrði fúll yfir því.
Enginn hefur nokkurn tíma sagt að ekki megi gagnrýna aðferðafræði eða orðræðu verkalýðsforystunnar en það er gert með því að fara í punktana einn af öðrum. Það er það sem bandamenn gera; fólk sem hefur sameiginlegt markmið en er ósammála um það hvernig beri að koma því í kring. Að henda þeirri handsprengju inn í miðja kjaradeilu að maður styðji ekki fulltrúa láglaunafólks, án þess einu sinni að taka fram hvers vegna, er svo vanhugsað að ég þurfti að lesa nafnið Björn Leví Gunnarsson margoft til að fullvissa mig um að um sama mann væri að ræða; manninn sem hefur æ ofan í æ flett ofan af spillingarmyglunni í stjórnkerfinu.
Hér er gagnlegt að rifja upp áðurnefndan skilgreiningarótta. Hann stafar ekki aðeins af löngun til þess að gefa framlagi sínu einhvern nýjungagljáa heldur bókstaflega af þekkingarleysi á hugmyndasögu. Við erum svo gegnsýrð af hugmyndinni um vörumerkjaþróun að við erum farin að halda að merkimiðarnir skipti meira máli en innihaldið. Það var ekki nýjabrumið sem fékk mig til að kjósa Píratana heldur það sem mér sýndist vera einlægur ásetningur þeirra til að höggva sér leið inn að sannleikanum í gegnum fúnar fjalir stjórnkerfisins, alveg sama hvaða íhaldspungur yrði fúll yfir því. Ég ákvað því að gefast ekki upp. Skýringin hlyti að koma fyrr eða síðar.
Það gerði hún á endanum.
„Auglýsingin sem skammaði borgina fyrir láglaunastefnu til dæmis. Það eru búin að vera lág laun í þessum störfum, alltaf. Það er fleiri um að kenna en bara borginni. […] Ef [Efling kennir] öllum um sem bera þar ábyrgð á þá hef ég enga gagnrýni fram að færa. Ef einn aðili er valinn úr ... þá gagnrýni ég.“
Vonbrigðin voru áþreifanleg.
Það má sem sagt gagnrýna það að Reykjavíkurborg skuli hafa reynt mánuðum saman að neyða félagsmenn Eflingar til að kyngja kjörum sem nægja ekki til framfærslu, en bara ef maður minnir um leið á það að þessi störf séu illa borguð annars staðar líka. Ef til er skýrara dæmi um whataboutisma þá hef ég ekki enn heyrt það. Núverandi forysta Eflingar hefur aldrei hlíft neinum við gagnrýni sem gerir sig sekan um arðrán (hvort sem um er að ræða ríki, eignastétt eða sveitarfélög) en það er ekki af málefnalegum ástæðum sem Björn Leví gagnrýnir Eflingu heldur til að bera blak af borgarmeirihlutanum með því að benda í allar áttir. Hvers vegna? Af því að Píratar eiga aðild að þeim meirihluta.
Nú vitum við sem sagt loksins hvernig flokka beri þetta innlegg frá Birni: Hvunndagspólitík.
En þetta er til marks um það sem gerist þegar maður heldur að maður sé yfir hugmyndafræði hafinn og þarf því að reyna að búa til pólitísk prinsipp jafnóðum.
Ég geri mér ekki leik úr því að þrasa við bandamenn og þar sem yfirlýsingin sem barst frá Dóru Björt sama dag lýsir yfir einlægum samningsvilja og samstöðu með láglaunafólki þá tek ég þann pól í hæðina að yfirlýsing Björns hafi stafað af stundarpirringi. Sjálfur kallaði hann þetta brain dump í einni athugasemd. En þetta er til marks um það sem gerist þegar maður heldur að maður sé yfir hugmyndafræði hafinn og þarf því að reyna að búa til pólitísk prinsipp jafnóðum. Í þessu sama lenti Óttarr Proppé. Hann kvaðst ekki kunna meta fúsk en skrifaði ekki upp á neina pólitíska hugmyndafræði. Bara að það ætti að gera hlutina vel. Þess vegna var hann, áður en hann vissi af, orðinn að heilbrigðisráðherra í hægristjórn sem hann neyddist til að sprengja vegna hneykslismáls.
Þeir sem standa ekki fyrir neitt geta fallið fyrir hverju sem er.
Vinstrimaður stendur alltaf með hinum vinnandi stéttum. Ef hann hefur eitthvað við aðferðafræði stéttarfélagsins að athuga þá ræðir hann það við forystuna eða reynir að fá félagsmenn á sitt band til að koma áherslubreytingu í gagnið. Hann lýsir því ALDREI yfir í miðri kjaradeilu að hann styðji ekki verkalýðsfélagið. Við þurfum skapandi og vel hugsandi fólk eins og Björn Leví í íslenskri stjórnsýslu. En hjartað verður að vera milliliðurinn milli heilans og handanna ef maður á ekki að verða að teknókratísku verkfæri í höndum yfirstéttarinnar.
Athugasemdir