Söguhetjur og skúrkar í stjórnmálum
Skáldið Muriel Rukeyser skrifaði eitt sinn að alheimurinn væri gerður úr sögum, ekki úr atómum. Þetta skiljum við öll. Alheimurinn sem slíkur er auðvitað samsettur úr frumeindum — enginn nema endatímaspámenn með skegg niður að hnjám og lögheimili í Laugarvatnshelli myndu andmæla því — en hér erum við ekki að tala um efnisheiminn sjálfan. Við erum að tala um alheiminn eins og við skiljum hann. Alheiminn sem við staðsetjum okkur innan.
Við erum öll bókmenntafræðingar upp að einhverju marki þegar við lesum fréttirnar. Við skiptum okkur í lið eftir því með hverjum við höldum og sögurnar taka við. Hillary á móti Trump fyrir fjórum árum er gott dæmi um þetta. Ef ég held með Hillary og hata Trump þá er hann Nornakóngurinn frá Angmar og hún Jóvin, skjaldmey frá Róhan. Ef ég held með Trump og hata Hillary þá er hann hinn hugrakki Perseifur og hún er hin snákhærða Medúsa (eða hann John McClane og hún Hans Grüber). Ef ég lít hins vegar á þau bæði sem spillta auðkýfinga og álykta sem svo að hvorugt þeirra beri hag almennings fyrir brjósti, hvaða sögu get ég þá stuðst við? Hvernig geri ég mig skiljanlegan? Hver er söguhetjan mín?
Þetta þvælist oft fyrir skilningi okkar á þjóðmálunum og jafnvel heimsmálunum. Ché Guevara sagði að byltingarmaður þyrfti fyrst og fremst að búa yfir kærleika og það er rétt. En kærleika í garð hvers? Hvert er ástarviðfang sósíalistans? Vinstrisinnaðir rithöfundar eins og Federico García Lorca og Arundhati Roy draga upp stórkostlega litríkar myndir af samfélaginu sem slíku þar sem söguhetjurnar eru fyrst og fremst manneskjur sem við elskum vegna mennsku þeirra — mannkosta jafnt sem breyskleika. Þrjú hundruð blaðsíðna skáldsaga er nógu stór til að setja mannlífið fram sem svoleiðis óræða, brothætta og mikilfenglega mósaíkmynd en í fréttaflutningi þarf að styðjast við einfaldari sagnaminni.
Erkitýpur.
Þegar ég skrifaði, einu sinni sem oftar, um mikilvægi framlags Gretu Thunberg til umræðunnar um loftslagsmál dúkkaði upp einhver sjálfskipaður vitringur og sagði að ég hefði fallið í þá gryfju að fjalla um Gretu sem erkitýpu. Síðan hún hóf skólaverkfall sitt í þágu loftslagsmála hefur nefnilega alltaf legið beinast við að líkja henni við barnið í sögu H.C. Andersen sem segir upphátt að keisarinn sé ekki í neinum fötum; manneskju sem er staðsett nógu langt utan við samfélagslega meðvirkni fullorðna fólksins til að segja sannleikann án þess að hika.
En þetta gáfnaljós gleymdi einni einfaldri staðreynd: Við gerum þetta öll. Hann og vinir hans í loftslags-efasemdaklúbbnum tala um Gretu eins og píparann frá Hamelin; aðkomumanneskju sem notar töfraflautu til að afvegaleiða yngri kynslóðina. Klénasta erkitýpan er Davíð og Golíat. Hér um bil allir aðilar sem bjóða sig fram til embættis í fyrsta sinn tala um sig sjálfa sem lítilmagna. Sem baráttumanneskju gegn ríkjandi skipan sem mun ná kjöri og sigra þannig báknið eins og smaladrengurinn felldi risann. Viðskiptamaðurinn Guðmundur Franklín reyndi þetta í forsetakosningunum hér í júní og var það jafnhlægilegt og þegar ríkisbubbinn Trump gerði það í sínum kosningum, og forríki forsetasonurinn George W. Bush á undan honum.
Enginn þessara manna er lítilmagni eða hefur hinn minnsta áhuga á að vera raunverulegur málsvari þeirra sem minna mega sín.
Fjarri veri það mér að setja mig upp á móti því að sögur séu notaðar til að innramma flókin mál. Svoleiðis skiljum við mannfólkið hlutina. En samhengið þarf að meika eitthvað sens. Hægriöfgamenn eins og Trump, Bolsonaro og Orban stilla sér upp sem uppreisnarmenn og það er góð taktík. Uppreisnarmenn hafa á sér hetjuljóma. William Wallace á fleygiferð gegn enska herliðinu, risastrumparnir í Avatar með boga og örvar gegn mennsku nýlendukúgurunum á Pandóru og Logi geimgengill þegar hann hendir sprengjunni inn um loftræstirörið á Dauðastjörnunni. En Hitler og Franco voru líka uppreisnarmenn.
Innihald skiptir meira máli en ásýnd.
Í lýðræðissamfélagi þurfum við að vera fær um að sjá í gegnum svona ódýra ímyndarsköpun. Svo eitt dæmi sé nefnt þá búum við í landi þar sem spillingarmál forsætisráðherrans niðurlægðu þjóðina og ári síðar er hann kominn með riddaraskjöld eins og Benjamín dúfa og er kosinn inn á þing sem uppreisnarhetja. Uppreisnarhetja sem er með dólg á þingi og talar um „beint lýðræði“ eins og hann hafi aldrei svo mikið sem setið í mjúkum sófa, hvað þá verið æðsti ráðamaður þjóðarinnar. Hugsjónir hinna svokölluðu „hægri popúlista“ í þágu fólksins eru engar. Þeir eru hetjur launamannsins á sama hátt og kameldýrið utan á sígarettupakkanum er töffari. Og Katrín og Bjarni eru ekki mamma okkar og pabbi. Þegar VG gekk í þetta stjórnarsamstarf þá líkti ég því við Sarúman að ganga í eina sæng með Sauron og ég stend við það. Munum samt að Fródó og félagar voru ósköp venjulegir einstaklingar sem sýndu stórkostlegt hugrekki í þágu hins góða vegna þess að þeir höfðu, eins og allir sannir byltingarmenn, kærleikann að leiðarljósi.
Athugasemdir