Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Enginn mun bjarga okkur

Winston Churchill talaði fyrstur manna um að Bandaríkin og Bretland tengdust einstökum böndum; að sambandið milli ríkjanna væri sérstakt. Frasinn „sérstakt samband“ (e. special relationship) hefur æ síðan verið pólitískt bitbein í Bretlandi. Þeim sem hugnast utanríkisstefna Bandaríkjanna þykir þetta samband vera einn af hornsteinum breskrar velgengni. Þeir sem hafa ímugust á umsvifum hins vesturheimska veldis tala hins vegar um þetta „sérstaka samband“ sem undirgefni breskra stjórnvalda við risann í vestri, sér í lagi þegar Íraksstríðið stóð sem hæst og hernaðarandstæðingum var tíðrætt um Tony Blair sem kjölturakka George W. Bush.

Þessi tvö ríki fylgjast oft að og útkoman er ekki alltaf góð.

 

Brexit og brotthvarf blæbrigðanna

Þegar David Cameron efndi til atkvæðagreiðslu í júní 2016 um útgöngu úr Evrópusambandinu vanmat hann stórlega hversu þreyttur almenningur var orðinn á ríkjandi skipan. Kjósendur völdu að hafna Evrópusambandinu og fengu yfir sig miklar svívirðingar fyrir að hafa trúað ofureinföldunum og helberum lygum Brexit-lýðskrumara eins og Nigel Farage.

Mér þótti útgangan ekki góð hugmynd en sú útbreidda fullyrðing Brexit-andstæðinga að það væri engin ástæða fyrir úrslitunum önnur en rasismi í garð innflytjenda var alveg jafn óheiðarleg og ofureinföldun Farage um útgjöldin til Brussel og lygar hans um aukinn fjárstuðning við heilbrigðiskerfið. Evrópusambandið gekk milli bols og höfuðs á Grikklandi. Það eitt ætti að vera nógu góð ástæða til að hafa horn í síðu þessa nýfrjálshyggjubatterís þó svo að manni þyki ekki praktískt að segja sig úr því.

Tvennt ólíkt getur nefnilega verið satt í einu.

Það sem vantar algjörlega í umræðu um þessi mál er það sem enskumælandi fólk kallar nuance. Við eigum ekki gott stakt orð yfir það á íslensku en segja má að nuance sé í þessu samhengi tilfinning fyrir blæbrigðum.

 

Sagan endurtekur sig

Í Bandaríkjunum var þróunin í kjölfarið á Brexit svo svipuð að þetta var næstum eins og samhæft dansatriði. Þegar Donald Trump sigraði Hillary Clinton var opinbera skýring stuðningsmanna Clintons sú að kvenhatur hefði orðið ofan á og það er ekki eins og slík skýring sé algjörlega úr lausu lofti gripin, eins og allir vita sem hafa nokkurn tíma heyrt Trump tala um konur. Eins var kynþáttahatrið fyrirferðarmikið og hversdagsrasistar tóku höndum saman með yfirlýstum nasistum til að koma sínum manni að í Hvíta húsinu. Persónulega lít ég svo á að það sé ekki hægt að gera eftirfarandi tvennt í einu: að kjósa Trump og kalla sig heiðvirða manneskju.

En þar með er ekki öll sagan sögð.

Hillary tókst ekki að trekkja kjósendur á kjörstað vegna þess að enginn var spenntur fyrir því að kjósa  á ólgutímum í kjölfar hruns nýfrjálshyggjunnar  manneskju sem lofaði engu öðru en áframhaldandi nýfrjálshyggju. Kjósendur repúblikanaflokksins kusu uppgerðarróttækling en kjósendur demókrata fengu ekki að kjósa ósvikna róttæklinginn Bernie Sanders (hann var róttækur á amerískan mælikvarða en ósköp hófsamur krati á norrænum mælikvarða). Útnefningin var höfð af honum með svindli eins og þjóðarráð demókrata (DNC) viðurkenndi síðar.

Eftirfarandi fullyrðingar eru báðar sannar:

Það er tær fávitaskapur að kjósa fasistagerpi eins og Trump.

Hillary var óspennandi frambjóðandi.

 

Corbyn og fjölmiðlar

Í kjölfarið vonuðust margir eftir kaflaskiptum í alþjóðastjórnmálum og fánaberar þeirra kaflaskipta voru áðurnefndur Sanders í Bandaríkjunum og Jeremy Corbyn í Bretlandi. Ólíkt Sanders náði Corbyn kjöri sem leiðtogi síns flokks (Verkamannaflokksins) og náði stórgóðri kosningu gegn Íhaldsflokknum árið 2017 og kom þannig öllum á óvart, sérstaklega hinni sigurvissu Theresu May. Andstæðingum sósíalismans tókst hins vegar að smyrja þeim saur framan í Corbyn að gyðingafordómar hefðu tekið að grassera í Verkamannaflokknum undir hans stjórn og að hann hefði ekki gert nóg til að stemma stigu við þeim.

Þetta var skólabókardæmi um óheiðarlega „látið-hann-neita-þessu“-ásökun sem hefði þó aldrei náð að fella hann í kosningunum 2019 ein og sér, þrátt fyrir holskeflu af endurtekningum í breskum fjölmiðlum. Óvissan varðandi Brexit var hitt lykilatriðið. Breska þjóðin var ekki að hugsa um nema eitt málefni og Corbyn var ekki með nægilega einarða afstöðu með eða á móti Evrópusambandinu. Það segir manni að hann sé íhugull og ani ekki hugsunarlaust út í neitt en þessa dagana vill fólk ekki stjórnmálamenn sem eru næmir fyrir blæbrigðum, sérstaklega ef fjölmiðlum hefur tekist með stanslausri klifun að sannfæra almenning um að þeir séu of linir við gyðingahatara.

 

Öllu hent í Sanders nema eldhúsvaskinum

Í Bandaríkjunum var ekkert í líkingu við Brexit á boðstólum fyrir þá sem vildu gera sér leik að því að gaslýsa almenning og nýfrjálshyggjudemókratar komust að því, sér til mikillar skelfingar, að erfitt myndi reynast að festa gyðingahatarastimpilinn við gyðinginn Bernie Sanders. Allt annað var reynt, sér í lagi uppdiktað kvenhatur stuðningsmanna hans og meint sinnuleysi hans gagnvart öðrum kynþáttum en það virkaði auðvitað illa gegn manneskju með svona tæran mannréttindabaráttuferil. Hillary dúkkaði meira að segja upp eins og dúkkan í Chucky II til að segja bandarísku þjóðinni að engum líkaði við Bernie í öldungadeildinni en það undirstrikaði einfaldlega þá staðreynd að stjórnmálamenn eins og hún tilheyrðu annarri plánetu en ameríska þjóðin.

Sanders er nefnilega vinsælasti stjórnmálamaður Bandaríkjanna og almenningur er sammála stefnumálum hans í öllum meginatriðum. Hvers vegna tapaði hann þá fyrir Joe Biden? Hvernig tókst auðvaldspressunni í Bandaríkjunum að knésetja hann? Með því að sannfæra hinn almenna demókrata um að þrátt fyrir að hann sé kannski til í að kjósa Sanders þá sé hann einn um það. Kjósendur demókrataflokksins taka nefnilega margir hverjir enn mark á gömlu fréttamiðlunum sem eru í eigu fyrirtækjasamsteypa sem kæra sig ekki um þær breytingar sem Sanders boðar.

Mögulega hefði Bernie getað yfirstigið þessar hindranir og unnið útnefninguna, enda hlaut hann flest atkvæði í fyrstu þremur ríkjum forkosninganna, en hann var ekki til í að fara í hart við Biden og benda á þá staðreynd að Joe „vinur hans“ er gagnslaus frambjóðandi sem er aldrei í sviðsljósinu lengur en tvær og hálfa mínútu án þess að grauta saman setningum, ljúga einhverri hetjudáð upp á sjálfan sig eða gleyma því hvar hann er staddur. Veirufaraldurinn kom líka í veg fyrir að Sanders gæti virkjað stuðningsmenn sína eins vel og hann hefði þurft til að snúa þessu sér í vil.

 

Jói frændi og hægri kratarnir

Hvort sem orðrómurinn um að Joe Biden sé kominn með elliglöp er sannur eður ei þá er ljóst að hinn grimmi, appelsínuguli uppnefnari mun éta hann lifandi í þessari kosningabaráttu. Og ef ekkert verður af kosningabaráttunni vegna faraldursins sem nú stendur yfir þá mun fylgið hvort eð er halda áfram að flagna utan af Biden í hvert skipti sem hann sést á skjánum. Það er hreinlega orðið ómögulegt að taka hann alvarlega og hver einasti einstaklingur sem hyggst kjósa hann hefur það eitt í huga að koma Trump úr embætti. Enginn er spenntur fyrir forsetatíð Bidens nema kannski ríka fólkið sem sér fram á áframhaldandi nýfrjálshyggju með hann í brúnni.

Fyrir þá sem vilja kjósa aldraðan auðvaldssinna með vísi að elliglöpum og ásakanir um kynferðisofbeldi á bakinu þá verður hlaðborð á kjörseðlinum í nóvember: Biden í bláa liðinu og Trump í því rauða. Munurinn á demókrötum og repúblíkönum í þessum efnum er sá að hinn almenni demókrati er líklegri til að láta sér annt um mannréttindi, jafnrétti og #metoo-hreyfinguna en hinn almenni kjósandi repúblíkana. Miðjuhægrið þar í landi gerir vissar pólitískar kröfur til forsetaefna sinna á meðan öfgahægrið kýs bara háværasta yfirgangssegginn. Þess vegna hefði Sanders skúrað gólfið með heimska smettinu á Trump (hvort sem um 2016 eða 2020 er að ræða) en Hillary tapaði fyrir Dónaldinum og Biden mun bíða afhroð í haust.

 

Klukkan tifar

Og þótt Jóa frænda (Uncle Joe eins og sumir kalla hann þar vestra) tækist að sigra hinn illa gefna auðkýfing þá myndi ekkert breytast til hins betra í loftslagsmálum. Loftslagsstefnumál Bidens hafa hlotið falleinkunn umhverfisverndarsamtaka og mannkynið hefur ekki fjögur ár (þaðan af síður átta) til að bíða eftir því að varaforsetinn fyrrverandi sjái að sér og fari að taka ógnina alvarlega. Sameinuðu þjóðirnar vöruðu okkur við því árið 2018 að við hefðum tólf ár til að snúa þessari óheillaþróun við. Nú eru þau orðin tíu. Áður en við vitum af verður orðið of seint að afstýra þeim hörmungum sem eru handan við hornið.

Nú er svo komið að pólitíkin í Bandaríkjunum og Bretlandi hefur hafnað þeim frambjóðendum sem buðu upp á nógu róttækar umbætur til að koma til móts við ógnina. Trump og Boris Johnson munu í besta falli vera fullkomlega gagnslausir í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og í verst falli munu þeir gera illt verra (sem er mun líklegra). Ekki bætir úr skák að sams konar narsissistískir kálhausar standa í brúnni í ýmsum öðrum stórum ríkjum, sér í lagi brasilíski forsetinn Jair Bolsonaro, sem hefur reynst Amazon-regnskógunum álíka vel og Ike reyndist Tínu.

Þetta þýðir bara eitt:

Enginn mun ríða yfir engið í gljáandi herklæðum okkur til bjargar.

Almenningur þarf að taka málin í eigin hendur.

 

Við eigum engan að nema hvert annað

Ég tek það fram að með því að taka málin í eigin hendur meina ég hvorugt eftirfarandi:

Óeirðir eða blóðug átök. Þetta ætti ég ekki að þurfa að taka sérstaklega fram en í umræðunni um samfélagsbreytingar eru alltaf einhverjir til í að fara í óheiðarlegar blammeringar í garð sósíalista og anarkista þess efnis að þeir vilji óreiðu og ofbeldi. Poppmenningin skaffar okkur meira að segja ótal dæmi um ímyndaða anarkíska ógn við heimsfriðinn á sama tíma og kapítalisminn stefnir með okkur fram af hengiflugi. Sjáið til dæmis heimsendahakkarana í Die Hard 4, fjöldamorðsveitir anarkista í Batman-myndum Christophers Nolan og alþjóðleg hryðjuverka- og heimsyfirráðasamtök anarkista í Mission Impossible-seríunni. Jókerinn er það sem borgarlega þenkjandi fólk sér fyrir sér þegar róttækni er annars vegar en einskis ofbeldis er að vænta frá anarkistum eða sósíalistum. Þetta vita allir sem hafa eitthvað haft fyrir því að kynna sér t.d. Occupy Wall-Street og sams konar samtök.

Að almenningur þurfi að fara neytendaleiðina. Að það muni laga allt að neita að versla við einhver tiltekin fyrirtæki eða neita að kaupa vörur frá einhverju tilteknu landi. Slíkar sniðgönguaðgerðir geta reynst vel í vissu samhengi en í baráttunni gegn loftslagsbreytingum eru þær álíka áhrifaríkar og borðhnífur í flugorrustu. Við skulum endilega forðast plast eins og við getum, takmarka akstur og flug, kaupa frekar innlendar en erlendar vörur og minnka dýravöruneyslu. Allt þetta telur en dugar ekki til.

Bindumst samtökum um að hjálpast að og snúa gildismati kapítalismans á haus. Við höfum séð í þessari krísu að þegar stjórnvöld finna sig knúin til að rétta fram hjálparhönd eða setja reglugerðir á fyrirtæki í þágu samfélagsins þá eru þau fullfær um það. Við getum séð um hvert annað með því að nota sameiginlega sjóði okkar í samhjálp í stað þess að nota þá til að auðga enn frekar þá sem eru nú þegar orðnir viðurstyggilega ríkir á meðan aðrir líða skort.

Látum hlutina ekki fara aftur í sama gamla farið. Stöndum saman og gerum slíka afturför ómögulega. Stöndum saman og gerum stjórnvöldum ljóst að við ef þau gera sig líkleg til að halda áfram að þjónusta auðmenn í stað þess að starfa í þágu almennings þá munum við bremsa gangverk samfélagsins af með því að neita þeim um vinnuafl okkar. Ef við stöndum öll saman þá getur enginn sigrað okkur.

Við þurfum ekki á kapítalismanum að halda.

Þessa dagana erum við með hann á öndunarvél.

Tökum hana úr sambandi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni