Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Að slá upp tjaldi

Já, ég er löggan sem bannaði útlendingi að tjalda á Austurvelli.

Ég er allir sem gera svoleiðis á Íslandi.

Ég er hin tímalausa, íslenska smásál.

Kallaðu mig Þormóð.

Ég veit alveg hvað þér finnst um mig.

En þetta er ekki svona einfalt mál.

Ég hafði góða ástæðu. Að slá upp tjaldi er ekki bara að slá upp tjaldi. Það snýst ekki um að framfylgja lögum. Ég veit að starfsheiti mitt er „lögreglumaður“ en það gefur örlítið skakka mynd af tilgangi veru minnar á Austurvelli í marsroki undir gráum himni. Ég á ekki að framfylgja lögum. Ég á að halda uppi reglu. Og til að halda uppi reglu þarf stundum að búa til nýjar reglur. Ekki algildar reglur. Bara svona reglur sem mér koma til hugar á því augnabliki. Svona eins konar reglu-djass. Ég sé eitthvað undarlegt í laginu og bregst við því eins og töflureiknir. Ég ríf fram reglustikuna og teikna ferhyrndan ramma utan um nýlunduna. Nýlendubúann. Nýbúann. Eða hvað sem hann er kallaður.

Þessi sem er ekki eins og ég.

Hann má ekki slá upp tjaldi.

Að slá upp tjaldi er ekki bara að slá upp tjaldi.

Fyrir þúsund árum sló maður hér upp tjaldi. (Eða… hann gerði það reyndar ekki sjálfur. Lét þrælana sína gera það. Vífil og Karla. Þeir fengu tvö götuheiti í höfuðið á sér. Hann fékk heilt torg og gæjalega styttu.) En hann er sönnun þess að tjald er ekki bara tjald. Tjald verður bær, verður þorp, verður kaupstaður, verður borg… Nei, nýlendingurinn eða nýmennið eða hvað góða fólkið leyfir mér að kalla fólk eins og hann nú til dags, hann var auðvitað ekki að fara að breiða úr sér eins og Ingólfur. Ógnin liggur ekki þar. Ég held ekkert í alvörunni að framandi fólkið muni leggja hér allt undir sig. Það er bara svona stöff sem er gaman að heyra stökum sinnum á Sögu þegar Pétri er orðið heitt í hamsi eða Arnþrúður er búin að fá sér.

Djók. Hún gerir það ekki. (Sett inn að lögmannsráði.)

Þegar Ingólfur kom var landið autt. Þá var hægt að slá upp tjaldi. Eigna sér spildu. Meira að segja kona mátti eiga það land sem hún gat teymt kvígu yfir, ljósaskipta á milli á jafndægrum. En núna þarf að skilja beljurnar eftir heima. Maður getur ekki bara eignað sér land sem einhver annar á. Hver á Austurvöll? Íslenska þjóðin náttúrulega. Þess vegna getur enginn rekið hana burt af svæðinu. Nema auðvitað allt fari til andskotans eins og í Gúttó-slagnum eða NATÓ-mótmælunum. En við lyftum ekki litlafingri gegn Panama-mótmælendum.

Þar voru Íslendingar.

Þeir eiga heima hér.

Ég veit alveg hvað þú ert að hugsa. Og nei, ég er ekki rasisti. Mér finnst allt fólk vera bara fólk. Ég hata engan. Ekki í alvörunni. Kannski verður barkinn digur eftir nokkra bjóra og ég tala um að „sem kristinn maður“ telji ég að við verðum að „læra af reynslu annarra þjóða“ og lenda ekki í því að fá hingað einhvern haug af múslimum en það er bara af því að þegar hinir Íslendingarnir í kringum mig samsinna verður mér hlýtt í hjartanu. Þeir ólust upp hérna eins og ég og muna eftir Jóhanni risa og Svala-auglýsingunni með Jóni Páli, íslenska víkingnum sem lyfti kringlóttum steinum eins og þeir væru sófasessur. Og þeir eru kristnir. Kunna alla vega faðir vorið og mæta í fermingar. Þeir skilja hvað ég er að segja. Ef ég bannaði einhverjum þeirra að tjalda á Austurvelli þá myndi hann hlýða mér strax. Hann myndi skilja að lögga eins og ég er nauðsynleg. Hann myndi skilja að tjald er ekki bara tjald.

Því að ef einum manni leyfist það sem veip-krakkarnir kalla „borgaraleg óhlýðni“ þá opnar það flóðgátt. Ef einn maður sem skilur ekki íslensku og líður illa á Ásbrú fær að setja niður tjald á Austurvelli í trássi við útilegureglugerðir og fær að sitja á pappaspjaldi eða hrúga pappaspjöldum saman og óhlýðnast mér þegar ég bý til nýjan sóló-kafla í reglu-djassinum og banna honum eitthvað sem engum öðrum hefur nokkurn tíma verið bannað þá…

…þá spyrja sig allir eftir það hvers vegna þeir ættu að hlýða lögreglunni. Ég togaði ekki upp piparspreyið til að verja mig eða samstarfsfólk mitt. Ég úðaði í augun á þessu óþekka liði til að verja þjóðina. Já, þú mátt alveg hlæja að því. Þú hefur þann lúxus að hlæja að því af því að þú þarft ekki að leiða hugann að því sem gerist þegar fólk hættir að gefa gaum að reglum; raunverulegum jafnt sem skálduðum.

Auðvitað má mótmæla en þarf alltaf að vera að gera eitthvað meira? Draga einhvern Bónus-fána að húni eða kveikja í jólatré eða gista í skítakulda á móti þinghúsinu? Að láta eins og maður eigi staðinn? Eins og við í svörtu búningunum höfum ekkert vald? Eins og allt vald okkar sé fengið frá þjóðinni sjálfri og að þjóðin sjálf geti bara valið stundum að hlýða okkur ekki? Hvar endar það eiginlega? Ég veit alveg að sumir sem vinna í þessu gráa húsi eru óttalegir slúbbertar sem drekka á þriðjudagsvöktum og taka sér fúlgur úr sjóðunum okkar allra og redda fjölskyldu og vinum dómarastöður en þeir eru samt betri en ekkertið sem myndi taka við.

Frekar skítt form en formlaust flæmi.

Frekar spillingu en stjórnleysi.

Frekar stöðnun en allar þessar helvítis breytingar.

Enginn spurði mig hvort ég vildi að samfélagið umfaðmaði fjölmenningu. Hvort ég vildi þurfa að fá tölvupósta úr skólum krakkanna sem eru líka á útlensku. Hvort ég vildi þurfa að leggja eitthvað heljarinnar glósusafn af kynjaorðum á minnið eins og ég væri mættur aftur í landsprófið, ólesinn og þunnur. Veit einhver þessara veipandi háskólapésa hvernig tilfinning það er að láta einhvern ungling lesa yfir sér um mannréttindi eins og maður sé ekki nógu gamall til að vera pabbi hans? Eins og maður sé eitthvað heimskur?

Ég er ekkert heimskur!

Ég veit alveg að fólk vill vera frjálst en ég veit líka að við getum ekki leyft okkur það. Ég veit alveg að það hlýtur að vera skítt að fæðast á stað þar sem lífslíkur barns eru lélegri en lífslíkur hermanns í síðari heimsstyrjöldinni. Ég veit alveg að það hlýtur að vera erfitt að bíða mánuðum saman eftir að fá að vita hvort maður þurfi að fara aftur til landsins sem brást manni. En ýkt óheppinn, félagi! Með lögum skal land byggja! Með lögum og reglu! Og reglu-djassi!

Þegar lögreglumaður segir manni að gera eitthvað þá gerir maður það. Og þegar lögreglumaður segir manni að hætta að gera eitthvað ógnvekjandi og undarlegt og útlendingalegt þá hættir maður því. Ef þú vilt fá að velja hvaða reglum þú fylgir og hverjum ekki þá þarftu að fá vinnu þarna í húsinu hinum megin götunnar. Af því að þetta er ekki villta vestrið. Þetta er ekki eyðimörk. Þetta er ekki óbyggt eyland á miðöldum og þú ert ekki höfðingi með öndvegissúlur í fjörunni. Ég veit að þér finnst gott að vera hérna en ef Útlendingastofnun kíkir upp í munninn á þér og sér of fullorðinslegar tennur þá verður þú sendur heim.

Taktu niður þetta tjald.

Núna!

Þetta er Ísland.

Við náðum því fyrst.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni