Hvatvís skrif gegn hvatvísri orðræðu
Umræða. Oft les ég að eitthvert ákveðið innlegg eigi að vera mikilvægt fyrir umræðuna. Það er að segja að í kjölfar ákveðnar yfirlýsingar skapist mikilvægur umræðugrundvöllur sem ætlað er að stuðla að farsælli niðurstöðu í vissu máli. Nú fyrirfinnast að sjálfsögðu ögrynnin öll af opinberum samtölum, ummælum og fullyrðingum sem svo að segja allir geta tjáð sig um, lagt sitt lóð á vogarskálarnar eða barasta tjáð sig á dónalegan og yfirlætisfullan hátt um hve rangt aðrir hafi fyrir sér. Hér gleðst ég yfir því að geta notast við þýska orðið Besserwisser! Sýnist mér í þessu samhengi blaðamaðurinn Jakob Bjarnar Grétarson vera ágætis dæmi um Besserwisser sem er iðulega viss um að hann hafi rétt fyrir sér. Virðist hann og óhræddur við að leiða fólki það fyrir sjónir og er þar auðmýkt ekki fyrir að fara.
-Tek ég fram að þetta sjónarhorn mitt er einungis byggt á yfirborðsskoðun. Ég veit ekki hvað nánari athugun myndi hafa í för með sér þótt mig gruni að niðurstaðan yrði sú að téður aðili ætti margt sameiginlegt með öðrum aðila sem mér virðist nokkuð kreddufullur, Hildur nokkur Lillendahl Viggódóttir.
En já, það mætti máski tala um hafsjó af allslags umræðum, álitamálum og skoðunum sem fólk er ekki feimið við að slengja fram. Held ég að óhætt sé að segja að mikið af því sé óttalegt bull, illa ígrundað, illa framreitt, slælega skrifað, litað fordómum, fáfræði og þeirri staðreynd að ekki hefir verið numið staðar og heilinn brotinn um það sem tekið var til umræðu. Fólk virðist mikið til stjórnast af hvatvísi. Kannski hefir það eitthvað að gera með hraðann og hve fljótt umræða virðist úreldast og hve mörg járn er hægt að hafa í umræðueldinum. Internetfólk fríkar svo að segja út á valkostunum og reynir að tjá sig sem fljótast og kappkostar að hnoða saman skoðun um eitthvað án þess kannski að hafa forsendur til þess.
Með öðrum orðum kemur það mér oft svo fyrir sjónir að það að tjá skoðun, taka þátt í umræðu, sé mikilvægara en skoðunin sjálf, að hún fái staðist nánari athugun. Þar af leiðandi eiga umræður oft margt sammerkt með kappleik og öskrandi óánægðum tuðruspörkurum sem gera aðsúg dómaranum fyrir meinta ranga ákvörðun. Þeir sem heyrt hafa í viðlíka mannöpum vita að ekki er hægt að halda því fram að þær setningar sem þar eru samansettar innihaldi mikið vit. Enda snúast kappleikir mikið til út á hvatvísi, að vera snar í snúningum, leika á andstæðinginn. Jafntefli er sjaldnast ásættanleg niðurstaða.
Raunar kemur mér pólitík líka svona fyrir sjónir og er ég örugglega ekki einn um það. Menn eru í liðum og keppa að því að sigra leikinn með öllum tiltækum ráðum. Jafntefli virðist ekki heldur vera ásættanleg niðurstaða í stjórnmálum. Stjórnmálamenn verða að hafa rétt fyrir sér (skora) og hafa hátt til þess að sína fram á það. Og í hávaðanum þá missa þeir jafnvel sjónar á því (að því gefnu að þeir séu skyni gæddar verur) að þær höfðu rangt fyrir sér eða að hugsanlega gæti mótaðilinn haft eitthvað til síns máls.
Þetta tel ég mig geta fullyrt um umræðu almennt án þess að þurfa að tilgreina dæmi. Ætti þessi fullyrðing að standast nána skoðun ef fólk gefur sér tíma. Ef fólk gefur sér tíma til að lesa og mynda sér ígrundaða skoðun áður en það setur saman innlegg eða skilur eftir sig ummæli og skilur kappleiksviðhorfið eftir í klósettskálinni. Þá er hægt að tala um mikilvægi umræðu.
Að þessu sögðu átta ég ég mig vel á því að því oftar sem eitthvað er tekið til umræðu þeimur almennari verður sá skilningur að vissa umræðu sem t.d. hefir legið í þagnargildi sé ekki hægt að þagga. Ergo. Heimskuleg viðbrögð eru líka liður í því að stuðla að breytingum og niðurstöðu í framtíðinni.
Núna ætla ég að snúa mér að málfræðiæfingum og gera alla hvatvísi brottræka í bili.
Athugasemdir